136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn.

139. mál
[13:35]
Horfa

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Landsbókasafn – Háskólabókasafn.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi lögum um Landsbókasafn – Háskólabókasafn. Frumvarpið er byggt á vinnu nefndar sem skipuð var í janúar árið 2006 til þess að endurskoða lögin, og lög einnig um Þjóðskjalasafn Íslands.

Eins og vikið er að í almennum athugasemdum með frumvarpinu urðu nokkrir þættir til þess að ekki var talin ástæða til að sameina eða samþætta starfsemi Landsbókasafns – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafnsins. Réði þar mestu að staða Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands er um margt mjög ólík þegar litið er til aðstöðu og húsakosts sem og stefnumörkunar og þróunar á undangengnum árum.

Við samningu frumvarpsins voru eftirfarandi áherslur hafðar að leiðarljósi:

1. Nauðsyn þess að endurskilgreina hlutverk Landsbókasafnsins í samræmi við breyttar áherslur og hlutverk bókasafna á 21. öldinni. Í því sambandi er rétt að rifja upp gildandi lög um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn, nr. 71/1994, áttu rætur í sameiningu Landsbókasafnsins og bókasafns Háskóla Íslands. Tilgangur þeirra var að búa til eitt bókasafn sem mundi þjóna jafnt sem þjóðbókasafn og bókasafn þjóðarskólans okkar, Háskóla Íslands. Frá þessum tíma hafa verið settir á stofn nokkrir háskólar og eins og menn þekkja hefur orðið nokkuð mikil breyting á háskólavettvangnum og grundvallarbreyting í rauninni orðið á háskólaumhverfinu í landinu öllu sem að mínu mati þarf að taka mið af.

Í frumvarpinu er byggt á því að heiti safnsins verði óbreytt en safninu verði heimilt að veita öðrum háskólum þjónustu eftir því sem nánar er kveðið á um í þjónustusamningi.

2. Upplýsingatækni hefur haft mikil áhrif á samfélagið frá setningu núgildandi laga og kröfur til þjónustu opinberra aðila hafa aukist, m.a. með tilkomu almenns aðgengis almennings að internetinu. Þá er mikilvægt að löggjöfin sjálf taki mið af þessari þróun þannig að hún geti stuðlað að víðtækri þjónustu með nýrri tækni.

3. Þörf er á að einfalda ákvæði gildandi laga um stjórnskipulag og rekstur safnsins til að auðvelda stjórnun þess og auka viðbragðsgetu á hverjum tíma þegar ný tækifæri skapast í sjálfri starfseminni.

Herra forseti. Eins og hér hefur verið rakið miðar frumvarpið að því að uppfæra einstök ákvæði gildandi laga til samræmis við þær breytingar sem orðið hafa og þar með formgera betur hlutverk og viðfangsefni safnsins þannig að það geti betur tekist á við verkefni sín í framtíðinni. Með frumvarpinu eru safninu þannig ekki falin ný viðfangsefni, heldur undirstrikaðar ákveðnar áherslur í starfsemi þess og þróun næstu árin.

Þá er í samræmi við reglur um ábyrgð forstöðumanna á rekstri og starfsemi ríkisstofnana kveðið nánar á um hlutverk stjórnar gagnvart ábyrgð landsbókavarðar.

Ég leyfi mér að lokum að leggja til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar.