136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:29]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu en ég sé mig knúna til þess vegna þeirrar undarlegu árásar sem hæstv. dómsmálaráðherra kaus að gera á fjarstaddan þingmann, hv. þm. Atla Gíslason, sem þurfti því miður að víkja frá vegna annarra skyldustarfa klukkan þrjú. Ég held að hæstv. ráðherra hafi verið fullkunnugt um það (Gripið fram í.) og að Atli Gíslason hafi gert honum viðvart um leið og hann gekk úr salnum (Dómsmrh.: Það var ekki gert.) að hann þyrfti að fara. (Dómsmrh.: Það var ekki gert.) Nú hrópar hæstv. dómsmálaráðherra hér fram í.

Það sem hæstv. dómsmálaráðherra valdi að segja um orð Atla Gíslasonar er auðvitað markleysa. Það þekkja þeir sem fylgst hafa með vinnu Atla Gíslasonar hæstaréttarlögmanns sem hefur starfað í dómsölum landsins árum og áratugum saman við góðan orðstír að hann er grandvar og orðvar maður. Þegar hann veltir fyrir sér hvort hæstv. dómsmálaráðherra sé vanhæfur er það vegna þess að það gera það margir, hæstv. dómsmálaráðherra. Það eru ýmsir í þessu samfélagi sem ekki treysta forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins, hvorki í ríkisstjórn, í Seðlabanka né á öðrum stöðum í þessu samfélagi við þær aðstæður sem nú ríkja.

Þetta þingskjal er undarlegt skjal. Það er frumvarp til laga en greinargerðin er að mestu leyti bréf og ræður hæstv. dómsmálaráðherra eftir því sem ég best fæ séð. Ég kannast ekki við að hafa séð slík þingskjöl hér oft áður.

Á bls. 4 í þessari greinargerð er minnst á Baugsmálið og vitnað í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra þar um og það er eitt af því sem hv. þm. Atli Gíslason nefndi hér áðan. Það skyldi þó ekki vera að þarna sé fólgin (Forseti hringir.) og fundin skýringin á því af hverju ekki einu sinni hæstv. ríkisstjórn og ráðherrar tóku mark á viðvörunum sem (Forseti hringir.) seðlabankastjóri segist hafa haft uppi? Það sé einfaldlega vegna þess að sá maður telst ekki marktækur, (Forseti hringir.) bullandi vanhæfur til sinna starfa rétt eins og (Forseti hringir.) margir af forsvarsmönnum Sjálfstæðisflokksins í þessu máli.