136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:08]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Herra forseti. Byrjar enn önnur biluð platan. Ég vil þó byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góðar kveðju til mín hérna við upphaf minna þingstarfa. En þessi plata er náttúrlega orðin ansi rispuð, þ.e. að framsóknarmenn séu þeir einu sem eigi að bera einhverja ábyrgð í þessum málum. Ég mætti kannski minna á að það eru, held ég, 18 mánuðir liðnir frá því að framsóknarmenn fóru frá og fyrir okkur konurnar getum við borið þetta saman kannski við tíma sem er stundum ansi lengi að líða í okkar huga og það eru tvær meðgöngur. Við gætum sem sagt verið búnar að eignast tvö börn á þeim tíma. Ég held að það sé algjörlega á hreinu að Framsókn hefur náttúrlega axlað sína ábyrgð en það eru margir menn sem hafa farið frá síðan þá.

Ég vil líka minna á það í tilefni af því sem var minnst á varðandi bankana að einkavæðingarnefnd sem stóð að einkavæðingu bankanna var undir forsætisráðuneytinu sem ég man ekki betur en hafi verið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins í ansi mörg ár.

Eitt atriði líka. Það var aðeins nefnt í ræðu hv. þingmanns varðandi að bjarga bönkunum. Ég vil bara ítreka það að bönkunum var ekki bjargað. Bankarnir eru gjaldþrota. Það voru stofnaðir nýir bankar, Nýi Glitnir, Nýi Landsbankinn og Nýja Kaupþing. Það hafa að vísu einhverjir af þeim fengið nýjar skammstafanir.

Ég hef líka haft miklar áhyggjur af því að menn sem hefðu átt að vera í lykilaðstöðu til þess að koma á framfæri ákveðnum upplýsingum, þar á meðal Davíð Oddsson seðlabankastjóri, sem skrifaði einmitt ásamt hæstv. fjármálaráðherra undir þá viljayfirlýsingu sem fór til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þ.e. að verið var að koma á framfæri á þessum síðustu 18 mánuðum upplýsingum til ríkisstjórnarinnar um að að staðan væri alvarleg og hún varð sífellt meira alvarleg. En það virtist bara vera að ákveðnir ráðherrar og hugsanlega þá bara ríkisstjórnin í heildina hafi bara verið föst í (Forseti hringir.) hlutverki klappstýru og bara ekki komist út úr því.