136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:08]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Já, nú eru í allt fimm þingmenn í þingsalnum. Enginn ráðherra er hér til að svara fyrir gerðir ríkisstjórnarinnar varðandi þingsályktunartillöguna sem við ræðum. Ég fagna því auðvitað að formaður þingflokks Samfylkingarinnar lýsi því yfir að fjölskyldum, einstaklingum og fyrirtækjum verði ekki mismunað. Ég fagna því.

Margir hagfræðingar hafa bent á — og það eru, nota bene, ekki hagfræðingar sem komu þjóðinni á hausinn. Hagfræðingar bæði í háskólanum og annars staðar starfandi hafa lagt til að í staðinn fyrir að setja krónuna á flot munum við reyna að ná samningum um að taka upp norska krónu. Þar vitna ég í Þórólf Matthíasson prófessor og fleiri hagfræðinga, sem hafa bent á að það væri leið — mig minnir að Geir Zoëga og fleiri hafi líka haft þær hugmyndir. En ég er ekki að segja að það sé endanleg eða varanleg lausn en við þurfum væntanlega að reyna að gera þetta með einhverjum öðrum hætti en við höfum gert. Þetta er ein hugmynd og ég veit ekki til þess að íslensk stjórnvöld hafi leitað eftir því við norsku ríkisstjórnina að gera þetta. Ég veit ekki heldur til að þau hafi talað við bandarísku ríkisstjórnina um að kanna að taka upp dollar og kannski síðast en ekki síst ekki talað við þessi 27 ríki, sem settu okkur stólinn fyrir dyrnar og eru með okkur í skrúfstykki og pína okkur meira en góðu hófi gegnir og neyða okkur til að falla frá því að setja deilur okkar við þær í gerðardóm, og athugað hvort við gætum ekki fengið að taka upp evru einhliða um stund.