136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:38]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð fagnar því að þetta frumvarp sé komið fram. Það má auðvitað deila um það undir réttarfarsformi hvort hér sé settur á fót sérstakur saksóknari eða réttarvörslukerfið taki þetta að sér en það er mat hæstv. dómsmálaráðherra að réttarvörslukerfið ráði ekki við þetta verkefni. Það er auðvitað miður en fyrir mér er það formsatriði en ekki aðalatriði. Við styðjum þetta frumvarp með fyrirvörum, þar með talið um breytingar.

Frumvarpið kemur nokkuð seint fram að okkar mati og það sem réði því var að hæstv. dómsmálaráðherra drap málinu á vissan dreif með því að setja saksóknara í að kanna hvort rökstuddur grunur væri fyrir hendi. Þar var ekki um eiginlega opinbera rannsókn í skilningi laga að ræða heldur var verið að leita að hinum rökstudda grun sem blasti við öllum sem vildu hafa augun opin þegar í byrjun október. Í því sambandi nefni ég bara Icesave-reikningana og sérstaklega sjóðsreikninga og peningamarkaðsreikninga þar sem blasir við að fólk hafi fengið bæði ranga ráðgjöf, verið sagt að um væri að ræða örugga reikninga, rétt eins og ríkisskuldabréf, og það liggur líka fyrir að hreyfingar innan þessara sjóða voru afar tortryggilegar þar sem var verið að færa úr hlutabréfaeignum sjóðanna yfir í önnur hlutafélög stærstu eigenda bankanna án samráðs við eigendurna. En rökstuddi grunurinn var fyrir hendi og málið er komið af stað og það er hið besta mál og ég get tekið það fram að ég mun leggja mitt á vogarskálarnar til þess að málið fái sem hraðasta afgreiðslu í allsherjarnefnd og ég tek undir orð hæstv. ráðherra þar að lútandi.

Ég vil gera örfáar athugasemdir við frumvarpið eins og það liggur fyrir og byrja á 1. gr. þar sem segir að það eigi að kanna grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði er leiddu til setningar neyðarlaganna. Ég hygg að þetta nái of skammt. Ég kýs að ákvæðið nái yfir atburði sem einnig gerðust eftir setningu neyðarlaganna. Það var ýmislegt í gangi þá sem kann að þurfa að rannsaka sérstaklega og því vil ég ekki að umboð þessa sérstaka saksóknara sé takmarkað með þessum hætti. Skilin milli nýju og gömlu bankanna og ýmislegt fleira hefur vakið tortryggni einstaklinga og lögaðila úti í bæ.

Ég hygg líka að það þurfi að skoða svolítið betur eða huga að í nefndarstörfunum skilunum eða verkaskiptingu milli hins sérstaka saksóknara og ríkissaksóknara. Hvort því sé vel komið með þessum hætti að ríkissaksóknari hafi yfirumsjón með hinum sérstaka saksóknara. Ég velti þessu upp sem spurningu án þess að hafa á því einhverjar breytingarhugmyndir eða annað slíkt.

Hvað varðar 4. gr. þá set ég spurningarmerki við það að dómsmálaráðherra skipi sérstakan saksóknara. Ég var ekki á þeim opna fundi allsherjarnefndar þar sem hæstv. dómsmálaráðherra gerði grein fyrir frumvarpinu, ég var ekki í bænum, en mér skilst að hæstv. ráðherra hafi þá látið þau orð falla að hann mundi vilja að náð yrði samstöðu um það og ég hygg að það sé mjög brýnt. Það að hæstv. dómsmálaráðherra, einn og sér, skipi þennan saksóknara er ekki til þess fallið að vekja traust út á við, með fullri virðingu fyrir hæstv. ráðherra og til þess koma ýmsir hlutir.

Hér hafa verið nefnd ummæli sem koma fram í greinargerð með frumvarpinu um árásir tiltekins stórfyrirtækis eða atlögur á hendur réttarvörslukerfinu. Það eitt nægir mér til að segja að það sé orðinn erfiður grundvöllur fyrir dómsmálaráðherra að tilnefna sérstakan saksóknara.

Það er líka svo að það er talað um krosseignatengsl innan þessa bankakerfis sem hrundi en það eru líka krosshagsmunatengsl. Það eru krosshagsmunatengsl innan ríkisstjórnarflokkanna að því leyti að ýmsir trúnaðarmenn ríkisstjórnarflokkanna hafa oft setið í þessum fyrirtækjum og átt stóra eignarhluta þar, án þess að ég sé að orða einhverja sök í því sambandi. En traustið út á við og trúverðugleikinn skiptir almenning í landinu öllu máli. Ég vil líka minna á það að hæstv. dómsmálaráðherra var í ríkisstjórn þegar til einkabankanna var stofnað og fleira kemur til. Hér þarf Alþingi að koma að, hvernig sem því verður fyrir komið, og um málið verður að ríkja full samstaða og hinn skipaði saksóknari þarf að njóta fulls trausts og trúnaðar þjóðarinnar.

Ákvæði 4. gr. kann að virðast umdeilanlegt að því er varðar uppljóstrara en því eru settar afar þröngar skorður og ég leggst ekki gegn því. Ég hygg að þetta sé flókið og erfitt mál. Það sem vekur athygli mína er að þessi heimild er bundin við starfsmann eða stjórnarmann fyrirtækis og ég spyr af hverju svo sé, af hverju er þessi heimild ekki víðtækari? Þá leiði ég hugann að því að í svona brotum eru gjarnan hlutdeildarmenn sem standa utan fyrirtækjanna, utan bankanna, utan eigenda bankanna og stærstu hluthafa og hlutdeildarmenn ávinna sér eða hljóta yfirleitt mun minni refsingu en sjálfir gerendurnir. Mér finnst þetta takmarkandi og átta mig ekki á því af hverju það er. Af hverju er þetta bundið við starfsmenn og stjórnarformenn fyrirtækjanna?

Í framhjáhlaupi í þessu gefur það mér tilefni til þess að spyrja hvort það eigi bara að skoða sjálfa bankana og stærstu hluthafa. Á ekki að skoða þetta í heild sinni? Á ekki að skoða hugsanlega ábyrgð ríkisstarfsmanna, án þess að ég sé að gera því skóna að svo sé? Á ekki að skoða embættismannaábyrgð? Á ekki að skoða hugsanlega ábyrgð starfsmanna Fjármálaeftirlitsins, Seðlabankans? Er verið að undanskilja þá? Það eru vísbendingar um það vegna þess að í tillögu um þingsályktun um fjárhagslega fyrirgreiðslu hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum er sérstaklega tekið fram í 6. tölulið að það eigi að beina sérstakri rannsókn að bönkunum, starfsmönnum banka. En það virðist vera sneitt fram hjá öðrum sem kunna að eiga ábyrgð. Eftirlitskerfið kann að bera ábyrgð og menn utan bankanna kunna að bera ábyrgð. Þetta ákvæði í 6. gr. er því mjög sérkennilegt. Það er sagt að hluti af framkvæmdinni sé einnig mat á því hvort stjórnendur og helstu hluthafar hafi gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum. Í 10. gr. skilmálanna er þetta endurtekið, með leyfi herra forseta:

„Hafi fyrrverandi yfirstjórnendur og helstu hluthafar í yfirteknu bönkunum gerst sekir um afglöp í rekstri eða misnotkun á bönkunum eiga þeir ekki að gegna sambærilegu hlutverki næstu þrjú árin.“

Það þarf að taka fullkomlega af skarið við meðferð þessa frumvarps, að það sé ekki afmarkað við bankana og stærstu hluthafa þeirra og stjórnendur eða starfsmenn heldur að þetta sé yfir allt. Vegna þess að þetta breytist víðar en innan bankanna. Sérstaklega vísa ég til þess að hlutdeildarbrotin í þessu kunna að vera umfangsmikil. Hlutdeildarbrot einstaklinga og lögaðila utan bankanna, jafnvel þeirra sem ekki hafa þar verið hluthafar.

Ég vil líka nefna til umhugsunar að þarna er ákvæði sem heimilar að fallið verði frá saksókn. Því eru settar þröngar skorður. Ég minni líka á heimild í 9. tölulið 70. gr. almennra hegningarlaga að við ákvörðun refsinga megi taka tillit til þess hvort brotamaðurinn hefur upplýst um aðild annarra. Ég velti því fyrir mér hvort það komi til skoðunar innan allsherjarnefndar að rýmka þetta ákvæði eða að setja sérstakt ákvæði þar um inn í þessi lög. Auðvitað eiga þessi ákvæði að vera í hegningarlögum en þarna kemur alveg til greina, varðandi saksóknina, að falla frá henni en það er vissulega til skoðunar að rýmka heimildir til að taka tillit við aðstoð við að upplýsa málið við ákvörðun hegningar, rýmka þá heimild eða geta þess í greinargerð að það komi sérstaklega fram. Þetta ákvæði var að vísu sett inn í hegningarlögin á sínum tíma til að fá einstaklinga til að upplýsa um fíkniefnabrot. En það á alveg við í slíkum brotum sem þessum.

Í 6. gr. varðandi um tímamörkin sem þar eru sett, þ.e. að dómsmálaráðherra geti hvenær sem er eftir 1. janúar ákveðið að leggja embættið niður, þá mér finnst þetta bera vott um mikla bjartsýni. Þetta er rannsókn og saksókn sem mun taka fjögur, fimm, sex ár og ég er ekki á því að dómsmálaráðherra, hver sem hann verður á þeim tíma, hafi þessa heimild. Og ef samstaða verður um það hvernig verður staðið að ráðningu þá á að standa að því þannig að þingið ákveði niðurfellingu rannsóknar eða aðrir.

Ég vil í framhjáhlaupi geta þess aftur að frumvarpið er, eins og kemur fram í athugasemdum, samið að tilhlutan dómsmálaráðherra. Ég hefði kosið að þar hefði verið haft fullt samráð við stjórnarandstöðuna. Það er held ég nokkuð breið samstaða um þetta mál þó að menn vilji gera einhverjar úrbætur á lögunum. En það skortir á samráð og það skortir á þau vinnubrögð sem mælt er fyrir í handbók um undirbúning og frágang lagafrumvarpa að þessu leyti. En málið bar brátt að svo það má að hluta til skilja það.

Ég vil líka vekja athygli á því að það stendur til að stofna þingnefnd sem á sinna rannsókn til hliðar við þessa rannsókn og starf þeirrar þingnefndar og þessa sérstaka saksóknara getur eðlilega skarast. Það getur komið upp í starfi þingnefndarinnar að um refsiverð brot kunni að vera að ræða og það kann að vera að það komi upp í starfi hins sérstaka saksóknara að það sé atriði sem þurfi ekki hans rannsóknar eða hennar heldur fari yfir til þingnefndarinnar eða rannsóknarnefndarinnar sem gerir hina svokölluðu hvítbók, en það þarf að tryggja að það séu opnir vegir milli hinna tvískipuðu rannsóknarnefnda og hins sérstaka saksóknara.

Ég ítreka líka að innan nefndarinnar verður að skoða sérstaklega verkaskiptingu ríkissaksóknara og hins sérstaka saksóknara eða ég varpa þeirri spurningu fram hvort það sé eðlilegt að verkaskipting þeirra þar á milli við þessar sérstöku aðstæður og við þetta sérstaka verkefni sé hagað með sama hætti og mun verða síðan eftir lögum um meðferð sakamála þar sem hinn sérstaki saksóknari verður hliðsettur héraðssaksóknara.

Það er eitt í viðbót sem ég vildi nefna í þessu samhengi. Ég hygg að nefndin þurfi að skoða það gaumgæfilega hvort ekki sé ástæða til að hugleiða það annaðhvort með breytingu á neyðarlögunum eða með sérstöku ákvæði eða sérlögum, ákvæðum 1. gr., þ.e. að upptöku eigna eru settar mjög þröngar skorður í núgildandi lögum. Við settum neyðarlög 6. október síðastliðinn. Það er alveg full ástæða til þess að það komi inn pósitíft ákvæði sem útvíkkar heimildir til að frysta eignir þeirra manna sem rakað hafa að sér fé síðastliðin 6–10 ár á kostnað almennings í landinu, til að ná yfir það sem hugsanlega verður kallað þýfi eða ólögmæt auðgun er upp úr rannsókninni verður staðið. Þetta er ekki eingöngu hugsað til þess að gera upptækan ólögmætan hagnað heldur að þessar eignir geti staðið sem andlag skaðabótakrafna gagnvart peningamarkaðssjóðseigendum og öðrum einstaklingum í landinu, almenningi, sem hefur beðið skelfilegt tjón af þeirri óráðsíu og græðgi sem einkennt hefur starfsemi bankanna og þjóðfélagið síðastliðin ár. Ég held að það mætti huga vel að því að koma inn slíku ákvæði þar sem slíkar heimildir verða rýmkaðar.

En að lokum þá hygg ég að fjárveiting eða mat fjárlagaskrifstofunnar sé rangt, að kostnaður við þetta sé verulega vanmetinn og þurfi strax að gera ráð fyrir verulega auknum kostnaði og ég tek svo undir að það sé brýnt að hraða meðferð þessa frumvarps gegnum þingið.