136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:08]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er kærkomið tækifæri til þess að svara því og ég þakka þingmanninum fyrir að óska eftir þessari umræðu. Það er sjálfsagt að fara eins oft og vandlega og við getum yfir stöðu þessara mála. Eins og þingmaðurinn ræddi hefur mikið gengið á. Eitt er að kryfja orsakir þrots bankanna, annað er að ræða um þá stöðu sem komin er upp og það hlutverk ríkisins að taka utan um starfsemi þessara fjármálafyrirtækja og koma þeim í farveg.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um fjárhagslega stöðu nýju bankanna í ljósi efnahagsreikninga, hvernig ég meti stöðu þeirra. Ég tel rétt í upphafi umræðunnar rifja upp hvað gert hefur verið á grundvelli neyðarlaganna svokölluðu til að skýra umræðuna eins og kostur er. Á grundvelli þeirra hafa verið tekin fjögur skref, má segja, að því er varðar gömlu og nýju bankana: Í fyrsta lagi greip Fjármálaeftirlitið inn í rekstur Glitnis og Landsbankans þann 7. október sl. og Kaupþings þann 9. og á sama tíma voru skilanefndir settar yfir bankana. Í öðru lagi stofnaði fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs hina nýju banka á grundvelli 1. gr. neyðarlaganna. Í þriðja lagi tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að flytja hluta af starfsemi gömlu bankanna yfir til nýju bankanna og með ákvörðuninni var tryggt áframhaldandi bankastarfsemi fyrir heimili og fyrirtæki í landinu.

Nýju bankarnir tóku yfir innlendar eignir bankanna til að tryggja eðlilega bankastarfsemi. Alþjóðleg starfsemi var skilin frá, öll útibú héldust opin og þjónustu við hraðbankana og netbankana var haldið gangandi. Það er ástæða til að taka það sérstaklega fram hér að þá daga þegar það gekk yfir var það forgangsverkefni hjá Fjármálaeftirlitinu, starfsfólki þess og ríkisstjórn að koma í veg fyrir að bankarnir lokuðu, greiðslukerfi frysu og ófremdarástand skapaðist í landinu þar sem fólk gæti ekki notað greiðslukortin og gengi til daglegra viðskipta. Það skiptir gríðarlega miklu máli, það er mikilsvert að minnast þess. Ég fullyrði það hér að starfsfólk Fjármálaeftirlitsins, stjórnendur þess og stjórn unnu þrekvirki á þessum tíma við gríðarlega erfiðar aðstæður. Það er sérstök ástæða til að taka það fram eftir ómaklegar árásir ýmissa á Fjármáleftirlitið og störf þess. Starfsfólkið vann þar einstakt starf við erfiðar aðstæður.

Eigið fé Kaupþings er samkvæmt bráðabirgðaefnahagsreikningi 75 milljarðar og stærð efnahagsreiknings bankans tæplega 700 milljarðar kr. Eigið fé Glitnis er 110 milljarðar og stærð efnahagsreiknings bankans um 886 milljarðar. Eigið fé Landsbanka er 200 milljarðar og stærð efnahagsreiknings bankans um 1.300 milljarðar.

Í fjórða lagi fer fram mat óháðra alþjóðlegra matsaðila á verðgildi eigna og skulda og lokauppgjör. Það mat mun taka 90 daga og verða lokið í lok janúar á næsta ári. Að loknu því endurmati verða birtir endanlegir stofnar efnahagsreikninga bankanna þriggja en augljóst er að þar er um að ræða gríðarlegt eignasafn. Gríðarlega miklu máli skiptir einnig að halda utan um þær eignir, verðmæti þeirra, og koma í veg fyrir eignabruna. Þess vegna voru lögin samþykkt um daginn því að nú eru engar aðstæður á alþjóðafjármálamörkuðum til að selja starfsemi bankanna. Þá mun fara fram greiðsla á nýju bönkunum til hinna gömlu í formi skuldabréfs fyrir þær eignir sem færðust yfir til nýju bankanna frá þeim gömlu. Það gefur augaleið að margt hefur breyst að því er varðar efnahag bankanna. Miklar líkur eru hins vegar á því að bankarnir hefðu orðið gjaldþrota og starfsemi þeirra lamast innan lands og utan hefði neyðarlögunum ekki verið beitt eins og gert var á sínum tíma. Ég tel að bankarnir séu vel í stakk búnir til að sinna fyrirtækjum í landinu.

Þingmaðurinn spyr fleiri spurninga. Ég tel að rétt sé að skoða í fullri alvöru aðkomu erlendra aðila að bönkunum. Ég vil leggja áherslu á að ekkert hefur verið ákveðið í þá veru þótt rætt hafi verið við erlenda kröfuhafa um slíka aðkomu. Það eru kostir við það en það eru líka ágallar á því. Ég hef sjálfur lýst því yfir áður að ég tel einboðið að ríki skoði að það eigi áfram hlut í einhverjum bankanna þegar það losar um þá hluti síðar. Auðvitað verður að standa allt öðruvísi að einhvers konar einkavæðingu á bönkunum en gert var síðast.

Að því er varðar framtíðaráform bankamála get ég upplýst að ég hef ákveðið að skipa nefnd um heildarendurskoðun á lögum um fjármálamarkaði. Meðal þess sem nefndinni er ætlað að taka til athugunar eru reglur um viðskipti starfsmanna við fjármálafyrirtæki, veðsetning hluta í fjármálafyrirtækjum, eignarhald stórrar áhættufjárskuldbindingar og krosseignatengsl.

Varðandi síðustu spurninguna hef ég áður sagt að eðlilegt sé að hin nýju bankaráð auglýsi lykilstöður þegar þau meta að þess þurfi. Það getur verið mikilvægur (Forseti hringir.) liður í því að endurvekja og efla traust á bönkunum.