136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

verðbréfaviðskipti.

53. mál
[12:50]
Horfa

viðskiptaráðherra (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nefndin mun að sjálfsögðu fara yfir margt af því sem þingmaðurinn kallar eftir ítarlegum upplýsingum og skýringum á. En yfirtökuskyldan myndast að sjálfsögðu bara í skráðum félögum og er hugsuð sem mikil neytenda- og réttarvernd fyrir þá sem eru í minni hluta í slíkum félögum. Það er aldrei neinn skyldugur til að selja. Stóri hluthafinn er skyldugur til að gera tilboð.

Auðvitað stendur sá sem á stóran hluta alltaf betur en sá sem á lítinn hluta. Það er eðli málsins. Þess vegna er svo mikilvægt að beita öllum tiltækum ráðum til að bæta stöðu lítilla fjárfesta í skráðum hlutafélögum. Ég tek alveg undir það með þingmanninum að þeir hagsmunir hafa örugglega verið fyrir borð bornir og rýrir í fortíðinni. Þess vegna kemur þetta frumvarp hérna inn.

Það er engin spurning um að viðskiptanefnd mun fara ítarlega í gegnum það og gera breytingar á því og viðbætur ef þörf er á til að bæta stöðu þeirra enn frekar þegar að því kemur. Eins og við þekkjum úr nefndavinnu í þinginu er þar einstakt tækifæri til að fara mjög ítarlega ofan í mál og kalla eftir álitum allra hugsanlegra sérfræðinga. Mál taka oft stakkaskiptum í þingnefndum og koma oft miklu betri út úr nefndunum en þegar þau fóru inn. Þau eru unnin af ráðuneytum og ráðherrum, fara svo fyrir nefndina og stórbætir þingið málin oft. Róttæk umbótamál verða enn þá róttækari og enn þá betri þannig að þessi mál verða örugglega skoðuð mjög vandlega í nefndinni.