136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

[10:56]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur til margra ára verið úthlutað af hálfu ríkisins töluvert minna fé til rekstrar en öðrum og sambærilegum heilbrigðisstofnunum og er þar átt við heildarfjármagn sem stofnunin hefur til umráða að teknu tilliti til íbúafjölda. Í ár hefur Heilbrigðisstofnun Suðurnesja haft innan við 40% þess fjármagns sem sjúkrahúsið á Sauðárkróki hefur haft, um 56% af því sem sjúkrahúsið á Akranesi hefur haft og 78% af því sem Heilbrigðisstofnun Suðurlands hefur haft.

Þvert á það sem ráðherra fullyrti áðan er mér sagt að fyrirmæli hafi borist um 10% flatan niðurskurð ofan í þessi lægstu framlög sem þekkjast á landsvísu, auk tilmæla um lokun nýrra skurðstofa sjúkrahússins sem einstaklingar og fyrirtæki á svæðinu hafa ekki bara beðið eftir í mörg ár heldur safnað og gefið fé til þeirrar uppbyggingar. Skurðstofur sem eru m.a. forsenda þess að hægt sé að halda úti fæðingardeild með fullri þjónustu.

Ég vil nota þetta tækifæri í dag og beina máli mínu til hæstv. heilbrigðisráðherra og spyrja um þrennt: Í fyrsta lagi, er það rétt að stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafi verið gefinn sólarhringur til að bregðast við tilmælum um útfærslu á niðurskurði, ofan í lægstu fjárframlög til nokkurra heilbrigðisstofnana á landinu og finnst hæstv. heilbrigðisráðherra það boðlegt?

Í annan stað: Er búið að undirbúa kvennadeild Landspítalans til að taka við þeim tilvikum þar sem fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verður ekki gert kleift að ráða við sín verkefni? Og ég minni á að árið 2007 fæddust 250 börn á stofnuninni og útlit er fyrir að fleiri börn fæðist á svæðinu en áður vegna aðflutnings ungs fólks. Þessi viðbót jafngildir að minnsta kosti heilum mánuði á Landspítalanum.

Í þriðja og síðasta lagi: Getur ráðherrann upplýst um það í hvaða erindagjörðum einn þekktasti auðmanna Íslands var með starfsmönnum heilbrigðisráðuneytisins fyrir skemmstu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar sem mér er sagt að hann hafi sýnt nefndum skurðstofum sérstakan áhuga?