136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hér er ekki ætlunin að ræða enn og aftur ástæðurnar fyrir hruni bankanna heldur um stöðuna á bankamarkaði á Íslandi í dag, um traust á bankastarfsemi í landinu, um fjárhagslega getu nýju bankanna og hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir hvað framtíð þeirra varðar. Er ætlunin að styrkja bankana? Er ætlunin að einkavæða þá einn, tveir og þrír eða jafnvel setja þá upp í gamlar skuldir eins og kemur fram á forsíðu Viðskiptablaðsins í dag?

Þegar bankahrunið varð gripu menn til þess ráðs að setja á Alþingi neyðarlög í þeim tilgangi að loka gömlu bönkunum og gera þrotabú þeirra upp. Innlend starfsemi var hins vegar tekin, eignir og skuldir, yfir í nýja banka, banka sem ríkið ræki og legði síðan hlutafé til.

Það var vitaskuld mikilvægt að viðhalda bankastarfsemi í landinu þannig að hún yrði ekki stöðvuð og það gekk eftir að því leytinu til og bankarnir þrír eru að komast á legg. En á þeim rúmlega sex vikum sem liðnar eru síðan neyðarlögin voru sett hefur margt breyst, meðal annars sú fyrirætlan að gera þrotabú gömlu bankanna upp. Menn ætla jafnvel að halda áfram rekstri í allt að tvö ár. Ég nefni þetta því að þeim fjölgar nú mjög sem taka undir það með okkur þingmönnum Vinstri grænna að lagasetningin í síðustu viku hafi verið mikið óráð og jafnvel stjórnarskrárbrot. Eins og ég nefndi er allt óljóst hvað varðar stefnu og fyrirætlanir stjórnvalda um framtíð bankanna. Efnahagsreikningar þeirra voru birtir um síðustu helgi og þeir vekja vægast sagt spurningar um getu bankanna til að sinna samfélagslegum skyldum sínum og vera viðskiptabankar í bestu merkingu þess orðs, þ.e. þjóna landsmönnum, heimilunum og uppbyggingu innlends atvinnulífs en það kallar eins og menn vita á breytt vinnulag í bönkunum frá því sem áður var.

Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að hún hyggist selja bankana eins fljótt og auðið er, einkavæða þá á nýjan leik. Það er eitt af því sem kemur fram í yfirlýsingu stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem hér var rædd í gær.

Ég vara eindregið við því að þessir bankar verði einkavæddir einn, tveir og þrír. Við hljótum að þurfa að byggja á reynslu annarra þjóða og líta okkur nær, til Svíþjóðar og Noregs en þar ákváðu stjórnvöld í efnahagskreppunni á 10. áratugnum að ríkið skyldi eiga hlut í bönkunum sem það þá yfirtók og nú er allt að 30% eignarhald ríkisins í þessum bönkum. Markmiðið með því er einmitt að hindra annað bankahrun og samsafn eignarhluta á eina hendi eins og hér var.

Við teljum nauðsynlegt að settur verði skýr lagarammi um nýju bankana því að það hlýtur að verða að gera aðrar kröfur til opinberra fyrirtækja og stofnana m.a. um gagnsæi, launastefnu og um starfsmannastefnu en gert var í gömlu bönkunum sem nú starfa undir lögum um viðskiptabanka. Það er enn mikilvægara nú eftir hrunið því að það er áríðandi að byggja upp traust á bankastarfsemi í landinu á nýjan leik.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra bankamála hvernig hann metur nú stöðu bankanna þriggja, þessara nýju, og getu þeirra til að gegna hlutverki sínu sem almennir viðskiptabankar og þjóna atvinnulífi og heimilum. Ég vil spyrja hvort ráðherra telur rétt að fækka bönkunum eða sameina þá öðrum fjármálafyrirtækjum. Ég vil spyrja: Hvenær er að vænta tillagna um nýja lagaumgjörð um bankana þar sem afstaða verður tekin til þess sem ég nefndi, til stjórnsýslulaga, upplýsingalaga, starfsmannastefnu, launastefnu? Loks vil ég spyrja ráðherra hvort hann telji að nýju bankarnir njóti trausts, hvort hann er mér sammála um að nauðsynlegt sé að auglýsa stöður bankastjóra og helstu lykilstarfsmanna í nýju bönkunum sem fyrst.