136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

verðbréfaviðskipti.

53. mál
[12:44]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hæstv. ráðherra hefur gert grein fyrir er verið að færa yfirtökuskylduna niður hlutfallslega, úr 40% í 33%.

Ég velti fyrir mér, og hæstv. ráðherra getur kannski upplýst mig um það, stöðu hinna minni hluthafa sem hafa á undanförnum árum orðið að sæta yfirtöku. Þeir hafa sætt yfirtöku þannig að yfirtökuaðilinn hefur með beinni tilskipun beitt yfirtökuskyldunni þannig að ef viðkomandi vill ekki selja eða afhenda bréf sín á því verði sem sett er sem gangverð eða yfirtökuverð þá hefur verið hægt að sækja þau og viðkomandi er þá varnarlaus gagnvart því.

Þó að það sé svo sem gott og blessað að vera með yfirtökuskyldur hefur mér sýnst að einmitt þessir minni hluthafar séu nánast réttlausir. Ég minnist Steinullarverksmiðjunnar á Sauðárkróki, sem ég átti bréf í og var líka að nokkru leyti eins konar almenningshlutafélag á móti ríki og sveitarfélagi og langflestir Skagfirðingar áttu hlut í. Allt í einu seldi ríkið og sveitarfélagið hluti sína, einkavæddu það og aðrir aðilar yfirtóku, fjárfestingaraðilar sem hugsuðum bara um það eitt að græða á þeim og almenningur sem hafði lagt fé sitt í Steinullarverksmiðjuna var skikkaður til þess að afhenda bréfin (Forseti hringir.) og vera kippt út. Ég minnist þess og ég spyr hæstv. ráðherra hvort það séu engar varnir fyrir almenning eða fyrir fólk (Forseti hringir.) sem á litla hluti og vill fá að halda þeim.