136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:10]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki kom skýrt fram í andsvarinu hver væri vilji hv. þingmanns. Ég held að ég geti leyft mér að segja að Þórólfur Matthíasson — ég vil byrja á því að segja að hagfræðingar eru kannski ekki ástæðan fyrir því að Ísland er í þeirri stöðu sem það er, ekki hægt að kenna þeim um það einvörðungu. (GMJ: Hver er það þá?) Til að draga þetta saman held ég að ýmsir hafi komið að þeim verkefnum og í sjálfu sér er staðreyndin vitaskuld sú að þeir sem eiga stærstan þátt eru þeir sem misstu fótanna í því athafnafrelsi sem þeim var skapað en á sama hátt má segja um stjórnvöld að þau hafa ekki sinnt eftirliti til að tryggja að aðrir yrðu ekki fyrir tjóni af misnotkun á athafnafrelsinu. Hv. þingmaður sagði ekki beint hvað hann sæi fyrir sér. Þórólfur Matthíasson hefur varpað því fram, ég veit ekki hvort það er meira í gamni eða alvöru, að hægt væri að taka upp norsku krónuna en það gæti aldrei verið meira en millileikur að evrunni.

Við tölum hins vegar um það, hv. þingmaður, að það þarf að fá vernd á gjaldmiðil sem virkar á Íslandi og það þarf að gerast á næstu vikum, vil ég leyfa mér að segja. Það að taka upp aðra mynt getur tekið lengri tíma auk þess sem við þurfum að gera það í sátt við alþjóðasamfélagið. Við getum ekki staðið í fleiri efnahagsstríðum. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að endurtaka spurninguna og kalla eftir skýrari afstöðu, ekki bara tilvitnun í hugmyndir sem hafa verið settar fram heldur hvað hv. þingmaður telur að við eigum að gera annað en það sem nú stendur til, þ.e. að setja krónuna á flot? Mikilvægt er ef við setjum hana á flot að við reynum að gera það á eins traustan og trúverðugan hátt og kostur er. Mér fannst hv. þingmaður gjalda varhuga við því en hvert er besta plan B sem hv. þingmaður kemur fram með í þessu?