136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:05]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar, ræddi um það frumvarp sem er til umræðu og ég get verið alveg sammála greiningu hans um þau tvö atriði sem hér skipta mestu máli. Það sem skiptir máli fyrir okkur í réttarríki er að átta okkur á þeirri grundvallarreglu sakamálaréttarfarsins að hver maður skuli talinn saklaus þangað til sekt hans er sönnuð. Það liggur fyrir að á óvenjulegum tímum eins og þeim sem við núna upplifum reynir því miður gríðarlega á stjórnmálamenn og lagasetningarvald að hafa ýtrustu hagsmuni réttarríkisins í huga. Ef farið er ofan í umræður og sjónarmið sem komu upp í tengslum við hið svokallaða Hafskipsmál þá er það dæmi um það þegar stjórnmálamenn féllu á prófinu, þó með vissum undantekningum eins og þáverandi bankamálaráðherra Matthías Bjarnason sem stóð föstum fótum og gerði sér grein fyrir því hvað væri um að ræða.

Hv. þm. Birgir Ármannsson sagði hér áðan að það mætti búast við miklum málafjölda. Þá spyr ég: Hvaða upplýsingum býr þingmaðurinn yfir sem réttlæta þau ummæli að um mikinn málafjölda geti verið að ræða?

Í annan stað vil ég spyrja hann vegna ákvæðisins um uppljóstrara hvort þingmaðurinn telji ekki heppilegra að setja slík ákvæði sem heildarákvæði, almenn ákvæði í almenn hegningarlög í stað þess að setja þau í sérlög eins og þau sem hér ræðir um.