136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

verðbréfaviðskipti.

53. mál
[12:52]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frumvarp hæstv. viðskiptaráðherra um breyting á lögum um verðbréfaviðskipti og þá sérstaklega þau ákvæði sem varða yfirtökur. Þar er brugðist við því að núgildandi lög um yfirtökur sem ætlað er að innleiða svokallaða yfirtökutilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2004 þykja ekki nógu skýr. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lögin hafi reynst erfið í framkvæmd og skapað ákveðna réttaróvissu í tengslum við yfirtökureglur.

Fyrir um ári síðan skipaði hæstv. viðskiptaráðherra, eins og fram hefur komið, nefnd undir stjórn Bjargar Finnbogadóttur, lögfræðings í viðskiptaráðuneytinu, sem falið var að fara yfir yfirtökureglurnar og gera tillögur að úrbótum og bregðast þannig við réttaróvissunni. Frumvarpið er afrakstur þeirrar nefndarvinnu.

Umrætt frumvarp felur í sér margvíslegar breytingar en kannski helst þá að kveðið er á um að yfirtökuskylda í félögum myndist við 33% atkvæðisréttar í stað 40% enda er Ísland eitt örfárra landa þar sem yfirtökumörkin eru hærri en 33%. Þá er skerpt á ákvæðum um gildissvið laganna með tilliti til erlendra félaga og sérstaklega kveðið á um hvernig gildissvið snertir útgefendur verðbréfa með skráðar höfuðstöðvar í mismunandi ríkjum.

Til dæmis er gert ráð fyrir að íslensk félög sem skráð eru á markað á Íslandi sem og önnur félög sem skráð eru á markað á Íslandi og í öðru landi, þ.e. íslensk félög, falli undir gildissvið laganna. Það á einnig við um félög frá ríki utan EES sem eingöngu er skráð á markað á Íslandi. Þá er nánar kveðið á gildissvið laganna gagnvart útgefendum sem hafa skráðar höfuðstöðvar í öðru EES-ríki sem og gagnvart útgefendum sem hafa höfuðstöðvar utan EES.

Í frumvarpinu er nánar skilgreint hvenær aðilar teljast vera í samstarfi. Á því þurfti að skerpa. Einnig er kveðið á um flöggunar- og innherjatilkynningar og skerpt á því og jafnframt ábyrgð stjórnarmanna að gera grein fyrir því hvort þeir eða tengdir aðilar hyggist taka yfirtökutilboði.

Þá er í frumvarpinu sérstaklega fjallað um svokallað björgunarákvæði sem felur í sér að aðilar geti við sérstakar aðstæður farið yfir yfirtökumörkin án þess að verða tilboðsskyldir. Það á t.d. við þegar um er að ræða að bjarga félagi í fjárhagserfiðleikum og þarf þá að sjálfsögðu að rökstyðja það.

Ekki er talið að frumvarpið hafi í för með sér aukinn kostnað eða útgjöld fyrir ríkissjóð. Viðskiptanefnd mun væntanlega fá til sín gesti og umsagnir til að fylgja eftir markmiðum frumvarpsins sem er, eins og áður sagði, fyrst og fremst til að eyða þeirri réttaróvissu sem til staðar er í núgildandi lögum.