136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að svara því til hvort mótuð hefur verið einhver áætlun af hálfu stjórnvalda um nýtingu gjaldeyrisforðans. Hins vegar held ég að öllum sé ljóst að slíka áætlun eða slík áform er ekki hægt að gefa upp fyrir fram vegna þeirra áhrifa sem það kynni að hafa á markaðinn að þessu leyti. Þess vegna held ég að við verðum að gefa stjórnvöldum, ríkisstjórn og Seðlabanka, ákveðið svigrúm, við getum ekki krafist þess að skýr svör komi um það fyrir fram hvernig nýta eigi gjaldeyrisvaraforðann vegna þess að ef slíkar áætlanir lægju fyrir og væru opinberar og öllum aðgengilegar mundi það gefa mönnum kost á að spila á markaðinn að þessu leyti. Þess vegna verðum við að ætla að stjórnvöld þurfi að hafa talsvert svigrúm til að bregðast líka við og á þeim forsendum er ekki hægt að ætlast til þess, eins og mér heyrist mega ráða af orðum hv. þingmanns, að hér séu lagðar fram eða skýrðar skýrar áætlanir eða skýr áform um það hvernig gjaldeyrisvaraforðinn verði nýttur. Ég held að menn geri sér grein fyrir að ekki er hægt að leggja slíkt á borðið fyrir fram vegna þess að þarna er um að ræða samspil ákvarðana stjórnvalda og ákvarðana aðila úti á markaði og ef öll áform stjórnvalda liggja fyrir hefur það áhrif á hegðun aðila á markaði sem reyna, eins og við þekkjum bæði hér á landi og í öðrum löndum, að spila á þetta samspil með því að hámarka sinn hagnað. Við getum þess vegna ekki lagt öll spil á borðið.