136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til að ekki gæti misskilnings hef ég annars vegar verið að vísa í viljayfirlýsinguna sem fylgir þingsályktunartillögunni og hins vegar í samkomulagið sem er að takast á milli okkar og Evrópusambandsríkjanna um að setja deilur vegna innlánsreikninganna í ákveðinn farveg og ég held að við getum haft einhvern endurskoðunarglugga þar. En ég held að fyrirkomulagið verði öðruvísi með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem það verður eiginlega eins konar stöðugt samráð. Væntanlega munum við halda frelsi okkar í flestöllu þó að markmiðin þurfi að vera skýr, sameiginleg markmið um að ná niður halla á fjárlögum og rekstrarkostnaði ríkisins á sem skemmstum tíma.

Varðandi hitt atriðið sem nefnt var með vextina og stöðu fyrirtækjanna vil ég taka undir með hv. þingmanni, það skiptir okkur öllu að ná vöxtunum niður hratt. Til þess að geta gert það þarf verðbólgan að koma niður sem allra fyrst. Helsta forsenda þess að við náum verðbólgunni niður er að við náum einhverjum styrk í gengið að nýju vegna þess að einkaneyslan er hrunin á Íslandi, það er fyrst og fremst kostnaðarverðbólga á landinu í dag vegna innfluttra vara og það mun breytast jafnskjótt og styrkur kemst í gengið að nýju. Verðbólgan mun falla mjög hratt og þá koma vextirnir í kjölfarið. Þetta þarf að gerast sem allra fyrst og við eigum að beita öllum kröftum okkar til að þetta megi verða vegna þess að ella verður vandi fyrirtækjanna í landinu og reyndar heimilanna (Forseti hringir.) enn meiri en þegar er orðið og er nóg um.