136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

embætti sérstaks saksóknara.

141. mál
[15:31]
Horfa

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér var ekki gert viðvart um fráveru hv. þingmanns og þótt menn geti ekki verið hér við umræður getur það ekki orðið til þess að þeir komist undan því að þeim sé svarað. Ég tel að hv. þm. Atli Gíslason hafi veist að mér á þann veg að það lá beint við að ég svaraði. Ég harma það að hann var ekki í þingsalnum.

Ég skil vel að fólk sé andvígt því að ég gegni ráðherraembætti og menn séu það á pólitískum forsendum. Pólitískir andstæðingar vilja að sjálfsögðu koma þeim frá sem sitja í ráðherraembættum en að gera það með þeim orðum sem hv. þingmaður viðhafði, þótt hann sé hæstaréttarlögmaður, er óviðunandi að mínu mati.

Það var aldrei á neinn hátt, hvorki af minni hálfu né ríkissaksóknaraembættisins, verið að skorast undan því að taka á þessu máli hratt og ákveðið. Hv. þingmaður gaf það til kynna og sagði að vegna orða sem standa hér og ég flutti í hátíðarsal Háskóla Íslands kunni ég að vera vanhæfur til þess að skipa sérstakan saksóknara. Hann gengur jafnvel lengra en gert var í réttarsalnum þegar reynt var að spilla fyrir framgangi Baugsmálsins og síðan farið með það til Strassborgar, málinu vísað frá af því að málatilbúnaðurinn var algjörlega út í hött og það hafnaði í Hæstarétti. Það er því full ástæða fyrir mig að taka þetta mál upp og verja málfrelsi ráðherra og þingmanna til þess að lýsa skoðun sinni.