136. löggjafarþing — 33. fundur,  21. nóv. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[16:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér bandorm til breytinga á ýmsum lögum á sviði iðnaðarráðuneytis og umhverfisráðuneytis og ég vil byrja á því að segja að þetta eru að nokkru leyti tæknilegar breytingar á lögum sem áður hafa verið afgreidd og samþykkt og nú með tilliti til breyttra aðstæðna og betri þekkingar. Ég tel hins vegar mikilvægt að þetta frumvarp fái mjög ítarlega athugun í nefndum þingsins. Ég vil eindregið óska eftir því við hæstv. ráðherra að hann beiti sér fyrir því að frumvarpið fari einnig til hv. umhverfisnefndar en ekki einungis til hv. iðnaðarnefndar. Það er auðvitað svo að nefndirnar gætu unnið að þessu saman og það væri auðvitað hið besta mál en það er ekkert sem segir að báðar nefndirnar geti ekki fjallað um þetta að mínu viti.

Það kann að vera, alla vega ef maður hlustar á hæstv. iðnaðarráðherra og tekur eftir því hvað hann hefur fram að færa í fjölmiðlum þá mætti halda að það sé ekki svo fjarlægt í raun að farið verði að leita að og jafnvel vinna olíu á íslensku landsvæði, að vísu lengst norður í höfum. Ég vil hins vegar hvetja hæstv. ráðherra til þess að gæta hófs í yfirlýsingum sínum og keyra ekki upp miklar væntingar um leið og ég hvet hann til þess að muna eftir ábyrgð okkar í umhverfismálum, ábyrgð okkar á lofthjúpi jarðar, þeirri áherslu sem við höfum og eigum, stöðu okkar vegna í heiminum, að leggja á endurnýtanlega orku og sjálfbæra þróun. Það er auðvitað mjög mikilvægt að missa ekki sjónar á þeim atriðum þegar olíurannsókna- og olíuvinnslufyrirtæki utan úr heimi banka upp á og vilja auka framleiðslu sína með samstarfi við Ísland.

Í þessu efni eins og öðrum þegar um að ræða auðlindir í sameign þjóðarinnar, sem þessar auðlindir eru í samræmi við lög frá 1990, um auðlindir hafsbotnsins, þá er auðvitað vandmeðfarið hvernig hagsmuna eigendanna, þ.e. almennings í landinu, er gætt bæði hvað varðar leyfisveitingar og framsal á nýtingu auðlindarinnar sem slíkrar og það á við um allar slíkar auðlindir. Hér er gert ráð fyrir að hagsmuna íslenska ríkisins eða ríkissjóðs verði gætt með tilteknum hætti og það er nýmæli í þessum lögum, sem hæstv. iðnaðarráðherra nefndi réttilega að gæti kætt þá sem hér stendur, um heimild til að stofna sérstakt hlutafélag til að gæta hagsmuna ríkisins.

Í greinargerð er vísað til fordæmis frá Noregi, fyrirtækis sem heitir Petoro og hæstv. ráðherra lýsti hér áðan. Ég vil af því tilefni segja að það eru margar leiðir færar í þessu, hæstv. ráðherra, og ég tel mikilvægt að nefndin, sérstaklega iðnaðarnefnd í því sambandi, skoði einnig það fordæmi sem Norðmenn hafa gefið með ríkisolíufyrirtækinu Statoil. Norðmenn fóru þá leið á sínum tíma að þeir stýrðu olíuvinnslu sinni í farveg sem miðaði að því að byggja upp þekkingu og mögulega aðild innlendra aðila að rannsóknum og vinnslu jafnvel þótt hún væri fjármagnsfrek. Við vitum hver árangurinn varð af því. Norðmenn voru ekki feimnir við að beita ríkisvaldinu í því skyni að tryggja að í höndum Norðmanna sjálfra yrði til öflugur iðnaður á þessu sviði. Danir fóru hins vegar aðra leið, þeir framseldu þessi réttindi beint í hendur einkaaðila og það er skýringin á því að A.P. Møller-Mærsk er með öll réttindi Dana í Norðursjó. Þar hefur þróunin verið allt önnur en í Noregi, þar byggðist ekki upp sjálfstæður iðnaður í landinu eða sjálfstæð þekking nema hjá einkaaðilum.

Nú er ég ekki að segja að við séum komin að því, frú forseti, að fara að vinna olíu hér á landi. Ég vil bara benda hæstv. ráðherra á að það eru fleiri leiðir færar til að gæta hagsmuna íslenska ríkisins og eigenda þeirra auðlinda sem þetta frumvarp fjallar um en sú sem nefnd er í greinargerðinni. Ég vil líka nefna að á þetta var bent á sínum tíma, í mars 2007, þegar þeim lögum sem hér um ræðir, nr. 13/2001, var síðast breytt og einnig þann möguleika að í stað þess gjaldtökuákvæðis sem hér er í 11. gr., að taka gjald stig af stigi fyrir leyfi fyrir rannsóknir og fyrir vinnslu, er mögulegt í sjálfu sér að gerast eigendur í slíkum fyrirtækjum, mynda eignarhlut í þeim í stað vinnslugjalds.

Ég hef nefnt það áður að ég tel mikilvægt að hv. umhverfisnefnd fjalli um þetta mál því að það er í rauninni mjög vandmeðfarið hvaða áhrif rannsóknir og vinnsla á olíu og gasi geta haft á lífríki og lífsmöguleika með ströndum fram ef slys verður eða óhapp við rannsóknir eða vinnslu. Ég tel mjög mikilvægt að kveðið sé á um það hér að lög um hollustuhætti og mengunarvarnir taki til þessarar starfsemi og það sé ítrekað í öðrum lagabálkum sem heyra til umhverfisráðuneytisins og eru taldir í seinni hluta þessa frumvarps.

Frú forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þessa ræðu. Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi máls míns að Íslendingar bera allmikla ábyrgð hvað varðar lofthjúp jarðar. Við höfum lengi verið á toppnum í því að menga hvað mest í Evrópu þrátt fyrir að við séum með orkunotkun til flestra annarra hluta en bílaflotans sem ekki veldur svo mikilli mengun og þetta er auðvitað hlutur sem við þurfum að taka okkur á í. Ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra, sem hér var réttilega kallaður verðandi olíumálaráðherra áðan miðað við það hvernig hann talar oft í þessum efnum, að gleyma nú ekki endurnýtanlegu orkugjöfunum okkar og þeirri ábyrgð sem við berum í loftslagsmálum heimsins.