136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:19]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig engan veginn á því hvernig hv. þingmaður fær þetta út því að ég sagði einmitt að við værum með lítið efnahagskerfi og að við værum með íslenska krónu, það væri umhverfið sem bankarnir störfuðu í. Þess vegna hefðu þeir áttað sig á því að ekkert bakland væri fyrir hendi hér sem gæti komið til móts við 13 þús. milljarða skuldsetningu bankanna. Mér finnst það svo augljóst. Það er tíu sinnum landsframleiðslan.

Ég sagði að bankarnir hefðu átt að átta sig á því að baklandið gæti aldrei verið svo sterkt hjá þessari fámennu þjóð. Þess vegna áttu þeir ekki að vaxa svona í því umhverfi sem þeir voru. Ef þeir hefðu verið búnir að flytja sig út fyrir landsteinana hefði það kannski verið raunhæft. Það hafa forsvarsmenn bankanna líka sjálfir sagt.

Varðandi hvort farið hafi verið óþarflega óvarlega að við einkavæðingu bankanna sagði ég að þótt ég teldi núna að við hefðum átt að fara öðruvísi að væri auðvelt að vera vitur eftir á. Það er auðvelt að vera vitur eftir á í þessu máli, það er margt sem maður hefði viljað gera öðruvísi. En ég undirstrika það sem ég sagði í ræðu minni að það er ekki vegna þess að allt hafi verið gert svona vitlaust á Íslandi. Það sem gerðist var bara að bankakerfi heimsins hrundi. Við vorum hluti af því. (Gripið fram í.) Ríkisstjórnin gerði flest rétt, hv. þingmaður.