136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[14:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir ræðumenn hér fagna framlagningu þessa frumvarps sem ég tel að sé afskaplega mikilvægt í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í þjóðfélaginu. Ég fagna því jafnframt að viðtökur við frumvarpinu hafa verið jákvæðar í umræðunni og ég held að ljóst sé af henni að hér er ekki um að ræða eiginlegt flokkspólitískt mál heldur mál sem lýtur að markmiðum sem allir flokkar hér á þingi eiga að geta sameinast um.

Hér er um að ræða rannsókn á þeim þáttum sem kunna að hafa verið refsiverðir í sambandi við hrun fjármálakerfisins, bæði þau atriði sem áhrif höfðu á atburðarásina eins og hún varð og eins ýmis hugsanleg brot sem kunna að hafa komið upp í því umrótsferli sem vissulega hefur átt sér stað á þessum markaði. Það er þekkt mál að þegar fyrirtæki í rekstri riða til falls vita menn að oft koma upp einhver tilvik þar sem menn fara á svig við lög og gerast jafnvel sekir um refsivert athæfi. Frumvarpinu er ætlað að taka á þeim þætti.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er væntanlegt hingað í þingið frumvarp sem gerir ráð fyrir annars konar rannsókn sem tekur til miklu fleiri þátta en sú rannsókn sem þetta frumvarp fjallar um. Þar er um að ræða greinargerð eða úttekt á orsökum og afleiðingum bankahrunsins með breiðri skírskotun þar sem skoðaðar eru alls konar ákvarðanir sem teknar hafa verið á vettvangi einkafyrirtækja og stjórnsýslunnar. Þar eru undir pólitísk atriði sem og stjórnsýslulegar og viðskiptalegar ákvarðanir og er ætlunin að leggja mat á það. Sú rannsókn er í undirbúningi og eins og fram kom hér áðan hafa forseti þingsins og formenn stjórnmálaflokkanna haft forgöngu um það. Ég vonast til þess að það frumvarp muni líta dagsins ljós hið fyrsta.

Það snýst um sakamálaþáttinn, þann þátt sem snýr að hugsanlegum refsiverðum brotum þar sem fjallað er, eins og segir í 1. gr. frumvarpsins, um „grun um refsiverða háttsemi í aðdraganda og í tengslum við þá atburði er leiddu til setningar laga“ o.s.frv. Þar er vísað til bankahrunsins. Ég tel reyndar vegna athugasemda sem komið hafa fram hér í umræðunni að orðalagið „í tengslum við þá atburði“ tryggi að hægt verði að saksækja fyrir athafnir sem átt hafa sér stað eftir setningu neyðarlaganna en um það munum við fjalla nánar í nefndinni.

Eins og fram hefur komið, m.a. hjá hv. þm. Jóni Magnússyni, felast í þessu frumvarpi fyrst og fremst tvær spurningar sem við stjórnmálamenn þurfum að svara. Í fyrsta lagi er það spurningin um hvort við viljum að embætti sérstaks saksóknara verði stofnað til þess að fjalla um þetta mál eða hvort við viljum að málin sem þarna um ræðir fari í venjubundinn farveg eftir þeim reglum sem þegar gilda. Hitt atriðið er svo ákvæðið sem við getum kallað uppljóstraraákvæðið sem ég ætla að víkja að síðar.

Varðandi spurninguna um hvort stofna eigi embætti sérstaks saksóknara eða setja eigi málið í venjubundinn farveg skal ég játa að auðvitað hef ég hugleitt svolítið hvort væri réttara. Niðurstaða mín er sú að styðja þá hugmynd sem dómsmálaráðherra hefur lagt fram. Hún byggir á þeim grundvelli að hér getur verið um að ræða gríðarlega viðamikil verkefni. Aðstæðurnar eru óvenjulegar eins og við þekkjum. Það er ekki um það að ræða, eins og við höfum í öðrum tilvikum, að eitt fyrirtæki hafi riðað til falls og hugsanlega hafi brot verið framin í tengslum við það heldur hafa 90% af bankakerfinu í landinu hrunið.

Uppi eru alls konar grunsemdir og ásakanir í þjóðfélaginu um ýmis brot í þessu sambandi. Við gerum okkur grein fyrir því þó að við höfum ekki myndina alla enn þá að hér er um gríðarlega viðamikið verkefni að ræða og óvenjulegar aðstæður.

Hætta er á að málafjöldinn verði talsvert mikill sem af þessari rannsókn leiðir og ég held að það geri það að verkum að vel megi rökstyðja að farin sé sú leið sem hér er lögð til, að stofna sérstakt embætti saksóknara sem taki á þessum málum sérstaklega. Þar með ætti að stuðla að því að vinna við þessi mál gangi hraðar og greiðar fyrir sig en ella væri. Ég tel mjög mikilvægt að öllum sé ljóst af hálfu löggjafans er gengið þannig frá málum að málin verði rannsökuð í þaula og að þau séu ekki sett í venjulegan farveg þar sem hætta er á töfum vegna mannfæðar eða annars. Ætlunin er sem sagt að stofna sérstakt embætti til þess að setja kraft í að leiða málin til lykta og það held ég að sé mjög mikilvægt í þessu sambandi.

Varðandi ákvæðið sem snýr að því að heimilt verði að falla frá ákæru á hendur starfsmanni eða stjórnarmanni fyrirtækis sem hefur frumkvæði að því að láta lögreglu eða saksóknara í té upplýsingar og annað, sem við getum kallað uppljóstraraákvæðið, þá stöndum við frammi fyrir mikilvægri spurningu. Við stöndum frammi fyrir þeirri spurningu hvort við teljum að óhjákvæmilegt sé að opna á heimild af þessu tagi til þess að leiða sannleikann í ljós, draga fram þær nauðsynlegu upplýsingar sem geta orðið til þess að upplýsa um hugsanleg brot í tengslum við bankahrunið.

En um leið tek ég undir varnaðarorð sem komið hafa frá ýmsum þingmönnum í umræðunni að ákvæði af þessu tagi er gríðarlega vandmeðfarið. Það er hætta á því að einhverjir einstaklingar sjái sér leik á borði að misnota ákvæði af þessu tagi, annaðhvort í þeim tilgangi að koma sjálfum sér undan refsingum eða jafnvel til að koma höggi á einhverja tiltekna einstaklinga. Slíkt ákvæði er ákaflega vandmeðfarið í framkvæmd. Ég tel samt sem áður að góð rök séu fyrir því að taka það inn í þessu sambandi og tek undir þau ummæli dómsmálaráðherra að það verður athyglisvert að fylgjast með framkvæmdinni á því, m.a. með það fyrir augum að skoða hvort tilefni er til þess að taka það upp í almennum réttarreglum á þessu sviði.

Af því að nokkuð var rætt um það fyrr í umræðunni vil ég nefna að vissulega er gert ráð fyrir að ströng skilyrði verði sett fyrir beitingu þessarar heimildar, að falla frá saksókn. Það er í fyrsta lagi, eins og segir í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins:

„… að rökstuddur grunur liggi fyrir um að gögnin eða upplýsingarnar tengist alvarlegum broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir brotunum.“

Ég held að þau ströngu skilyrði sem hér eru orðuð gefi okkur tilefni til þess að ætla að heimild þessari verði beitt af varfærni og að það verði ekki almenn regla heldur einvörðungu regla sem notuð er þegar þessi skilyrði sem ég hef rakið eiga við.

Um þessi atriði fáum við tækifæri til að fjalla nánar í allsherjarnefnd þegar málið kemur þar á dagskrá. Ég tek undir það sem ráðherra og fleiri þingmenn hafa sagt að ég tel brýnt að málið verði afgreitt þar sem fyrst en auðvitað eru ákveðin álitamál þarna sem við þurfum að ræða og fara yfir. Ég fagna því að menn eru sammála um að það fái skjóta meðferð. Ég tek líka undir það sem fram hefur komið í umræðunni að við þurfum jafnframt á vettvangi nefndarinnar — og eins er mikilvægt að hugsað sé um það í ráðuneytinu og á öðrum vettvangi — að reyna eftir föngum að meta þann kostnað sem af rannsóknarstarfi þessu mun hljótast. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að þetta getur orðið mjög umfangsmikið starf sem kostar mikið en það má ekki hindra okkur í því að reyna að leiða málin til lykta með sem bestum og réttustum hætti.