136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[16:56]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Það er nokkuð liðið á þessa umræðu og eins og gefur að skilja hafa menn komið víða við í henni. Ég vildi fyrst geta þess að málið snýst um það að við Íslendingar erum komnir í afar vonda stöðu og allir gera sér það ljóst. Við getum haldið miklar ræður um það hvernig á því stendur, hver eru áhrif innlendra ákvarðana þar á og hver eru áhrif alþjóðlegrar fjármálakreppu en staðreyndin er sú að við erum í afar vondri stöðu. Við erum að reyna að leita leiða til að komast út úr þeirri stöðu til að vinna okkur upp að nýju og það mál sem liggur fyrir þinginu í dag snýst um mikilvæg skref í því sambandi. Það eru auðvitað fyrstu skrefin sem ná ekki til allra þátta en það lán og sú lánafyrirgreiðsla sem við vonumst til að fáist frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum ríkjum á grundvelli þess samkomulags sem gert var við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn er mjög mikilvæg forsenda þess að við getum byrjað að vinna okkur upp úr vandanum. Það er kjarni málsins.

Ég nefndi að þetta er vond staða sem við erum í og enginn vildi vera í þeim sporum að þurfa að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Enginn í þessum sal, enginn sem að þessu máli hefur komið. Þetta er ekki óskastaða fyrir nokkurn mann. En eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði í ræðu sinni áðan eru kannski ekki margir kostir í stöðunni, alla vega eru ekki neinir góðir kostir í stöðunni. Það er á þeim grundvelli sem ég er þeirrar skoðunar að okkur þingmönnum beri að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir vegna þess að þó að ekki sé gott að þurfa að gera samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um fyrirgreiðslu af þessu tagi er það þó leið á þeirri vegferð sem við þurfum að hefja, að endurreisa íslenskt efnahagslíf. Það er grundvallaratriði í afstöðu minni í þessu máli.

Hér var spurt: Hvaða ávinningur er af þessari lánafyrirgreiðslu? Það liggur nokkuð ljóst fyrir í mínum huga, með því er aflað lánsfjár til að styrkja gjaldeyrisforða okkar og þar með fæst bakstuðningur sem er nauðsynleg forsenda til þess að hægt sé að koma gjaldeyrisviðskiptum í eðlilegt horf. Samhliða þessu liggur auðvitað líka fyrir ákveðin áætlun íslenskra stjórnvalda um endurreisn efnahagslífsins sem gerð er að forsendu fyrir fyrirgreiðslunni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hún er eins og áður hefur verið nefnt í umræðunni ákveðinn vegvísir fyrir okkur á þeirri leið sem fram undan er. Þar eru nefndir fjölmargir þættir sem við þurfum að gera til að koma okkar málum í lag. Margt af þessu eru þættir sem við hefðum hvort sem er þurft að gera þó að ekki kæmi til fyrirgreiðslan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er hins vegar klárt að það að við vinnum þessi mál í samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn gefur endurreisnaráætlun okkar meiri trúverðugleika gagnvart öðrum ríkjum. Það gefur trúverðugleika gagnvart þeim ríkjum sem eru tilbúin til að veita okkur lánafyrirgreiðslu og það styrkir þess vegna það endurreisnarprógramm sem við þurfum að vinna að.

Hér í umræðunni hefur verið fjallað nokkuð um aðdraganda þessa máls og málsmeðferð ríkisstjórnarinnar verið gagnrýnd í ýmsum atriðum. Ég held að nægar skýringar hafi í rauninni komið fram á þeim þætti. Það hefur legið fyrir að ekki var hægt að gefa upp efnisatriði þeirrar yfirlýsingar sem hér er birt sem fylgiskjal vegna trúnaðar sem menn urðu að virða gagnvart stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það skýrir auðvitað hvers vegna málið hefur ekki fyrr komið inn í þingið.

Í annan stað hefur verið gagnrýnt að langur tími hafi liðið frá því að málið átti sér upphaf í því að við sóttum um fyrirgreiðsluna og þangað til þeirri afgreiðslu lauk og menn hafa velt því svolítið fyrir sér hvers vegna svo hafi verið. Ég held að sá þáttur hafi líka verið skýrður afar vel, það voru ekki ástæður sem sneru að íslenskum stjórnvöldum heldur að afstöðu annarra ríkja sem aðild eiga að stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Ég held að íslenska ríkisstjórnin hafi gert allt sem í hennar valdi stóð til að reyna að fá þetta mál hratt í gegn en því miður var fyrirstaða hjá öðrum ríkjum sem tafði það. En ég er sammála þeim sem áður hafa talað hér í dag og bent á að sú töf sem varð á afgreiðslu málsins hefur vissulega verið skaðleg.

Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að til viðbótar. Eitt er það sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir vék sérstaklega að og kom reyndar fram í máli hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar varðandi það hvernig sá gjaldeyrisforði sem fæst með lánafyrirgreiðslunni verði nýttur. Í mínum huga er alveg skýrt og mér finnst það alveg ljóst af því plaggi sem hér er til umræðu að ekki er ætlunin að verja þeim fjármunum sem fást með þessari lánafyrirgreiðslu til að verja vonlausa stöðu krónunnar, þ.e. að ekki er ætlunin að reyna að halda uppi óraunhæfu gengi. Þvert á móti er talað um það í hinum fræga 19. lið að leyfa verði genginu að nálgast jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Þess vegna held ég að áhyggjur sem fram hafa komið, og eru vissulega ekki úr lausu lofti gripnar, um að gjaldeyrisforðanum verði varið í einhverja vonlausa baráttu séu ástæðulausar vegna þess að ég held að stjórnvöld bæði á vettvangi ríkisstjórnar og Seðlabanka séu vel meðvituð um að þarna er hætta fyrir hendi. Það er einmitt þess vegna sem menn gera ráð fyrir að gengi krónunnar muni lækka skarpt eftir að gjaldeyrisviðskipti hefjast að nýju áður en hún tekur síðan að styrkjast. Hins vegar er líka nauðsynlegt að hafa í huga að ekki er hægt að útiloka að gjaldeyrisvaraforðanum verði beitt undir einhverjum kringumstæðum. Það er mjög mikilvægt að hann sé fyrir hendi þannig að það liggi fyrir að geta sé til að bregðast við miklum sveiflum ef talið er nauðsynlegt og skynsamlegt að gera það.

Rétt í lokin vildi ég geta þess í tilefni orða hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um þann lið í yfirlýsingu stjórnvalda sem lýtur að því að eignarhald ríkisins á viðskiptabönkunum verði ekki varanlegt, þá hygg ég að flestir geti verið sammála um að það sé ekki æskileg framtíðarsýn að ríkið sé eigandi þriggja viðskiptabanka, eini eigandi þriggja viðskiptabanka. Það liggja auðvitað ekki fyrir nein áform um hvernig staðið yrði að sölu þessara banka þegar að því kemur, hins vegar er alveg klárt að menn munu fara varlega í svoleiðis aðgerðum. Ég held að það sé alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn eða hvaða ríkisstjórn sem sæti mundi fara varlega í því hvernig að því yrði staðið, bæði hvað varðar tímasetningu slíkra aðgerða og með það í huga að ná sem hagstæðustum kjörum á slíkri sölu en auðvitað hljóta menn líka að hugsa út í aðrar afleiðingar slíkra ráðstafana.

Ég bendi á að þó að það sé rétt sem fram kom að ríkið sé enn eigandi að hlutabréfum í norrænu bönkunum sem vísað var til áðan þá var, að því að ég tel miðað við mínar upplýsingar, allgott samkomulag um að ríkið losaði stóra hluti úr þeim bönkum tiltölulega fljótt eftir að ríkið tók þá yfir á síðasta áratug. Ef menn leita fyrirmynda þar má sjá að ekki var staðið gegn því að ríkið losaði sig út úr eignarhaldi þótt ákveðið væri af ástæðum sem eru kunnar að halda minnihlutaeigu í því sambandi. Ég vil undirstrika að það er mikilvægt að (Forseti hringir.) ríkið verði ekki til langframa eigandi allra viðskiptabanka í landinu, 90% af fjármálastarfseminni, en vissulega er ástæða til að fara varlega og læra af fyrirmyndum annarra þjóða (Forseti hringir.) varðandi það hvernig staðið yrði að því.