136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:25]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Herra forseti. Það var hlálegt sem nýr þingmaður að sitja hér í morgun og hlusta á hamingjuóskir með lánið frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta er neyðarlán sem er verið að þröngva upp á þjóðina vegna þess algjöra dugleysis og ráðaleysis sem ríkisstjórnin hefur sýnt í viðbrögðum sínum við alþjóðalausafjárkreppunni.

Nú er ljóst að langt er síðan ríkisstjórninni var gerð grein fyrir í hvað stefndi, að íslenskir bankar væru orðnir allt of stórir og skuldsettir fyrir íslenskt samfélag. Fyrir lá fjöldi viðvarana, þar á meðal frá okkur framsóknarmönnum, sem voru algjörlega hundsaðar. Forustumenn þjóðarinnar, þeir sem þjóðin kaus til að stjórna landinu voru allt of önnum kafnir við að ferðast með einkaþotum heimshornanna á milli, jafnvel í boði útrásargreifanna. Engin viðbragðsáætlun var til staðar, ég endurtek: engin viðbragðsáætlun var til staðar, og síðustu vikur hafa einkennst af því. Mistök á mistök ofan hafa verið gerð og þar geta samfylkingarmenn ekki vikið sér undan ábyrgð, hversu mikið sem þeir hrópa og benda í aðrar áttir. Þannig er nefnilega að árinni kennir illur ræðari. Þetta er það sem mér finnst einkenna málflutning ríkisstjórnarinnar í heild, bæði þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Hæstv. forseti. Það er ögurstund í sögu íslensku þjóðarinnar. Með þessari þingsályktunartillögu er verið að leggja til að börnum okkar og barnabörnum verði sendur 700 milljarða reikningur fyrir ráðleysi sitjandi ríkisstjórnar og hin sama ríkisstjórn biður svo þjóðina um að sýna samstöðu. Samstöðu? Það sást best hversu mikil samstaðan er innan ríkisstjórnarinnar hér í morgun. Samfylkingin virðist hafa það eitt til málanna að leggja að gagnrýna, að þeirra mati, afdankaða og úrelta bankastjórn Seðlabankans, en stendur samt að þessari þingsályktunartillögu, tillögu sem virðist hafa verið unnin af seðlabankastjóra með forsætisráðherrann í farþegasætinu og fjármálaráðherrann aftur í. Fékk bankamálaráðherra að vera með í þetta sinn, talandi um tvískinnung? Svo undra menn sig á að fólk mótmælir og hrópar eftir nýjum vinnubrögðum og raunverulegum lausnum.

Hvað felst í þessu samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn? Menn ætla að halda áfram að reiða sig á krónuna — sem þeir telja að vísu handónýta — án þess að það komi fram sérstaklega hvernig þeir ætla að gera það. Nefnt er mikilvægi stöðugleika, vextir verða hækkaðir, gjaldeyrishöftum beitt, já, og bankar eiga ekki lengur að fá lán frá Seðlabankanum.

Svo segir í 20. gr., með leyfi forseta:

„Við gerum ráð fyrir að traust verði brátt endurvakið þannig að vextir geti lækkað í kjölfarið.“

Og aðeins neðar:

„Þetta mun gera okkur kleift að slaka á hömlum á lánveitingum Seðlabankans og smám saman reiða okkur aftur á stýrivexti sem aðalstjórntæki peningamála innan ramma sveigjanlegrar gengisstefnu. Í þessu efni reiknum við með að krónan styrkist fljótt og að verðbólga á ársgrundvelli verði komin í 4,5% við lok ársins 2009 og að krónan styrkist enn frekar og verðbólgan haldi áfram að hjaðna árið 2010.“

Hljómar þetta ekki ansi kunnuglega? Hversu oft höfum við ekki heyrt ríkisstjórnina, seðlabankastjórnina og greiningardeildir gömlu bankanna tala svona? Enn hljómar platan þrátt fyrir að margir af okkar virtustu hagfræðingum segi að stjórn peningamála með stýrivöxtum samhliða sveigjanlegri gengisstefnu gangi ekki fyrir þetta pínulitla, opna myntsvæði okkar. Hvar eru hugmyndirnar um hvernig eigi að endurreisa atvinnulífið? Það er talað um endurskipulagningu bankakerfisins og endurskoðun gjaldþrotalaga, stefnuna í opinberum fjármálum, peninga- og gengismál, kjaramál, utanaðkomandi fjármögnun en ekki orð um endurreisn atvinnulífsins. Hvar eru tillögurnar um stuðninginn við atvinnulífið? Hvar eru hugmyndirnar um hvernig eigi að koma undirstöðuatvinnugreinum landsins til aðstoðar?

Sjávarútvegur er stórskuldugur. Skuldir landbúnaðarins hafa stóraukist á undanförnum árum og þyngstu byrðarnar hvíla oft á ungu fjölskyldufólki sem hefur ákveðið að fjárfesta í nýjum tækjum og kvóta, og ferðaþjónustan á ekki auðvelt núna með sín gengistryggðu lán frá bönkum og Byggðastofnun. Grundvöllur þess að þjóðin geti staðið undir þeim skuldbindingum sem ríkisstjórnin hefur komið okkur í er að treysta atvinnulífið í landinu. Þannig þarf einnig að tryggja að orkufrekur iðnaður geti blómstrað hér á landi. Tryggja þarf að orkufyrirtækin geti farið í þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar til að fjölga atvinnutækifærum. Við þurfum að leggjast á eitt við að treysta grunnatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútveg, landbúnað, ferðaþjónustu og orkufrekan iðnað þannig að hin raunverulega endurreisn Íslands geti hafist.