136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

28. mál
[12:30]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra gat þess alveg réttilega að þetta mikla hrun og sú erfiða staða sem komin er upp á sér aðdraganda, byrjaði í einkavæðingu og sölu bankanna og einkavinavæðingu þeirra, þá fór hún á fullt og síðan með þeirri spillingu sem eftir fylgdi.

Fjármálaeftirlitinu var ætlað mikilvægt hlutverk í þessu sambandi. Ég hef alltaf haft miklar efasemdir um að jafnmikilvæg grundvallareftirlitsstofnun og Fjármálaeftirlitið er skuli vera fjármögnuð af aðilunum sem það á að hafa eftirlit með. Þannig var rekstur Fjármálaeftirlitsins beintengdur þeim gjöldum sem voru lögð á viðkomandi fjármálafyrirtæki. Mín skoðun var sú að Fjármálaeftirlitið væri svo mikilvægt að það ætti að vera hlutlaus aðili og ekki að eiga nein fjárhagsleg hagsmunatengsl við þann sem það hefði eftirlit með, það ætti að hafa stöðu eins og umboðsmaður Alþingis, vera fjármagnað af fjárlögum beint og lúta Alþingi en ekki fyrirtækjunum. Í ljósi þess hvernig nú hefur til gengið vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér í því og það eigi að huga að því að slík eftirlitsstofnun, hvort sem það er Ríkisendurskoðun eða Fjármálaeftirlit, að það skipti svo miklu máli að það sé hlutlaus staða og eigi að fá hliðstæða stöðu og umboðsmaður Alþingis, sé ekki háð neinum.

Það eru margir sem tortryggja Fjármálaeftirlitið og það er orðið fyllilega rétt og nauðsynlegt að taka út hlut og gjörðir og vangjörðir Fjármálaeftirlitsins hvað varðar eftirlitsskylduna með (Forseti hringir.) peningastofnunum á undanförnum árum. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er sú skoðun ekki enn (Forseti hringir.) komin í gang?