136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

28. mál
[12:33]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hvernig slíkum eftirlitsstofnunum eru markaðar tekjur má ræða lengi. Ég spyr mig að því hvort þessi uppbygging sé að hluta til gerð einmitt til að efla sjálfstæði stofnunarinnar af því að Fjármálaeftirlitið er líklega með sjálfstæðari stofnunum í þjóðfélaginu samkvæmt okkar lögum af því að hún verður að vera það, hún er eftirlitsstofnun. Pólitísk íhlutun í eftirlitshlutverkið má náttúrlega alls ekki eiga sér stað. Þess vegna er henni markaður tekjustofn með þessum hætti en hún ekki undirseld vilja Alþingis frá ári til árs og líkast til væri eftirlitið miklu minna en það er núna ef svo væri. Þetta er gert með þeim hætti að eftirlitið flytur skýrslu, viðskiptaráðherra í framhaldi af því frumvarp um gjöld og tekjustofna eftirlitsins sem eru síðan samþykkt sem lög frá Alþingi á hverju einasta ári. Ég held því einmitt að þetta fyrirkomulag hafi reynst býsna vel.

Það hefur ekki farið fram neitt sérstakt endurmat á því enn þá. Þetta er það form sem var valið fyrir tíu árum þegar Fjármálaeftirlitið var stofnað og tekið út úr Seðlabanka sem bankaeftirlit og búið til glænýtt fyrirkomulag þar sem vátryggingarstarfsemin og margt fleira var sett undir og saman og ég tel að þar hafi að mörgu leyti tekist ágætlega til. Í þessari endurskoðun og endurmati okkar á uppbyggingu bankakerfis, uppbyggingu eftirlitsstofnana, hvernig getum við gert fjármálaumhverfið öruggara, betra, þannig að þetta sem gerðist gerist aldrei aftur, hvernig getum við byggt upp enn þá öflugri eftirlitsstofnanir og eftirlitsiðnað, sem oft var talað um hér af fyrirlitningu af ákveðnum stjórnmálaöflum. Þetta þurfum við allt að fara í gegnum og þess vegna er allt undirselt endurskoðun hvað þetta varðar, það er alveg á hreinu. Ég hef hingað til haft þá skoðun að þetta fyrirkomulag geri eftirlitið öflugra og sjálfstæðara en ef það væri undirselt Alþingi hvað varðar tekjustofna af því að þetta er svona einhver millileið sem er farin og hefur reynst ágætlega.