136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

28. mál
[12:22]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir þessar fínu umræður hér áðan og fróðlegt yfirlit yfir margt sem tengist stöðu Fjármálaeftirlitsins. Ég ætla rétt að stikla á nokkrum atriðum sem komu fram.

Fyrir það fyrsta lýkur endurskoðun á áætlun um tekjustofna og gjöld Fjármálaeftirlitsins nú um helgina og ný áætlun verður lögð fyrir viðskiptanefnd og mig sem viðskiptaráðherra strax í kjölfarið. Að sjálfsögðu blasir við að breytingar verða á útgjöldum eftirlitsins, sérstaklega vegna þess að ekki er um að ræða sama rekstur erlendis hjá bönkunum og áður var. Hins vegar liggur ekki fyrir núna hverjar endanlegar álagningarprósentur verða.

Sérstakur kostnaður Fjármálaeftirlitsins vegna neyðarlaganna greiðist af ríkissjóði og kemur ekki inn í þetta. Með neyðarlögunum fól Alþingi Fjármálaeftirlitinu miklu víðtækara og í rauninni allt annað hlutverk en það hafði áður og er meginhlutverk þess. Þótt um hafi verið að ræða tímabundið verkefni er hlutverkið allt annað samkvæmt lögum. Lögin kveða á um dagsetningar, hvenær Fjármálaeftirlitið skili skýrslu og eins að endurskoða þurfi lögin með tilliti til þróunar þannig að sjálfsagt, eðlilegt og nauðsynlegt er að endurskoða þetta núna.

Ekki var hjá því komist að leggja frumvarpið fram, burt séð frá nýlegum hremmingum. Ef frumvarpið hefði ekki komið, hefðu gilt áfram ákvæði gildandi laga með álagningarprósentunum sem þar eru og enn hærri álagningu en frumvarpið gerir ráð fyrir, lykilatriði er að það komi fram. Að sjálfsögðu eru störf eftirlitsins ekki hafin yfir gagnrýni, frekar en annarra stofnana þjóðfélagsins, langt frá því. Rannsóknin sem forsætisnefnd vinnur að — að mér er sagt með fulltrúum allra þingflokka á Alþingi — undirbýr slíka rannsókn á aðdraganda bankafallsins, hlut stjórnvalda og stofnana stjórnvalda. Undan þeirri rannsókn er að sjálfsögðu enginn undanskilinn, það er svo langt frá því, og enginn er dreginn undan, heldur þvert á móti. Þess vegna er sérstaklega ósmekklegt að draga eftirlitið og aðrar stofnanir fram sem sérstaka sökudólga í ferlinu þegar morgunljóst er að gríðarlega margt olli hruni einkareknu bankanna. Að sjálfsögðu er það ekki hafið yfir gagnrýni og margt þarf að skoða og endurskoða í regluverki okkar og kerfisuppbyggingu.

Ljóst er að við munum ekki geta sett bankana, þegar þeir verða seldir að hluta eða einhvern veginn, í slíka útrás nema í gjörbreyttu umhverfi. Framtíð eftirlitsins og bankanna eru stór verkefni sem stjórnvöld, Alþingi og ríkisstjórn þurfa að leiða til lykta, það er að sjálfsögðu ekki búið. Nú sex vikum eftir þá alvarlegu og sögulegu atburði, að kerfisbankarnir allir féllu, erum við rétt lögð af stað í þann leiðangur.

Eins og hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir rakti vel og skilmerkilega eru mjög öflugir sérfræðingar fengnir erlendis frá til að taka þátt í upphafi vinnunnar og ég er mjög bjartsýnn á hana. Að sjálfsögðu mun Alþingi, allir stjórnmálaflokkarnir, verkalýðshreyfingin, atvinnulífið o.s.frv. koma að vinnunni. Ógnarstórt verkefni er að byggja upp nýtt bankakerfi, skapa bönkunum nýjar meginreglur og starfsreglur og skilgreina samskipti stjórnvalda við bankana á meðan ríkið á þá, sem er að sjálfsögðu tímabundið ástand, bráðabirgðaástand. Auðvitað verður það sett í einhvern farveg.

Ég hef oft sagt og sagði strax hér í upphafi að mér finnst að þegar ferlið hefst og ríkið losar um eignarhald á bönkunum eigi að skoða alvarlega að ríkið eigi áfram hlut a.m.k. í einhverjum þeirra, eins og var gert í Noregi. Ég held að slík blanda félagslegs reksturs og einkareksturs eigi mjög vel við í fjármálastarfsemi. Blandað hagkerfi sósíaldemókratísku Norðurlandanna hefur reynst sérstaklega vel í alþjóðlegu fjármálakreppunni. Þar blasir við okkur hversu mikilvægt er að fjármálalegur stöðugleiki fari ekki úrskeiðis, en hann skiptir öllu máli og þegar hann er ekki til staðar fer allt annað úr skorðum. Þessu hafa menn gætt að sums staðar á Norðurlöndunum þar sem ríkið á hlut í bönkunum þó að stór hluti hafi verið losaður, m.a. í dreifða eignaraðild. Lykilatriði er að þegar bankarnir verða seldir aftur þarf að standa allt öðruvísi að og tryggja dreifða eignaraðild innlendra og erlendra aðila, jafnvel eignarhald ríkisins að hluta og margt annað. Óheppilegt var, eins og við hefur blasað, að salan á sínum tíma endaði með því að fáir áttu stóra hluti. Það gefur augaleið að staða banka versnar sjálfkrafa ef staða eigenda versnar og margar hættur skapast af því, þannig að við þurfum að læra af reynslunni.

Alls þessa mun rannsóknin ná til af því að orsakir bankahrunsins ná líka til upphafsins. Þegar bankarnir voru seldir fór af stað ákveðið ferli. Þeir gátu hafið starfsemi, eins og ég rakti áðan, með starfsleyfi sínu á Íslandi hvar sem er á Evrópska efnahagssvæðinu, reglurnar lágu fyrir. Þeim voru engar sérstakar hömlur settar heldur þvert á móti var almennt í þjóðfélaginu hvatt til útrásar og umsvifa erlendis enda skilaði það mörgu ungu fólki starfstækifærum úti um víða veröld o.s.frv. En bakgrunnurinn var veikur, hlutfallsvandinn var til staðar, kerfisgallinn var þar og blasti alltaf við okkur.

Þess vegna þurfum við að skoða orsakir og aðdraganda falls bankanna af því að þar liggja margir þræðir á löngum tíma. Enginn einn, engir tveir og engir þrír eru meginsökudólgar, þetta er þróun sem sett var af stað á pólitískum forsendum fyrir mörgum árum síðan. Svo varð hún til þess að þetta féll með þessum hætti. Að ýmsu var unnið til að reyna að betrumbæta kerfið. Á þessu ári var unnið að því að breyta starfsemi útibúa erlendis í dótturfélög. Sú þróun var á fleygiferð, sú vinna, sem Jón Sigurðsson, stjórnarformaður FME, lýsti í viðtali við Morgunblaðið í febrúar að væri meginverkefni hans og hlutverk, að starfsemin yrði færð yfir í dótturfélög þannig að þarlendir bankar, tryggingasjóðir og bakhjarlar stæðu á bak við starfsemina en ekki þeir íslensku. Þar með mundi efnahagsreikningur íslensku bankanna minnka sem og hlutfallsvandinn og kerfisgallinn ekki verða eins stór og alvarlegur og ógnvekjandi og hann var á síðustu árum. Margt var skoðað og ekki gafst tími til að ljúka því af því að lausafjárkreppan brast svo skyndilega á og olli dramatískum straumhvörfum í efnahagslífi okkar.