136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég verði að svara fyrirspurninni þannig að það hefur tekist samkomulag sem byggir á ákveðnum forsendum. Það byggir í fyrsta lagi á þeirri forsendu að viðkomandi tilskipun hafi sama gildi á Íslandi og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu, sem að mínu áliti er reyndar sjálfgefinn hlutur. Það segir líka að íslenska ríkisstjórnin muni rísa undir þeim ábyrgðum sem á henni hvíla á grundvelli tilskipunarinnar, segir ekki meira en það og það finnst mér líka upp að vissu marki vera sjálfgefið að við mundum í öllu falli gera.

Síðan segir að í þeim viðræðum sem fylgja í kjölfarið muni verða tekið tillit til þeirrar erfiðu efnahagslegu stöðu sem upp er komin á Íslandi og það er skuldbinding af hálfu Evrópusambandsríkjanna um að koma til móts við okkur vegna þeirrar stöðu, aðstoða okkur við að koma bankakerfinu á fót að nýju og hjólum hagkerfisins, getum við sagt. Ég lít því þannig á að það eigi enn eftir að takast samningar um nánari útfærslu á þessu samkomulagi en það má segja að ramminn sé nú þegar kominn.