136. löggjafarþing — 32. fundur,  20. nóv. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

161. mál
[19:16]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur sem vísaði til fjölskyldu og þeirrar skuldsetningar sem hún væri nú komin í. Þannig er ástatt með gríðarlega stóran hóp af Íslendingum í dag. Eins og ég gat um fyrr í dag eru nú á atvinnuleysisskrá yfir 6.000 manns. Við erum að tala um gríðarlega mikið atvinnuleysi sem fer vaxandi og það er að mínu viti eitt það versta sem getur gerst í einu samfélagi.

Eins og ítrekað hefur verið sagt í dag erum við að taka eitt stærsta lán sem hefur verið tekið í Íslandssögunni og það skiptir miklu máli, eins og ýmsir stjórnarþingmenn sem og aðrir hafa bent á, að traust ríkisstjórn haldi um stjórnvölinn. Er þetta traust ríkisstjórn sem við erum að tala um? Þingmenn ríkisstjórnarinnar hafa komið upp hver um annan þveran og lýst yfir áhyggjum sínum og efasemdum um að þessi ríkisstjórn og Seðlabankinn geti í raun stjórnað landinu með eðlilegum hætti. Það þarf sterka ríkisstjórn.

Núna koma hæstv. viðskiptaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra, eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að í ræðu sinni, og segja: Við þurfum kosningar. Til hvers? Til þess að endurnýja umboð okkar. Endurnýja hvaða umboð? Ríkisstjórnin hefur umboð. Nýjar kosningar fjalla um allt annað. Þær fjalla um að fella þessa ríkisstjórn en ekki endurnýja umboð hennar — en tveir ráðherrar krefjast kosninga.

Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir lýsti yfir efasemdum og hafði ekki trú á því að þeir sem nú halda um stjórnvölinn gætu gert það af viti. Hæstv. utanríkisráðherra gerði grein fyrir því í sinni upphafsræðu að við hefðum verið losuð úr herkví. Ég gat ekki séð að það væri út af öðru en því að illa hefði verið haldið á málum fram að því að hún reis af sjúkrabeði. Ég er út af fyrir sig sammála henni um að þannig var það. Sé litið til þess sem hér er rakið og ýmiss annars sem hefur komið fram í umræðum liggur fyrir að við erum með sundurlausa og ósamstæða ríkisstjórn sem er ekki líkleg til mikilla afreka.

Virðulegi forseti. Það er staðreynd að enginn getur stjórnað fyrirtæki verr en sá sem rekur fyrirtæki í þrot. Ef til vill var aldrei rekstrargrundvöllur fyrir fyrirtækinu en það getur enginn rekið það verr. Hugsanlega hefði einhver annar getað gert það betur en enginn gerir það verr en sá sem rekur það í þrot.

Þessi ríkisstjórn og þessi Seðlabanki hafa rekið íslenska efnahagskerfið í þrot. Það er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og vegna þeirrar staðreyndar erum við nú tilneydd til þess að taka lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Að mínu viti er ekki um annað að ræða en að samþykkja þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir en það er af illri nauðsyn vegna óstjórnar ríkisstjórnarinnar.

Í því virta blaði Sunday Times sagði 12. október síðastliðinn að Ísland hefði komið betur út ef Seðlabanki Íslands hefði ekki haft þessa ofurháu stýrivexti og takmarkað útlán. Þess í stað hefði Seðlabankinn haldið sig við löngu úrelta vaxtastefnu.

Hvað á að gera núna og hvað er boðað? Einmitt að Seðlabanki og ríkisstjórn ætla að halda áfram og herða enn þessa úreltu vaxtastefnu. Það á að fara sömu leið — og það er svo merkilegt — það á að fara sömu leið og ríkisstjórn Herberts Hoovers, forseta Bandaríkjanna, gerði árið 1929 með þeim hræðilegu afleiðingum að heimskreppa skall á, með því að hækka vexti og takmarka peningamagn í umferð. Það er röng stefna.

Það er nauðsynlegt að taka lánið sem hér er um að ræða en það þarf ábyrga menn til þess að takast á við og stýra þjóðarskútunni áfram, gera rétta hluti, víkja frá flotkrónunni og henda í burtu verðtryggingunni. Það er stærsta hagsmunamál Íslendinga í dag.