136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:41]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Að gefnu tilefni, þar sem hæstv. fjármálaráðherra er kominn í salinn, vil ég ítreka spurningar mínar. Hvar eru hugmyndirnar um hvernig eigi að endurreisa atvinnulífið? Ég fór í gegnum það í ræðu minni fyrr að mér finnst þær algjörlega skorta í þessu plaggi þar sem verið er að leggja fram hugmyndir eða tillögur varðandi atvinnulífið. Þar er talað um endurskipulagningu bankakerfisins, endurskoðun gjaldþrotalaganna og stefnu í opinberum fjármálum. Þar er talað um peninga og gengismál, kjaramál og utanaðkomandi fjármögnun en það er ekki talað neitt um endurreisn atvinnulífsins.

Þetta hefur mér líka fundist einkenna þær tillögur sem hafa komið frá ríkisstjórninni að undanförnu. T.d. tillögur frá síðasta föstudegi þar sem var verið m.a. að leggja til að barnabætur væru greiddar út mánaðarlega. Ég get sagt það fyrir mína parta, og ég á tvær dætur, að það hvort ég mundi fá greiddar barnabætur mánaðarlega skipti mig ekki neinu máli ef ég væri búin að missa vinnuna.

Ég vildi líka gjarnan benda á að þegar ég talaði um orkufyrirtækin okkar og orkufrekan iðnað var ég ekki að tala bara um ál, þótt ég geti hins vegar alveg lýst því yfir að ég hef stutt þær framkvæmdir, bæði á Austfjörðum og á suðvesturhorninu. Ég var að tala um að það er fullt af tækifærum í orkufrekum iðnaði sem byggjast ekki bara á áli, sérstaklega á því svæði sem ég hef starfað í, Suðurkjördæmi. Þar eru mikil tækifæri og fyrirtæki sem hafa verið að bíða eftir því að komast til landsins og ætla sér að vera í útflutningi. Þá er að vísu talað um álþynnur og „polysilicon“. Það er talað um gagnaver og svo má kannski ekki gleyma því að hluti af landbúnaðinum er ekkert annað en orkufrekur iðnaður. Það eru gróðurhúsin okkar, garðyrkjan. Ég vil leiðrétta þetta hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.

Ég vil líka (Forseti hringir.) ítreka að ég hef töluverðar áhyggjur af því að sumir hæstv. ráðherrar virðast (Forseti hringir.) halda því fram að þeim hafi verið haldið algjörlega fyrir utan hlutina.