136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:18]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli. Það skiptir vissulega miklu hvernig til tekst og hvernig ganga á fram varðandi þá nýju banka sem stofnaðir hafa verið. Það er spurning um að varðveita eignir ríkisins í þeirri von að hægt sé að selja þá í fyllingu tímans fyrir viðunandi verð þannig að eðlileg bankastarfsemi og samkeppni verði í landinu. Ég tel það skipta miklu máli og að því á að keppa. Þar af leiðandi getur verið eðlilegt um skamma hríð að reka þrjá ríkisbanka meðan verið er að sjá fram úr þeim hvirfilbyl sem geisar í alþjóðlegu fjármálalífi. En til langframa er ljóst að það er engin glóra í því að reka þrjá ríkisbanka sem eru í raun ekki í neinni samkeppni sín á milli.

Meginspurningin er þó hvaða lánakjör bankarnir ætla að bjóða upp á. Ætla þeir að bjóða fólkinu og fyrirtækjum í landinu sambærileg lánakjör og gilda í okkar heimshluta eða ætla þeir að halda áfram okurlánum svo sem verið hefur í íslensku þjóðfélagi með verðtryggingu? Verðtrygging er ekkert annað en vantrú á gjaldmiðli. Ég verð að segja að ef halda á verðtryggingunni við eru þeir skipstjórar sem standa í brúnni með því að lýsa yfir vantrausti fyrir fram á þá tilraun að láta gjaldmiðilinn ganga upp.

Við verðum að gera kröfu til þess að nýju bankarnir starfi á nýjum grunni, bjóði fólkinu í landinu og fyrirtækjunum eðlileg lánakjör en ekki þá okurvexti sem viðgengist hafa í þjóðfélaginu. Það er á þeim grunni sem verður að móta hið nýja fjármálakerfi í landinu.