136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:30]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil lýsa miklum stuðningi við þetta frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra. Mér þóttu ýmsar spurningarnar sem hv. þingmaður varpaði til ráðherrans vera mjög athyglisverðar.

Hv. þingmaður veltir því fyrir sér hvort sú rannsókn sem hér er lögð til að fari fram geti skarast við þá rannsókn sem væntanlega fer fram í krafti laga sem ég vænti að Alþingi samþykki að frumkvæði forsetans og forustumanna stjórnmálaflokkanna. Það kemur skýrt fram í frumvarpinu að það liggja gagnvegir millum þessarar rannsóknar og þeirrar og því tel ég ekki að þau mál muni skarast að nokkru leyti. Ég skil þetta frumvarp þannig að ef það kemur með einhverjum hætti upp eitthvað sem saknæmt kynni að teljast í rannsókn þeirrar nefndar sem síðar verður sett á laggirnar þá verði því m.a. vísað til þessa embættis.

Ég vil svo líka segja að hv. þingmaður velti því fyrir sér og hafði greinilega einhverjar efasemdir um að það kynni að vera álitaefni hvort samþykkja ætti sérstakt ákvæði sem undanþiggur uppljóstrara eða heimildarmann þeim refsingum sem í dag liggja í íslenskum lögum við því að brjóta bankaleynd.

Ég tel að eitt þarfasta ákvæðið í frumvarpi hæstv. dómsmálaráðherra sé einmitt sú viðleitni að reyna að laða fram upplýsingar með því að undanþiggja þá sem veita þær hugsanlegum viðurlögum vegna brota á bankaleynd. Ég tel að það sé mjög þarft hjá hæstv. ráðherra að gera það.

Síðan vil ég lýsa stuðningi við það sem hv. þingmaður upplýsir að hæstv. ráðherra hafi sagt í nefndinni, að hann vildi gjarnan að þingnefndin kæmi að því að velja mann sem á að taka að sér þetta embætti. Ég hafði ekki heyrt það áður hjá hæstv. dómsmálaráðherra en ég tel að það undirstriki vilja hans og ríkisstjórnarinnar til að ná sem mestri sátt um þetta mál og ég held að það sé (Forseti hringir.) mjög mikilvægt.