136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:48]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður ræddi möguleikana á því að taka ekki lán hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og lækka vexti o.s.frv. Hún ræddi nokkuð um stöðu heimilanna og hversu mikilvægt það væri að tryggja hag þeirra. Hún ræddi einnig um opinbert fjármagn til atvinnuveganna og síðan möguleikana á því að reka ríkissjóð með halla í einhver ár.

Ekkert skiptir meira máli fyrir heimilin en það að ná tökum á verðbólgunni. Eins og staðan er í dag, og fyrirsjáanlegt að hún verði á næstunni, eru það gengisbreytingar, gengislækkanir, sem valda mestum óróa þar og sérstaklega vegna verðtryggingarinnar. Það þýðir að það er lykilatriði að ná tökum á gengisþróuninni og það er það sem verið er að gera númer eitt, tvö og þrjú með því að taka lánið og koma krónunni á flot aftur. Ekki vegna þess að menn ætli að fara að dæla einhverjum peningum út á gengismarkaðinn heldur þurfa menn að hafa trúverðugleika hvað það varðar að hafa möguleika á því að geta staðið við það þegar markaðurinn er opnaður á ný.

Ef við ætlum síðan að fara að reka ríkissjóð með halla í einhver ár og setja opinbera fjármuni í fyrirtækin þurfum við á lánstrausti að halda og það lánstraust fáum við með því að ná tökum á gjaldmiðlamarkaðnum og með því að eiga samskipti og viðskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og nágrannaþjóðir okkar á þennan hátt.

Varðandi fyrirspurnir hv. þm. Eyglóar Harðardóttur til mín í andsvarinu til hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur þá ræddi ég þau atriði einmitt í ræðu minni hér fyrr í dag, hvernig við ættum að horfa fram á veginn með hag atvinnuveganna fyrir augum.