136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[17:50]
Horfa

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra segir að meginverkefnið sé að ná tökum á verðbólgunni. Jú, það er vissulega eitt af þeim meginverkefnum sem við stöndum frammi fyrir. En í greininni sem ég vitnaði til í ræðu minni, sem birtist í Morgunblaðinu í gær, eftir Daða Má Kristófersson, Jón Daníelsson og Ragnar Árnason, benda þeir á nokkuð sem mér finnst afar athyglisvert og það er rétt að hæstv. ráðherra bregðist þá við því. Þeir segja að staðan sé sú að erlendis hafi gengismarkaðurinn nú þegar myndast á nýjan leik og þeir segja að gengi krónunnar á þeim markaði hafi hækkað og færst nær skráðu gengi innan lands. Þeir segja að greið alþjóðleg markaðsviðskipti með krónuna og jafnvægisgengi hennar innan lands og erlendis virðist því tiltölulega skammt undan. Þeir segja líka að það meginhlutverk lánsfjár frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að styðja við bakið á gjaldmiðli í frjálsu falli, sé því ekki lengur til staðar.

Þeir segja að vísbendingarnar séu um það að jafnvel þó að krónan falli talsvert þegar hún verður sett á flot muni það ekki vera í mjög langan tíma, það verði kannski mjög skammur tími úr því að þessar vísbendingar eru þegar komnar upp á markaðnum að krónan nái að stabilísera sig.

Ég vil líka fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hann telji „rétt“ gengi krónunnar vera. 80 kr. evran, það getur ekki verið rétt gengi. Við hljótum að þurfa að færast nær einhverjum veruleika í þeim efnum. Kannski ekki upp í 170 kr. eins og staðan er nú en einhvers staðar hljótum við að gera okkur mynd af því hvar krónan liggi.

Varðandi það að við fáum lánstraust með láninu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá er ég einfaldlega ósammála hæstv. fjármálaráðherra. Ég tel að ríkisstjórnin hafi gert hroðaleg mistök þegar hún ákvað að tala við seðlabankastjórana á Norðurlöndunum fyrstu dagana eftir bankahrunið í stað þess að fara beint í að tala á pólitískum nótum við ríkisstjórnir Norðurlandanna.