136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

10% niðurskurður í heilbrigðisþjónustu.

[10:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þingmaður veit þá eru engin fjárlög afgreidd á þinginu nema með samþykki þingsins, það þarf ekki að taka það fram. Það er alveg ljóst að þetta verður verkefni allra þeirra sem eru á þingi, þ.e. fjárlagavinnan, þannig hefur það alltaf verið og þannig mun það alltaf verða.

Varðandi verkefni um rekstur heilbrigðisstofnana út um allt land þá hefur ráðuneytið einmitt lagt mikla áherslu á að skoða þætti, ná í upplýsingar og bera saman hinar ýmsu stofnanir og það hefur verið mjög athyglisvert. Það er mjög mikilvægt að við gerum það og við berum þær upplýsingar saman. Það er afar mikilvægt að þingmenn séu vel upplýstir um slíka hluti og geti tekið málefnalega umræðu um þá því það hefur verið gríðarlegur vandi þegar kemur að rekstri ríkisfyrirtækja, jafnt heilbrigðisstofnana sem annarra. Hins vegar eru engar algildar reglur í því og það er mjög misjafnt hvernig þeim málum er háttað og það þurfum við að skoða sérstaklega.