136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:12]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Plan B að mínu mati hefði átt að vera strax í upphafi að senda sendinefndir bæði til Noregs og Bandaríkjanna til að athuga hvort hægt væri að taka upp gjaldmiðil þeirra þó ekki nema í stuttan tíma á meðan við værum að skoða framtíðarplön, eins og margir eru með í gangi núna. Við gætum endað með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þar eru gjaldeyrismál með öðrum hætti og vel getur verið að það verði endapunktur hjá okkur en við sjáum það ekki fyrr en við höfum sótt um aðild að ESB og séð hvað er í boði. Það er auðvitað ekki sniðugt að hafna því fyrir fram eða, eins og sumir gera, telja það sjálfsagt, hvað sem í boði er og kaupa það hvaða verði sem er.

Þessir ágætu menn sem hafa það eftirlitshlutverk að fylgjast með bankakerfinu, bankastarfsemi og annarri starfsemi í landinu hvort sem það er lögregla, fjármálaeftirlit eða Seðlabanki, þá er það þannig — það var alla vega þannig í handbolta og fótbolta í gamla daga að menn spiluðu jafngróft og dómarinn leyfði. Það á einmitt við í þessu fjármálabraski og fjármálaheimi, þeir sem áttu að taka á málunum stóðu sig ekki í stykkinu. Þeir veittu ekki það eftirlit sem þurfti. Þeir komu ekki með athugasemdir og stungu jafnvel skýrslum um aðvaranir erlendis frá undir stól trekk í trekk. Við getum rifjað upp þegar við fengum aðvaranir frá dönskum fjármálastofnunum. Danir voru bara öfundsjúkir af því að við áttum svo margar húseignir í Kaupmannahöfn. Svona rök voru og allir sem vöruðu við þróuninni voru úthrópaðir sem (Forseti hringir.) einhverjir svartagallsúrtölumenn.