136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

verðbréfaviðskipti.

53. mál
[12:37]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/2007, 53. mál á þskj. 53.

Með þessu frumvarpi eru gerðar tillögur að breytingum á ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti er snerta yfirtökur. Núgildandi reglur um yfirtökur voru settar með lögum nr. 31/2005 sem m.a. innleiddu ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2004/25/EB um yfirtökutilboð. Komið hefur í ljós að reglurnar eru ekki nægilega skýrar og það hefur leitt til ágreinings um túlkun á reglunum. Til að bregðast við þeirri óvissu skipaði ég nefnd í nóvember 2007 til að fara yfir yfirtökureglur og gera tillögur að breytingum á þeim. Auk þess var nefndinni ætlað að gera tillögur að innleiðingu á 11. gr. yfirtökutilskipunarinnar en hún var undanskilin við innleiðingu tilskipunarinnar árið 2005. Í nefndina voru skipaðir fulltrúar viðskiptaráðuneytisins, Fjármálaeftirlitsins, Samtaka fjármálafyrirtækja og yfirtökunefndar.

Á starfstíma sínum fór nefndin í gegnum íslenska löggjöf um yfirtökur með hliðsjón af skipunarbréfi nefndarinnar og tilskipun ESB, sem og lög og reglur í nágrannalöndum okkar. Niðurstaða nefndarinnar var sú að gera þyrfti nokkrar breytingar á yfirtökukafla laganna um verðbréfaviðskipti og er fyrirliggjandi frumvarp byggt á tillögum meiri hluta nefndarinnar að teknu tilliti til álits minni hluta nefndarinnar og umsagna hagsmunaaðila.

Helstu breytingarnar sem felast í frumvarpi þessu eru eftirfarandi og talsverðar:

Gert er ráð fyrir að yfirtökuskylda miðist við 33% atkvæðisréttar en ekki 40% eins og er nú. Á starfstíma sínum lét nefndin gera hagfræðilega úttekt á eignarhaldi hlutafjár hér á landi. Úttektin leiddi í ljós að samþjöppun á eignarhaldi á Íslandi er algengari en dreift eignarhald og ljóst að stórir hluthafar geta auðveldlega farið með yfirráð án þess að hafa öðlast 40% atkvæðisréttar. Breytingunni er því ætlað að auka minnihlutavernd en Ísland er eitt örfárra landa EES þar sem yfirtökumörk miðast við hærra atkvæðavægi en 33%. Í ákvæði til bráðabirgða er kveðið á um að ef eigandi hlutafjár á meira en 33% atkvæðisréttar í félagi sem skráð var á skipulegan verðbréfamarkað við gildistöku laganna verði hann ekki tilboðsskyldur ef hann eykur ekki við hlut sinn. Sama gildir hafi aðili á grundvelli samstarfs við aðra hluthafa yfir að ráða sem nemur 33% atkvæðisréttar í félaginu við gildistöku laganna. Þeir félagar sem eiga yfir yfirtökumörkum við gildistöku laganna geta því ekki aukið við hlut sinn án þess að verða yfirtökuskyldir. Þrátt fyrir að það geti í einhverjum tilfellum verið strangt þykir rétt að láta sjónarmið um minnihlutavernd vega þyngra en hagsmuni stórra hluthafa.

Samkvæmt núgildandi lögum hvílir tilboðsskylda á þeim aðila samstarfs er eykur við hlut sinn. Þótt sú regla sé einföld í framkvæmd getur hún verið ósanngjörn og stundum óheppileg, til dæmis ef sá sem eykur við hlut sinn fer með tiltölulega lítinn hluta atkvæðisréttar í samstarfinu. Af þeim sökum er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti í undantekningartilfellum tekið ákvörðun um að færa tilboðsskyldu yfir á höfuðaðila samstarfsins en með höfuðaðila er átt við þann aðila samstarfshópsins sem ræður yfir mestu hlutafé. Það þykir einnig rétt að kveða á um það í lagatextanum að Fjármálaeftirlitið geti heimilað að aðrir en hluthafar megi einnig standa að tilboði saman með þeim sem er tilboðsskyldur og taka af skarið um það að ábyrgð á slíku tilboði sé óskipt.

Gildissvið kaflans er nú afmarkað í heild í lögunum í stað þess að í núgildandi lögum er ráðherra heimilt að kveða á um undanþágur frá ákvæðum kaflans í reglugerð. Er það í samræmi við markmið laga nr. 33/2003, um verðbréfaviðskipti, en með þeim voru yfirtökureglur lögfestar í heild sinni og horfið frá því fyrirkomulagi að hafa þær að hluta í reglugerð.

Með frumvarpinu er kveðið á um með víðtækari hætti en nú er hvenær aðilar teljast vera í samstarfi. Ástæða breytinganna er sú að erfitt hefur reynst að fullnægja sönnunarkröfum gildandi laga um það hvenær samstarf milli aðila telst með þeim hætti að það leiði til yfirtökuskyldu en það hefur gert þeim aðilum er sinna eftirliti á þessu sviði erfitt um vik.

Í frumvarpinu er lagt til að aðila kunni að vera skylt að gera opinberlega grein fyrir því hvort hann íhugi að gera yfirtökutilboð í félag. Er það með hliðsjón af einni af meginreglum yfirtökutilskipunarinnar sem kveður á um að yfirtökutilboð eigi ekki að hindra rekstur félags lengur en sanngjarnt er. Ljóst er að það getur komið sér mjög illa fyrir rekstur félags ef óvissa ríkir um hvort yfirtökutilboð verði lagt fram. Það verður einnig að teljast ósanngjarnt gagnvart hluthöfum og öðrum fjárfestum ef slík óvissa heldur félagi í gíslingu í langan tíma. Sambærilega reglu er að finna í öðrum Evrópuríkjum og er hún nátengd reglum um meðferð innherjaupplýsinga og markaðsmisnotkun.

Þá er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að stjórnarmenn verði að gera grein fyrir því hvort þeir og aðilar þeim fjárhagslega tengdir hyggist taka yfirtökutilboði og að yfirlýsing þeirra verði bindandi. Þær upplýsingar geta verið verðmætar fyrir marga hluthafa enda sýna þær betur en nokkuð annað hvort stjórnarmönnum finnst tilboðið hagstætt eða ekki. Er þessi regla sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að í frumvarpinu er kveðið á um að frá upphafi tilboðstímabils og fram að því tímamarki er upplýsingar um niðurstöðu tilboðs eru birtar, gilda ekki reglur um birtingu flöggunar- og innherjatilkynninga heldur skulu slíkar tilkynningar birtar í beinu framhaldi af birtingu upplýsinga um niðurstöður tilboðsins og samhliða ef kostur er.

Lögfesting björgunarákvæðis er eitt af þeim nýmælum sem lögð eru til í frumvarpinu. Björgunarákvæðið felur í sér að við vissar aðstæður geti aðili farið yfir yfirtökumörk án þess að verða tilboðsskyldur. Á það við ef að þær aðgerðir sem leiða til aukningar hluta umfram yfirtökumörk eru hluti af aðgerðum til að bjarga félagi í fjárhagserfiðleikum eða hluti af endurskipulagningu félags sem á í fjárhagserfiðleikum. Eðlilegt er að slík heimild sé í lögum svo hægt sé að ráðast í endurskipulagningu félags án þess að sá sem eykur við hlut sinn við slíkar aðstæður gerist yfirtökuskyldur. Þá hefur verðlækkun á mörkuðum sýnt að slík heimild í lögum geti verið mikilvæg. Þar sem um er að ræða veigamikla undantekningu frá meginreglum laganna er nauðsynlegt að sótt sé um slíka undanþágu fyrir fram og að Fjármálaeftirlitið hafi um það að segja hvort og hvernig þetta megi gerast. Þá er einnig mikilvægt að stjórn umrædds félags styðji björgunaraðgerðir fyrir hönd annarra hluthafa.

Ég mælist til þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. viðskiptanefndar.