136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:31]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum rekið hér peningamálastefnu með afar háum stýrivöxtum. Ég er ein þeirra sem talað hafa fyrir lækkun stýrivaxta jafnt í þingflokki mínum sem annars staðar, og þar held ég að ég svari spurningu hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar.

Þær spurningar sem ég ber upp í dag, og spyr sjálfa mig jafnt sem aðra — hvort ég hafi borið þær upp í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Svarið er nei. Ég fékk þetta plagg í hendur, þingsályktunartillöguna sem hér er til umræðu, á mánudaginn og hef haft tækifæri til að lesa hana síðan þá og skoða um leið og hún var hér sett inn. Ég hef ekki borið þessar spurningar upp með þeim hætti sem ég geri nú en að sjálfsögðu hefur margt af þessu verið rætt innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins eins og sjálfsagt fleiri þingflokka.

Hv. þingmaður spyr mig hvort ég treysti Fjármálaeftirlitinu. Ég hef sagt það opinberlega, og ég segi það enn og aftur: Ég treysti hvorki stjórn Seðlabankans né Fjármálaeftirlitsins. Þar eru m.a. þessi margfrægu krosstengsl á milli Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og ég held að skipta þurfi um á báðum þessum vígstöðvum. Ég er ekki að leita að blóraböggli að einu eða neinu leyti, þessar stofnanir eru rúnar trausti. Alþingi er líka rúið trausti vegna þess að við sinntum ekki að öllu leyti, tel ég, þinglegu eftirliti.

Í þriðja lagi treysti ég ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til að leiða þjóðina út úr þeim vanda sem hún er í. Þó svo að ríkisstjórnin og margir aðrir hafi gert einhver mistök held ég að ég treysti engum flokkum, með fullri virðingu fyrir flokki þeim sem hv. þm. Árni Þór Sigurðsson er í, betur (Forseti hringir.) til að leiða þjóðina út úr þessum vanda.