136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:00]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þá glöggu framsögu sem hann hafði fyrir frumvarpinu sem hér er til umræðu. Óeðlilegir hlutir kalla á ákveðnar ráðstafanir en þá skiptir máli að löggjafarvaldið og þeir sem fara með framkvæmdarvaldið gæti þess að fara ekki út fyrir eðlileg mörk þannig að sjónarmið og hugmyndir sem búa að baki réttarríkinu séu alltaf í heiðri höfð. Sérstaklega þarf að gæta að því þegar um er að ræða meðferð sakamála og saksókn og með hvaða hætti málum er fylgt fram.

Á óvenjulegum tímum, þegar miklir atburðir gerast, kann mönnum á stundum að sjást yfir heildarmyndina vegna þess að eitthvað blasir við sem síðan kemur í ljós að var ekki með þeim hætti sem virtist. Þannig hefur íslenskt réttarkerfi farið í gegnum ákveðnar prófraunir með málum sem hafa orðið fræg og orðið viðfangsefni blaða, þar sem farið var af stað með miklum látum en uppskeran varð harla rýr, eftirtekjan, þegar hulunni hafði verið svipt af.

Sennilega er frægasta mál þess eðlis hið svokallaða Hafskipsmál sem fékk mjög víðtæka umræðu, ekki síst á Alþingi, og þegar upp var staðið lá fyrir að þrátt fyrir að gríðarlegum fjármunum og miklum tíma hefði verið eytt í saksókn stóð mjög lítið eftir af þeim atriðum sem lagt var af stað með í ákærum. Þar var m.a. um það að ræða að vegna vanhæfis hins opinbera saksóknara þurfti að skipa sérstakan saksóknara sem átti í sjálfu sér rétt á sér miðað við það tilefni á sínum tíma.

Nú erum við að fjalla á öðrum tíma um annað atriði. Vegna þeirra hluta sem réttarkerfið hefur gengið í gegnum hafa verið gerðar ákveðnar lagfæringar. Á síðasta þingi höfðum við til meðferðar og afgreiddum rétt fyrir þinglok mjög metnaðarfullt frumvarp sem hæstv. dómsmálaráðherra lagði fram um meðferð sakamála. Það frumvarp var afgreitt frá Alþingi og samkvæmt ákvæðum þess tekur það gildi 1. janúar 2009. Mitt mat var það að um töluverða bót væri að ræða í meðferð sakamála. Þá var spurningin hvernig hægt væri að styrkja þá réttarskipun, þau rannsóknarúrræði og þá saksóknara sem fara eiga með völd samkvæmt þessum heildarlögum um meðferð sakamála.

Af þeim sökum geri ég þær helstu athugasemdir við frumvarpið sem hér liggur fyrir hvort við séum að fara rétta leið með því að skipa sérstakan saksóknara í því tilviki sem hér um ræðir frekar en að styrkja það réttarkerfi sem byggist á heildarlögum um meðferð sakamála sem afgreitt var á síðasta þingi. Ég hefði talið heppilegra að litið hefði verið til þess að hefja mætti hluti fyrr og hægt hefði verið að setja það í farveg strax í kjölfar bankahrunsins ef farið hefði verið í að setja sérstakar fjárveitingar til þess að gangast í þær rannsóknir sem miðað er við í frumvarpinu — og ég tek heils hugar undir að þær rannsóknir þarf að gera. Ég hygg að enginn ágreiningur sé um það að sem víðtækust rannsókn þarf að fara fram á þeim málum.

Þá komum við líka að spurningunni um það hvernig Alþingi ætlar að koma að þeim málum. Ég hef verið talsmaður þess, og hef gert grein fyrir því í umræðum, að eðlilegt væri að Alþingi skipaði rannsóknarnefnd á grundvelli 39. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. sérstaka rannsóknarnefnd. En eftir því sem það mál hefur þróast hafa komið upp hugmyndir um að sett yrðu sérstök lög um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna, þar sem úttekt yrði gerð á því og mat lagt á það hvort um mistök og vanrækslu hafi verið að ræða og hverju sé um að kenna. Í fyrsta lagi þarf að gæta að því: Á hvers höndum á handhöfn rannsóknarinnar að vera? Þarna erum við annars vegar að fjalla um rannsókn sem Alþingi stæði hugsanlega fyrir, sem í sjálfu sér er ekki sakamálarannsókn, rannsókn sem er annars eðlis en hlýtur óhjákvæmilega að tengjast.

Þegar þetta er haft í huga, og mér hefur virst vera vilji fyrir því að Alþingi hefði ákveðna handhöfn í rannsókn þessara mála allra og að nauðsynlegt væri að velta við hverjum steini og kanna þau mál til hlítar sem þar er um að ræða þannig að það lægi ljóst fyrir hvað olli því mikla efnahagshruni sem varð í byrjun október — leita og finna hvort einhverjum var um að kenna og þá hverjum og með hvaða hætti og hvort hægt hefði verið að gera hlutina betur.

Við erum hér að fjalla um þá spurningu hvort einhverjir hafi brotið lög, hvort grundvöllur sé fyrir því að sækja menn, einstaklinga eða lögaðila, til saka fyrir að hafa farið fram með refsiverðum hætti. Við höfum mjög vandaða lagaumgjörð um meðferð sakamála og ég hef ekki fengið nægjanlegar röksemdir fyrir því að víkja eigi frá henni með því að setja embætti sérstaks saksóknara. Ég tel skipta máli að embætti héraðssaksóknara, sem hafa með mál af þessum toga að gera, yrði sérstaklega styrkt.

Ég vil vekja athygli á því sem segir í greinargerð með frumvarpinu, á bls. 4, með leyfi forseta:

„Um nokkurt árabil hefur markvisst verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra, sem unnið hafa ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota. Til þessarar hörðu atlögu var stofnað vegna rannsókna og ákæru gegn einu af viðskiptaveldum landsins, sem berst nú fyrir lífi sínu.“

Ég tel að enginn þurfi að fara í grafgötur um að í þessu stjórnarfrumvarpi, sem stjórnarflokkarnir og ríkisstjórnin eru sammála um að flytja, er vísað til svokallaðra Baugsmála. Þá er verið að lýsa því viðhorfi ríkisstjórnarinnar að markvisst hafi verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra sem unnið hafa ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota í sambandi við meðferð þess máls.

Vel kann að vera að sú fullyrðing geti átt einhvern rétt á sér. Það er hins vegar nokkuð sérstakt að sjá fullyrðingu sem þessa í greinargerð með lagafrumvarpi eins og því sem hér um ræðir. Einmitt þess vegna er spurningin þessi: Hvaða stöðu hefur sérstakur saksóknari? Hvaða lagavernd hefur hann miðað við þá sem eru ráðnir í stöðu héraðssaksóknara? Ég velti því fyrir mér, hæstv. dómsmálaráðherra, hvort með þessu sérstaka lagafrumvarpi er verið að leggja til að þeir sem eru skipaðir þannig njóti sambærilegrar lagaverndar og hafi sömu stöðu og að hagsmuna þeirra sem einstaklinga sé gætt í jafnríkum mæli og kveðið er á um í hinum almennu lögum um meðferð sakamála. Þetta hlýtur allt að vera til skoðunar.

Annað atriði vekur spurningar. Hæstv. dómsmálaráðherra segir í framsöguræðu sinni hér áðan að þagnarskylda og bankaleynd eigi að heyra sögunni til. Þá er alltaf spurning hvort verið er að tala um núið eða hvort verið er að tala um að móta eigi réttarreglur til framtíðar. Á hæstv. dómsmálaráðherra við það að þagnarskylda almennt og bankaleynd almennt eigi að heyra sögunni til eða bara í þeim sérstöku tilvikum sem leiddu til þess bankahruns sem hér um ræðir? Ef skilja má orð dómsmálaráðherra eins og þau voru sögð og flutt hér áðan, ef við ætlum að breyta þessum grundvallarreglum, mundi það heldur betur kalla á breytingar á margvíslegum lögum. Ég reikna með að dómsmálaráðherra hafi eingöngu verið að vísa til þess sem gerst hefur en ekki til þess að móta ætti hér samfélag þar sem ekki væri um þagnarskyldu að ræða eða bankaleynd. Hvað svo sem öðru líður hljótum við að sjá að ákveðnar reglur verða að vera í sambandi við það, og bara almennar reglur um þagnarskyldu opinberra starfsmanna svo að ekki sé vikið að öðru.

Síðan komum við í annan þátt sem er veruleg spurning. Það er ákvæði 4. gr. þar sem kveðið er á um að einstaklingur sem veitir upplýsingar sæti ekki ákæru þótt upplýsingar eða gögn leiði líkur að broti viðkomandi aðila. Hér finnst mér við vera komin út á nokkuð hála braut. Mér finnst ekki eðlilegt að setja almennt ákvæði sem þetta í lagafrumvarp um embætti sérstaks saksóknara. Það væri eðlilegt að við skoðuðum þá refsileysisástæður almennra hegningarlaga og settum almenn lög sem kvæðu á um mismunandi réttarúrræði og heimildir dómstóla til að taka ákvarðanir um það hvað skyldi leiða til þess vegna sýknu eða niðurfellingar ákæru ef um það væri að ræða. En mér finnst óeðlilegt að setja það í lög um sérstakan saksóknara að þessi ákvæði skuli gilda í þessum ákveðnu tilvikum. Ég tel miklu eðlilegra að hafa og móta almennar réttarreglur um hvaða hlutir þurfi að koma til til þess að almennt sé fallið frá saksókn gagnvart þeim aðilum sem veita upplýsingar. Mér finnst með öllu óeðlilegt að taka þessa sérreglu upp með þeim hætti sem gert er í frumvarpinu.

Við verðum að miða við hagsmuni og reglur réttarríkisins. Það er jú það sem skiptir höfuðmáli. Þá megum við ekki fara á svig við þær almennu reglur sem gilda um sönnun, um það hverjir eigi að bera refsiábyrgð. Við getum ekki farið að setja í sérlög ákvæði um það að í vissum tilvikum skuli ákvæði og afbrot, sem þess vegna eiga sér hliðstæðu í mörgum öðrum tilvikum — í þessum sérstöku tilvikum skuli þau vera refsilaus en í öðrum tilvikum ekki. Slíkt grefur að mínu viti undan réttarríkinu og hugmyndum um jafnræðisreglu og jafnræði milli aðila. Ég ítreka að mér hefði fundist eðlilegra að frekar yrðu mótaðar mismunandi reglur í almennum hegningarlögum um það, sem ég tel að séu löngu tímabærar — að fjalla um það í hvaða tilvikum, og heimila dómstólum mat á því, megi sýkna, dæma til annarra viðurlaga en t.d. fangelsisrefsingar eða sekta. Sem dæmi mætti nefna meðferðarúrræði ýmiss konar, þannig að slík ákvæði — og það er Alþingis og dómsmálaráðherra að meta það og móta slíkar almennar réttarreglur. Mér finnst afar vafasamt að gera það í sérlögum um embætti sérstaks ríkissaksóknara við þessar sérstöku aðstæður.

Það sem skiptir máli, og ég tel að við séum sammála um það, er að styrkja réttarríkið. Um það er að ræða, og ég legg á það þunga áherslu, að við eigum fyrst og fremst að styrkja þær grunnstoðir sem réttarríkið byggist á. Ég tel það mun heppilegra en að setja málin í sérfarveg hverju sinni.