136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:14]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Á næstu vikum og mánuðum munu bankarnir ákveða hvaða fyrirtæki munu lifa og hvaða fyrirtæki munu deyja. Það er mikið vald, vald sem sett er í hendur nánast sama fólkinu og ber mikla ábyrgð á því fúafeni sem við erum komin út í. Í umtalaðri ræðu sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri hélt á fundi Viðskiptaráðs sl. þriðjudag var einmitt bent á þetta. Þar sagði, með leyfi forseta:

„Og það hefur verið upplýst að nýju bankarnir haldi áfram háttum gömlu bankanna og láti menn sem skulda yfir 1.000 milljarða í bankakerfinu ekki í gjaldþrot en gangi fljótt og vel að Jóni og Gunnu sem eru þó nú orðnir eigendur bankanna á ný.“

Stutt er síðan upplýst var að persónuleg ábyrgð hinna svokölluðu lykilmanna innan Kaupþings var felld niður þótt menn hafi eitthvað spólað til baka eftir að reiðibylgja fór um íslenskt samfélag. Almenningur spyr sig líka enn hvaðan Jón Ásgeir Jóhannesson hafi fengið fjármagn til að kaupa nánast alla frjálsa fjölmiðla í landinu. Það er gjörningur sem virðist hafa verið gerður í samráði við helsta kröfuhafa 365 fjölmiðla, hinn nýja Landsbanka, og jafnvel í samráði við fyrri bankastjóra Landsbankans, Sigurjón Árnason. Jón Ásgeir hótar lögsókn þegar kjörnir fulltrúar óska eftir upplýsingum um hvaðan þeir fjármunir koma. Hvar ætlar þetta að enda?

Það virðist ætla að verða gömul saga og ný að þegar maður skuldar milljón og getur ekki greitt lendir hann í stórvandræðum en ef maður skuldar milljarð eru bankamenn tilbúnir til að gera nánast hvað sem er til að leysa úr þeim málum. Ríkisstjórnin þarf að marka skýra stefnu um hvar fjöregg íslensku þjóðarinnar liggur í endurreisn og uppbyggingu atvinnulífsins. Gera þarf bönkunum það ljóst hvar áherslan eigi að vera, hvað komi íslensku samfélagi best og hvar framtíð okkar liggur. Sem sagt: Hvernig við ætlum að borga þennan 700–1.400 millj. kr. bakreikning sem bankafylliríið skilur eftir sig. Grundvöllur þess að þjóðin geti staðið undir þeim skuldbindingum sem ríkisstjórnin hefur komið okkur út í er að treysta atvinnulífið (Forseti hringir.) í landinu því að Jón og Gunna hafa engan áhuga á ölmusu heldur vilja þau geta greitt sína reikninga sjálf.