136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

28. mál
[12:09]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breyting á lögum, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Forsendur þeirra breytinga sem frumvarpið boðar á greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit hvíla á upplýsingum sem fram koma í skýrslu Fjármálaeftirlitsins og samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila um umfang og útgjöld við eftirlitið enda slíkum kostnaði ætlað að endurspegla raunkostnað Fjármálaeftirlitsins.

Eins og hæstv. viðskiptaráðherra greindi frá áðan er um að ræða lögbundið endurmat á kostnaðarskiptingu við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna og mat á kostnaðardreifingu. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að vissir kostnaðarliðir eftirlitsskyldra aðila lækki á meðan aðrir standa í stað og enn aðrir hækka.

Í fylgiskjali I með frumvarpinu fylgir skýrsla til viðskiptaráðherra sem er dagsett 3. júlí 2008 um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009. Í þeirri skýrslu er gerð tillaga um álagningu eftirlitsgjalds árið 2009. Gert er ráð fyrir því að gjaldið verði samtals 1 milljarður 116 millj. kr. árið 2009 samanborið við 915 millj. kr. árið 2008 eða alls 22% hækkun á milli ára.

Í fylgiskjali II með frumvarpinu er skýrsla sem ber yfirskriftina Rekstur og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins næstu þrjú ár. Hún er í raun fylgiskjal við fyrrnefndu skýrsluna og er sömuleiðis dagsett 3. júlí 2008 eða um þremur mánuðum fyrir bankahrunið. Skýrsla þessi er sérstaklega áhugaverð í ljósi þeirra skelfilegu atburða sem hafa orðið hér á undanförnum vikum. Lýst er miklum vexti í starfsemi Fjármálaeftirlitsins á undanförnum árum. Fjöldi fastra starfsmanna eftirlitsins jókst til dæmis um 60% á árunum 2005–2008 eða frá 35 starfsmönnum í 56 og gert er ráð fyrir enn frekari aukningu starfsmanna eða átta starfsmönnum til viðbótar árið 2009.

Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður eftirlitsins um ríflega 100% og gert er ráð fyrir því að enn meiri kostnaður verði árið 2009 eða alls 1 milljarður 192 millj. kr. Það er aukning sem nemur 32% á milli ára. Umfang starfsemi Fjármálaeftirlitsins hefur vaxið með nýjum lögum sem tekið hafa gildi á undanförnum missirum og ekki síður með nýjum eftirlitsverkefnum bæði erlendis og hérlendis og auknu samstarfi við erlenda eftirlitsaðila.

Þegar aukið umfang starfsemi Fjármálaeftirlitsins frá árinu 2005–2008 er skoðað í ljósi aukinna umsvifa fjármálastarfseminnar hér á landi á sama tíma sést að fjármálastarfsemin hefur vaxið mun hraðar og meira en umfang rekstrar Fjármálaeftirlitsins. Þegar skýrslan er lesin í samhengi við íslenska bankahrunið er vert að staldra við fjögur atriði. Í fyrsta lagi þann gríðarlega vöxt sem hefur orðið á fjármálamarkaði, í öðru lagi aukna starfsemi erlendis, í þriðja lagi innleiðingu fjölda nýrra tilskipana, laga og reglugerða og svo loks í fjórða lagi reynslu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins.

Fyrst sem sagt er vert að skoða þann gríðarlega vöxt sem einkennt hefur fjármálamarkaðinn undanfarin ár. Í skýrslunni kemur fram að þrátt fyrir vaxandi rekstrarútgjöld, aukin umsvif, aukinn starfsmannafjölda eftirlitsins þá bliknar allur sá vöxtur samanborið við gríðarlega aukningu umfangs fjármálamarkaðarins. Samkvæmt samtökum fjármálafyrirtækja nam hlutfall fjármálafyrirtækja í landsframleiðslu um 10% árið 2006 og svo jókst hann í kjölfarið.

Skýrslan lýsir stækkun fjármálamarkaðar undanfarin ár og tekið er fram að eignir fjármálafyrirtækja hafi numið um 13.000 milljörðum kr. eða rúmlega tífaldri landsframleiðslu á árinu 2008. Birt er yfirlitsmynd af umsvifum fjármálamarkaðar á hvert stöðugildi í Fjármálaeftirlitinu á nýliðnum árum og þar kemur í ljós að í febrúar 2005 var vegin staða eigna fjármálamarkaðarins á hvert stöðugildi Fjármálaeftirlitsins tæpir 60 milljarðar kr. Sem sagt 60 milljarðar kr. á hvert stöðugildi í Fjármálaeftirlitinu. Þremur árum seinna eða í febrúar 2008 var samsvarandi upphæð ríflega 160 milljarðar kr. á hvern starfsmann, hátt í þrefalt hærri. Upphæðirnar eru báðar á föstu verðlagi í febrúar 2008.

Annað atriði sem ég vildi nefna var að sjá má í skýrslunni yfirlitstöflu um aukna starfsemi Fjármálaeftirlitsins í tengslum við alþjóðavæðingu eða útrás íslenskra fjármálafyrirtækja. Í skýrslunni er gert ráð fyrir því að í árslok 2008 væru starfsstöðvar íslensku bankanna orðnar 73 í 28 mismunandi löndum. Bent var á að aukin alþjóðavæðing íslenskra fjármálaþjónustufyrirtækja og aukið Evrópusamstarf eftirlitsaðila kallaði á stöðug verkefni af hálfu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Maður staldrar við þennan punkt og íhugar að það hafi sem sagt verið meira og minna undir stjórn íslensks fjármálaeftirlits. Að vísu skiptir máli hvort um útibú fjármálafyrirtækjanna var að ræða — þá þarf íslenska Fjármálaeftirlitið að hafa lögsögu — eða hvort um dótturfélög er að ræða sem er ekki þess eðlis. En alla vega voru íslensku útrásarfjármálafyrirtækin með rekstur í 28 löndum og með 73 starfsstöðvar.

Í þriðja lagi er vert að minnast á þá gríðarlegu vinnu sem falist hefur í innleiðingu ýmissa tilskipana nýrra laga og reglna í íslensku fjármálaumhverfi síðustu missirin. Ég vil nefna meðal viðamikilla breytinga innleiðingu svokallaðrar MiFID-tilskipunar og Basel II staðalsins. Auk þess hafa fjölmargar aðrar tilskipanir Evrópusambandsins verið innleiddar ásamt lögum og reglugerðum frá viðskiptaráðuneytinu. Nýverið voru til dæmis innleidd lög um sértryggð skuldabréf, lög um rafræna eignaskráningu, lög um aðgerðir gegn peningaþvætti, innheimtulög og svo mætti lengi telja.

Einnig er í skýrslu Fjármálaeftirlitsins getið um ýmis önnur verkefni, svo sem beitingu stjórnvaldssekta vegna brota á lögum um fjármálastarfsemi, viðbúnaðarvinnu og innlent og erlent samstarf sem tengist viðbúnaði gegn hættu á áfalli í fjármálakerfinu, framkvæmd á hæfismati stjórnenda eftirlitsskyldra aðila, eftirlit með peningaþvætti, eftirlit með upplýsingatækni, eftirlit með fjármálasamsteypum — en unnið hefur verið að reglum þessa efnis — innleiðingu tölvukerfis, innleiðingu samhæfs árangursmats með skilgreindum mælanlegum markmiðum.

Ég gæti lengi talið þau verkefni sem skilgreind eru í skýrslunum sem fylgdu frumvarpinu. En það sem mig langar að lokum að nefna, í fjórða lagi, er að mér finnst vert að skoða starfsaldur starfsmanna Fjármálaeftirlitsins. Fram kemur í skýrslunni að einungis 28% starfsmanna eftirlitsins höfðu náð þriggja ára starfsreynslu í fyrra. Að hluta til skýrist þetta með fjölgun starfsmanna undanfarin ár en sú skýring er auðvitað ekki fullnægjandi. Ljóst er að samkeppni við aðrar ört vaxandi fjármálastofnanir og fjármálafyrirtæki hefur verið gríðarleg undanfarin ár og þannig má leiða líkur að því að margir starfsmenn Fjármálaeftirlitsins hafi staldrað stutt við og farið síðan í önnur fjármálafyrirtæki. Ég hef ekki gögn í þessu sambandi. En ég er sem sagt að ímynda mér að þetta gæti verið hluti af skýringunni. Þetta er alla vega umhugsunarefni sem ég ætla ekki að greina nánar frá að þessu sinni en það er vert að velta því upp.

Virðulegi forseti. Mér þótti hæfa að benda á ofangreinda þætti sem fram komu í fylgiskjölum með frumvarpinu og þá sérstaklega í ljósi þeirra staðreynda sem við blasa í kjölfar bankahrunsins. Ljóst er að fram undan er mikilvægt enduruppbyggingarstarf sem felur í sér endurskoðun stofnana- og reglugerðarumhverfisins. Bankahrunið krefst þess að við stöldrum við. Það neyðir okkur til að líta í baksýnisspegilinn en þó fyrst og fremst að líta til reynslu þeirra sem á undan okkur hafa gengið í gegnum bankakreppur, til að mynda vinaþjóðir okkar á Norðurlöndum sem upp úr árinu 1990 lentu margar hverjar í bankakreppu.

Þá er ljóst að bankakreppan er ekki núna einskorðuð við Ísland þótt aðrar þjóðir hafi líklega ekki upplifað neina í líkingu við þá sem við þekkjum nú. Fram kemur í fjölmiðlum í vikunni að Henry Paulson sem er fjármálaráðherra Bandaríkjanna telur að endurbætur á reglum bandaríska fjármálamarkaðarins séu nauðsynlegar. Svipað má segja um fjármálamarkaði í nágrannalöndum og öllum vestrænum löndum og víða um heim. Það er nefnilega ljóst að alþjóðasamfélagið mun halda áfram að velta fyrir sér hvernig umgjörð og umhverfi þarf að skapa alþjóðlegri fjármálastarfsemi heimsins í þeim uppbyggingarfasa sem fram undan er. Það er nauðsynlegt að læra af því ástandi sem hefur skapast á vestrænum mörkuðum að undanförnu og fyrirbyggja að slíkt ástand skapist aftur og við þurfum auðvitað að koma okkur í gegnum þá krísu sem við blasir. Við Íslendingar verðum á sama tíma að taka við þeirri bestu þekkingu og ráðgjöf sem fæst til að hefja enduruppbyggingu fjármálakerfisins og þar með Fjármálaeftirlitsins á komandi árum.

Komið hefur fram að teymi undir stjórn sænsks sérfræðings mun vinna að endurskipulagningu bankakerfisins og leiða samskipti við kröfuhafa. Þessi umræddi Svíi býr yfir mikilvægri þekkingu og reynslu þar sem hann leiddi meðal annars aðgerðir í kjölfar bankakreppunnar í Svíþjóð upp úr 1990. Einnig hefur komið fram að fyrrverandi forstöðumaður fjármálaeftirlitsins í Finnlandi mun leiða vinnu við að endurskoða alla regluumgjörð fjármálastarfseminnar hér á landi sem og framkvæmd bankaeftirlitsins. En sem kunnugt er gengu Finnar í gegnum mikla bankakreppu á árunum 1990–1994. Ég fagna þessu mjög og ég trúi því að með því að nýta krafta þessara einstaklinga og þeirra fjölmörgu aðila sem koma að þessu verkefni verði staðið mjög faglega að verki.

Ég tel mikilvægt að nefndin ræði þetta frumvarp í víðara samhengi þess sem um ræðir á Íslandi þ.e. þess íslenska samhengis sem við erum stödd í og að við skoðum hvernig fjármálaeftirlit og uppbygging þess í framtíðinni skarast á við efni frumvarpsins. Alla vega hlakka ég til að taka þátt í þessari umræðu. Ég hef mikla trú á því að uppbygging íslensks fjármálakerfis og eftirlitskerfis eigi eftir að leiða til góðs og vera, eins og ég sagði áðan, afar fagmannlega unnin.