136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[18:54]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ef það er staðföst stefna ríkisstjórnarinnar að einkavæða strax bankana, sem verið er að koma á legg, er mjög brýnt að skipta um ríkisstjórn í landinu. Hér fyrr í dag voru nefnd orðin „det gale vanvid“ sem þýða á íslensku algjört rugl. Ekki er nokkur leið að fara af stað í þessa vegferð undir stjórn sömu manna til að endurtaka sama leikinn.

Ég viðurkenni að efnahagsstjórn og hagur heimila og einstaklinga hanga saman, eins og hæstv. ráðherra segir. Ég sé ekki í áætluninni nein áform um að heimilin muni ekki sligast vegna vaxtabyrði og verðbólguverðtryggingarkúfs sem lagður verður yfir húsnæðislán allra landsmanna. Þess vegna eru þessar spurningar og áhyggjur fram settar. Miklu máli skiptir að vextir verði lækkaðir og að verðbólguverðtryggingarkúfurinn, sem nú leggst yfir öll íbúðalán, verði skorinn af með einhverjum hætti, með skattalækkunum ef ekki vill betur.

Það má nefnilega ekki verða, eins og hér var talað um fyrr í dag, að hér verði fjöldagjaldþrot á heimilum og fólk missi íbúðir sínar á uppboðum. Bankakreppan og gjaldeyriskreppan mega ekki verða að félagslegri kreppu.