136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

framhaldsskóli í Grindavík.

[10:52]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Lúðvík Bergvinssyni og fagna því sérstaklega að við erum sammála hvað þetta varðar, að á tímum þrenginga eins og við stöndum frammi fyrir núna þá þurfum við að standa vörð um velferðarkerfið, þar með talið menntakerfið. Ég held að skilaboð okkar frá þinginu eigi að vera þau að skólarnir eigi að vera opnir, jafnt á framhaldsskólastigi sem háskólastigi.

Varðandi Grindavík þá vil ég taka það sérstaklega fram að á undanförnum missirum og árum hef ég lagt mig fram um að færa menntunina nær fólkinu, þar sem það er hægt. Ég vil nefna Fjölbrautaskólann á norðanverðu Snæfellsnesi. Ég vil einnig nefna framhaldsdeildina, tilraunadeildina sem við erum með frá Patreksfirði, á sunnanverðum Vestfjörðum. Við erum að athuga núna skóla við norðanverðan Eyjafjörð og við munum halda áfram þeirri uppbyggingu sem þar er í samvinnu við sveitarfélögin.

Hvað Suðurnesin varðar þá vil ég taka það fram að á sínum tíma var hópur sem fór yfir landið og kortlagði hvar þörfin á framhaldsskólum væri mest og Grindavík var ekki talin meðal þeirra svæða sem þyrfti strax að fara í. Á hinn bóginn hef ég lagt áherslu á að skoða hvaða möguleika við höfum í Grindavík til að færa námið nær fólkinu og þá sérstaklega fyrstu námsárin í framhaldsskóla. Á móti kemur að skólaumhverfið á Suðurnesjunum er breytt og þá er ég náttúrlega með Keili í huga. Þar er komin ný framhaldsskólastofnun, stofnun á framhaldsskólastigi og því eru Suðurnesin í heild betur sett hvað varðar menntunarmál en áður var og ég held að við þurfum að líta til þeirra breytinga.

Ég vil líka geta þess að skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja hefur verið að skoða m.a. útfærslu á ákveðinni námsbraut sem hægt væri að færa til Grindavíkur og vinna í samvinnu við heimamenn.