136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Við ræðum aðstoð IMF, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, við íslenska ríkið, ef aðstoð skyldi kalla. Greinilegt er að aðstoðin er bundin ákveðnum skilyrðum og sá ótrúlegi dráttur sem varð á henni og olli gífurlegu tjóni hér á landi, var auðvitað vegna þess að verið var að þrýsta á um eitthvað. Það var verið að þrýsta á um samkomulag vegna Icesave-reikninganna. Enginn þarf að segja mér neitt annað. Að láta sér detta í hug eitthvað annað er bara brandari, herra forseti. Verið var að kúga Ísland til að semja um Icesave-reikningana og allt Evrópusambandið stóð að þeirri kúgun, allt Evrópusambandið. Og svo vilja sumir ganga inn í þetta ágæta Evrópusamband til þessara svokölluðu vina okkar.

Það er galli í reglugerðum Evrópusambandsins. Samkvæmt þeim á bankakerfið að greiða fyrir innlánstryggingar með því að greiða 0,15% af innlánum inn í innlánstryggingasjóð þar til 1% er náð á tæpum 7 árum. Þannig er þetta gert á Íslandi, það var tilkynnt út og viðurkennt og ekki hafa komið mótmæli við því þannig að við förum algerlega að reglum Evrópusambandsins. Innlánstryggingasjóðurinn má svo taka lán ef einhver vill lána honum, væntanlega með veði eða í trausti þess að inn komi greiðslur frá bankakerfinu í framtíðinni sem borgi lánið upp. Hvergi er orð um ríkisábyrgð, enda væri það fráleitt.

Krafa Hollendinga og Breta og Evrópusambandsins alls er stefnubreyting í málinu. Hún er stefnubreyting að því leyti að hverfa á frá því að bankakerfið sjálft greiði innlánstryggingarnar til þess að skattgreiðendur í heimalandi viðkomandi banka greiði þær. Þetta er stefnubreyting, mjög alvarleg stefnubreyting vegna þess að samkvæmt íslensku stjórnarskránni er bannað að greiða fé úr ríkissjóði nema með fjárlögum. Við getum ekki heimilað lög sem gera ábyrgð ríkissjóðs sjálfvirka vegna þess að einhver hollenskur sparifjáreigandi leggur inn í íslenskt útibú í Hollandi sem íslenska ríkisstjórnin getur ekki stöðvað. Það er alveg fráleitt að íslenskir skattgreiðendur eigi að borga það og það vita menn.

Þegar þessi galli kom í ljós hér á landi urðu evrópskir stjórnmálamenn auðvitað hræddir og skelfingu lostnir. Þeir komu strax og vildu að við borguðum til að tryggja traust sparifjáreigenda á bankakerfinu í Hollandi og Bretlandi. Við áttum að borga fyrir traust evrópskra sparifjáreigenda því þetta hefði farið eins og eldur í sinu um alla Evrópu og síðan um allan heim ef traust manna — það er komið í ljós að í rauninni er ekki til nein innlánstrygging nema þegar allt er rólegt og einn banki af hverjum 100 fer á hausinn á sjö ára fresti. Þá er allt rólegt, þá gengur þetta upp. En um leið og kemur einhver mikil katastrófa eins og á Íslandi þá kemur í ljós að kerfið virkar ekki og menn óttuðust að sparifjáreigendur í Evrópu mundu sjá það og vel getur verið að þeir hafi séð það. Þeir ákváðu sem sagt að flytja greiðslubyrðina frá bankakerfinu til skattgreiðenda — íslenskra skattgreiðenda því þeir liggja svo vel við höggi af því að Ísland er svo lítið.

Í Hollandi hefði þingið aldrei samþykkt að hollenskir skattgreiðendur yrðu settir í áratuga fátækt til að bjarga innstæðum í Bretlandi, sem eru reyndar ansi miklar í hollenskum bönkum. Ætli hollenskir skattgreiðendur yrðu ekki hissa ef þeir ættu að borga sér til fátæktar vegna þess að einhver Breti lagði inn peninga í hollenskt útibú í London?

Þessi nýja túlkun Evrópusambandsins á reglum tilskipunarinnar brýtur greinilega stjórnarskrána íslensku og ég reikna með að hún brjóti líka aðrar stjórnarskrár í Evrópu. Það getur ekki verið að einkafyrirtæki og einkaaðilar geti skuldbundið breska ríkið eða það hollenska. Þetta er sem sagt staðan varðandi Icesave-reikningana og svo er þvingunum beitt.

Frú forseti. Mér líður eins og ég hafi hitt ræningja í skógi í myrkri. Þegar slíkt gerist veltir maður ekki fyrir sér hvort löglegt sé að afhenda honum veskið. Maður bara afhendir það, frú forseti, og ræðir ekki fram og til baka hvort það sé löglegt eða ekki. Þannig er þetta. Allt Evrópusambandið stóð einhuga að því að þvinga mig eða okkur í þessa stöðu. Það hefur engan skilning á stöðu okkar og skilur ekki að ef aðalauðlind þjóðarinnar, mannauðurinn, fer úr landi er landið og við miklu verr sett en ella. Ég hugsa að Danir hafi í eina tíð, í þeirri 600 ára eymdarsögu Íslands þegar það var tengt landi suður í Evrópu, haft meiri skilning á högum Íslendinga en þessir menn í Brussel og var sá skilningur samt ekkert voðalega mikill, enda fátækt mikil á Íslandi og mannfækkun — ekki vegna útflutnings á fólki heldur vegna þess að það hreinlega drapst. Svo vilja sumir hér á landi ganga í þennan klúbb svokallaðra vina okkar í Evrópu og halda að þeir verði þá eitthvað betri við okkur, hafi meiri skilning þegar við erum orðin lítið hérað, pínulítill hreppur í því risastóra ríki. Ég þakka fyrir.

Ég tel að við þurfum að líta á þetta allt. Í ljós hefur komið að bankar um alla Evrópu lánuðu íslensku einkabönkunum óhemjufé. Sumir geta sagt að það sé ábyrgðarleysi að lána svo mikið fé til einkabanka þegar séð var að þetta var orðin margföld þjóðarframleiðsla Íslands. Það sé líka ábyrgðarhluti. En þessir menn vilja að við greiðum líka og tökum þátt í að leysa vanda þeirra. Þetta er mjög skrýtin staða, frú forseti, og ég legg til að menn gangi til friðarsamninga eins og þjóðir gerðu eftir fyrri heimsstyrjöldina og spyrji: Hvað haldið þið að íslensk þjóð geti borgað? Og við göngum að því, tökum verkið og borgum það sem íslensk þjóð getur án þess að aðalauðlindin, mannauðurinn fari úr landi. Það þarf að fá alla þessa aðila að borðinu og þeir þurfa og verða að hafa skilning á högum Íslendinga. Ella legg ég til að hv. Alþingi felli samkomulagið og láti sparifjáreigendur í Hollandi og Bretlandi uppgötva sannleikann svo þeir fari að rífa út fé sitt. Það er okkar vopn í árásinni í dimmum skógi, það er okkar vopn.

Ég legg til að þingmenn taki sig saman og hugleiði hvað við getum borgað mikið og þá upphæð setjum við sem efri mörk á það sem við ætlum að samþykkja og ekki krónu meir, því enginn akkur er í því að hér gerist það sama og í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöldina, óðaverðbólga og skuldin var svo aldrei borguð. Þjóðverjar áttu samkvæmt friðarsamningum að borga 0,7 kg af gulli hver einstaklingur en okkur er gert að borga nærri 2 kg og sennilega verður það meira þegar allt kemur til. Þessar greiðslur bætast við þau gífurlegu áföll sem íslenska þjóðin hefur orðið fyrir vegna hruns 90% af bankakerfinu og ætti eiginlega að duga til að þessi svokallaði Alþjóðagjaldeyrissjóður hjálpi okkur. En í staðinn notar hann hjálpina til að kúga okkur, sem er alveg með ólíkindum.

Ég vona að gjaldeyrismarkaðurinn fari í gang og ég vona að hann nái jafnvægi því að við erum með jákvæðan viðskiptajöfnuð. Þjóðin er farin að spara mjög mikið. Innflutningur hefur minnkað og útflutningur hefur aukist þannig að við ættum að ná okkur eftir ekki mjög langan tíma ef við ráðum við þessar gífurlegu skuldbindingar sem á okkur er dembt án dóms og laga.