136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

bankamál og skilin milli eldri banka og hinna nýju.

[11:32]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin. Ég saknaði þess þó að hann tók ekki afstöðu til þeirrar spurningar minnar hvort hann teldi rétt að sameina bankana, fækka þeim og sameina þá öðrum fjármálafyrirtækjum.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að við höfum verið í ákveðnu millibilsástandi síðustu sex til sjö vikur en það er nokkur reynsla komin á starfsemi nýju bankanna og frumdrög að efnahagsreikningi hafa litið dagsins ljós. Þessu verður hins vegar að fara að linna og það verður að fara að marka stefnu til framtíðar í bönkunum.

Hæstv. ráðherra nefndi að hann hefði skipað nefnd og ég vil spyrja um aðkomu stjórnarandstöðunnar að slíku regluverki. Ef meiningin er að endurskoða frá grunni lög um bankastarfsemi í landinu held ég að það væri kannski ráðlegt fyrir þá ríkisstjórn sem hér situr og er trausti rúin að leita fyrir fram tillagna og hugmynda frá stjórnarandstöðunni í stað þess að koma fram með eitthvað í stríði eins og sumum er lagið.

Það verður að segjast eins og er að það hefur ekki tekist alveg nógu vel að skilja á milli hagsmuna fyrrverandi eigenda og stjórnenda bankanna annars vegar og viðskiptavina þeirra hins vegar. Sömu menn eru á sömu póstum eins og hér hefur verið bent á. Svo virðist sem stærstu skuldarar hafi jafnvel sömu tengiliði í bönkunum. Slíkt er auðvitað óþolandi með öllu og vekur ekki traust. Það verður að taka upp nýtt verklag, það verður að ríkja gagnsæi og jafnræði í störfum þessara nýju banka og það verður að útrýma kynjamisrétti sem þar hefur viðgengist og gerir greinilega enn. Það verður að taka upp nýtt verklag þar sem engu verður sópað undir teppið þegar kemur að mannaráðningum og launum því að hér er verk að vinna, hæstv. ráðherra.