136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[15:51]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Vonir standa til. Já, það er einmitt það. Vonir standa til þess að þetta gangi allt afskaplega vel. En það er bara ekki þannig og við höfum hlustað á marga hagfræðinga halda því fram að það sé mikið glapræði að gera þetta með þeim hætti sem til stendur.

Við í Frjálslynda flokknum lögðum til að það yrði skoðað hvort hægt væri að ná samningum við aðrar þjóðir um að nota þeirra gjaldmiðil tímabundið eins og Norðmenn og jafnvel Bandaríkjamenn og jafnvel Evrópusambandið í þeirri krísu sem við erum í. Ekkert hefur verið gert til að kanna hvort það er raunhæfur möguleiki að fá að nota norsku krónuna, dollar eða jafnvel evru án þess að ganga í Evrópusambandið á meðan við værum að komast út úr þessari krísu.

Það er þannig að fjölskyldunum í landinu mun blæða mest fyrir þá tilraun sem gerð verður með krónuna. Það er fólkið sem er nú í þúsundatali að missa allt sitt. Það er fólk sem mun jafnvel ekki eiga til hnífs og skeiðar á næstu mánuðum. Það er fólk sem mun þurfa að leita eftir matargjöfum hjá Fjölskylduhjálp Íslands, Mæðrastyrksnefnd og Rauða krossinum og fleiri góðgerðarstofnunum sem eru að útbýta mat. Eins og allir vita hefur aldrei verið meiri ásókn í það hjá almenningi en í dag. Það er því mikill ábyrgðarhluti hjá mönnum að reyna ekki að kanna aðrar leiðir hvað það varðar að fá að taka upp annan gjaldmiðil en þann sem við notum. Eftir því sem ég best veit hafa ekki neinar tilraunir verið gerðar til þess að reyna að fá að taka upp annan gjaldmiðil tímabundið á meðan við erum að vinna okkur út úr mesta vandanum. Því til viðbótar (Forseti hringir.) hefði þurft að frysta verðtryggingu lána í þrjá til fjóra mánuði.