136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[13:52]
Horfa

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Í dag eru liðnar sjö vikur frá því að ég ávarpaði íslensku þjóðina vegna ástands á fjármálamörkuðum og í dag eru sjö vikur síðan Alþingi samþykkti hin svokölluðu neyðarlög til bjargar íslensku efnahagslífi. Við erum enn önnum kafin í ríkisstjórn og Alþingi við björgunarstörf og einmitt þá sér stjórnarandstaðan ástæðu til að flytja tillögu á Alþingi um vantraust á ríkisstjórnina. Það er undarlegur gjörningur, burt séð frá því að tillagan er meingölluð að formi til og gerir ráð fyrir alþingiskosningum á gamlársdag — látum það nú vera.

Þegar neyðarlögin voru samþykkt gerðum við okkur flest grein fyrir því að í hönd færi óviss og erfiður tími. Þá þegar gerðum við okkur grein fyrir því að hið versta væri ekki endilega yfirstaðið og við vissum það flest að mjög mundi reyna á hvert og eitt okkar í þeirri rás atburða sem fyrir höndum væri. Við gerðum okkur grein fyrir því að tjón margra yrði mikið og að fjölskyldur í landinu sæju fram á erfiðari tíma. Við vissum að margir mundu verða fyrir kjaraskerðingu og jafnvel atvinnumissi og við gerðum okkur grein fyrir því að margir draumar og margar áætlanir mundu ekki verða að veruleika. Við vissum að mikið uppbyggingarstarf væri fyrir höndum þar sem reyna mundi á skynsemi, þolgæði og samstöðu þjóðarinnar.

Sá efnahagslegi fellibylur sem nú geisar um heim allan á ekki upptök sín á Íslandi en örlögin hafa hagað því svo að hann skall á ströndum okkar af bylmingsafli og í ljós kom að rætur íslenska fjármálakerfisins voru ekki nægilega traustar til að standast mátt illviðrisins. Eins og hv. þingmaður gat um í ræðu sinni, hv. 1. flm. tillögunnar, komu þessir atburðir mönnum svo á óvart að aðeins nokkrum dögum áður en þeir gerðust hélt ég öðru fram í sjónvarpi í útlöndum. Það er hárrétt og það hef ég margoft rifjað upp sjálfur.

Íslensku bankarnir þrír voru rifnir upp með rótum í ofsaveðrinu. Þessir sömu bankar höfðu ítrekað hlotið lof fyrir frammistöðu sína og höfðu í farteski sínu margítrekuð heilbrigðisvottorð frá hinum ýmsu aðilum sem álitnir eru sérfróðir um hvernig meta skuli stöðu slíkra fyrirtækja. En þegar andvarinn í alþjóðlegum efnahagsmálum breyttist í fellibyl kom í ljós að skoðanir allra þessara sérfræðinga reyndust haldlitlar eða haldlausar með öllu og jafnvel skaðlegar, öll þessi heilbrigðisvottorð veittu falskt öryggi.

Auðvitað höfðu ýmsir uppi varnaðarorð og efasemdir, en sé umfjöllun síðustu ára skoðuð kemur í ljós að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra sem fjölluðu um stöðu íslenska bankakerfisins komst að þeirri niðurstöðu að bankakerfið stæði traustum fótum og ekki væri ástæða til að óttast verulegar þrengingar, hvað þá kollsteypu á borð við þá sem nú er orðin.

Þegar við lítum um öxl sjáum við vitaskuld ýmislegt. Það er sagt að erfitt sé að spá og einkum um framtíðina. Að sama skapi er auðvelt að spá um fortíðina og ekki vantar að ýmsir hreyki sér nú mjög af slíkum spásögnum. Það má raða saman vísbendingum úr fortíðinni og þótt rás atburða geti leitt til margra ólíkra niðurstaðna virðist allt býsna augljóst hafi maður við hendina þá einu niðurstöðu sem varð raunin. Þá er hægt að segja: Bara ef þetta hefði verið gert. Auðvitað erum við öll sammála um að við hefðum öll viljað geta gripið til þeirra ráða sem hefðu dugað til að forða okkur frá þessari stöðu, við hefðum auðvitað gert það. En raunveruleikinn heimilar ekki slík inngrip inn í fortíðina.

Staðreyndin er sú að hin ótrúlega atburðarás, sem við Íslendingar lentum í við hrun bankakerfisins, var að stærstu leyti ófyrirsjáanleg. Sumt þóttust glöggir hafa séð fyrir en höfðu engin úrræði til að bregðast við og auðvitað hafa einnig verið gerð mistök sem þarf að fara í saumana á og leiðrétta. Enginn hér á Íslandi gat séð fyrir hrun ýmissa stærstu fjárfestingarbanka Bandaríkjanna, hrun fjölda banka um heim allan, alkul á lánsfjármarkaði á milli fjármálastofnana og skyndilega einangrun íslenska hagkerfisins. Allt þetta dundi þó af fullum þunga á okkur Íslendingum nánast samtímis og ekki þarf annað en að hlusta á fréttir dagsins í fjölmiðlum hér á Íslandi, fréttir frá útlöndum, til að átta sig á því um hve mikla alheimskreppu er að ræða í löndunum hér í kringum okkur.

Um sumt af því sem nú hefur gerst höfðu klingt viðvörunarbjöllur. Skuldsetning Íslands var vissulega orðin mikil og útrás bankanna var um skeið mjög fjármögnuð af skammtímalánsfé frá öðrum fjármálastofnunum. Það var óhyggilegt. Við því var reynt að bregðast þegar bankarnir hófu að taka innlán á starfssvæðum sínum erlendis en þegar allt kerfið hrundi reyndust þær aðferðir, sem áttu að stuðla að auknum styrk bankanna, vera dýrkeyptar.

Skuldbindingar okkar samkvæmt EES-samningnum gerðu það að verkum að við þessu var ekki hægt að bregðast. Þá hefðu miklar og skyndilegar aðgerðir til þess að hefta vöxt bankanna getað orðið til þess að auka mjög líkur á því að fjármálakerfið lenti í erfiðleikum því að slíkar aðgerðir hefði mátt túlka sem vantrú á bönkunum. Þar með hefðu líkur staðið til þess að viðbrögð alþjóðlegra aðila yrðu að yfirgefa þá og hrinda þar með af stað þeirri atburðarás sem verið var að reyna að koma í veg fyrir. Enda er það því miður svo að viðvörunum um hugsanleg vandamál fylgdu nánast aldrei gagnlegar tillögur um úrbætur.

Auðvitað hafa ýmsir aðilar innan lands og utan, sem þessum málum tengjast, gert mistök þótt ekki sé auðvelt að greina á milli þess hvaða ákvarðanir voru bersýnilega rangar og hverjar líta einungis út fyrir að hafa verið rangar í ljósi þeirra atburða sem urðu.

Þau mistök sem gerð hafa verið þarf að draga fram í dagsljósið til þess að læra af þeim. Komi í ljós að um kæruleysi, vankunnáttu eða hirðuleysi hafi verið að ræða af hálfu þeirra sem fara áttu með eftirlit verður ekki hikað við að gera nauðsynlegar manna- og skipulagsbreytingar. Ef í ljós koma lögbrot í rekstri bankanna, sem stefnt hafa lífsafkomu þjóðarinnar í tvísýnu, verður heldur ekki hikað við að leita réttlætis fyrir hönd þjóðarinnar með öllum tiltækum og löglegum leiðum.

Nú þegar hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp um embætti sérstaks saksóknara og frumvarp um rannsóknarnefnd, sem gera mun ítarlega úttekt á orsökum og aðdraganda bankahrunsins, er langt komið í ágætu samstarfi allra flokka hér á Alþingi. Það er fyrsta skrefið í átt að uppgjöri við þá stöðu sem við okkur blasir.

Raunveruleikinn sem blasir við okkur heimilar okkur ekki inngrip í fortíðina en hann leggur á okkur þá skyldu að vanda okkur af öllum mætti við þær ákvarðanir sem blasa við okkur og varða framtíðina. Hversu slæm sem staðan er höfum við alltaf kosti í stöðunni og ætíð þarf að taka ákvarðanir sem geta ýmist orðið okkur til happs eða hnjóðs. Ég vil fara stuttlega yfir þá atburði sem orðið hafa á síðustu vikum og skýra hver forgangsröðun stjórnvalda hefur verið.

Þegar ljóst varð í lok september að Glitnir næði ekki að endurgreiða eða endurfjármagna þær skuldir sem hann þurfti að standa skil á var ljóst að afleiðingar þess yrðu stórbrotnar. Von stjórnvalda stóð auðvitað til þess að hinir stóru bankarnir stæðu af sér þá stöðu sem uppi var á alþjóðlegum mörkuðum. Því miður kom í ljós að staða þeirra var ekki heldur nægilega sterk og við íslenskum stjórnvöldum blasti nánast algjört hrun í fjármálakerfi landsins.

Þessar aðstæður eru líklega algjört einsdæmi. Aldrei hefur ein þjóð horfst í augu við svo snöggt fall í fjármálakerfinu. Við ríkisstjórninni blasti að greiðslumiðlunarkerfi innan lands hefðu getað hrunið þannig að fólk gæti hvorki sótt innstæður sínar í bönkum né notað debet- eða kreditkort í verslunum. Óvissan sem greip um sig meðal fólks hefði getað leitt til þess að gerð yrðu áhlaup á bankana með þeim afleiðingum að þeir yrðu óstarfhæfir.

Þær aðgerðir sem gripið var til með neyðarlögunum höfðu það markmið að tryggja að greiðslukerfið væri virkt þannig að fólk gæti treyst á að undirstöðuatriðin í hversdagslífinu, í venjulegu lífi fólks, stæðust þessi áföll. Hitt markmiðið með aðgerðunum var að tryggja að ekki léki vafi á því að íslenska ríkið mundi ekki taka yfir skuldir bankanna á erlendri grund. Með neyðarlögunum var sá skuldabaggi klipptur frá íslensku þjóðinni.

Ríkisstjórnin er þakklát fyrir að hafa í þessu mikilvæga máli notið stuðnings Framsóknarflokksins. Ekki er víst að allir átti sig á því hversu viðurhlutamikil þessi aðgerð var. Víða um heim starfa bankar í þeirri trú að ríkisvaldið muni taka yfir skuldir þeirra ef illa fer og vera má að einhverjir lánardrottnar íslensku bankanna hafi haldið að þetta gilti einnig um þá íslensku. Ákvörðun Íslands um að verja íslenska bankakerfið, grunnþjónustuna í samfélagi okkar, að þessu leyti til, en taka ekki ábyrgð á þeim skuldum sem bankarnir efndu til á erlendri grundu í starfsemi sinni var því gríðarlega mikilvæg til að verja hagsmuni Íslendinga en eigendur skuldabréfa í íslensku bönkunum sátu eftir með verðlitla pappíra.

Eftir stóð þó að íslensku bankarnir höfðu tekið við innlánum frá almenningi og um slíkt er erfiðara að höndla eins og við höfum kynnst. Deilurnar um Icesave-reikningana og innlánsreikninga Kaupþings hafa orðið að harðvítugri milliríkjadeilu sem vissulega hefur tafið framgang ýmissa annarra mála sem þarf að hyggja að. En niðurstaðan í þessum málum mun þó að öllum líkindum fela í sér miklum mun minni skuldbindingar fyrir okkur en kröfur yfirvalda í Hollandi og Bretlandi stóðu til. Þar var um slíka hagsmuni að tefla að eðlilegt var að þeir hefðu algjöran forgang á verkefnalista stjórnvalda á meðan málið hafði ekki verið leitt til lykta.

Næsta stóra málið á borði ríkisstjórnarinnar var síðan að tryggja að til væru í landinu nægir sjóðir til þess að bregðast við þeirri óvissu sem ríkir nú víða í heiminum. Til þess var nauðsynlegt að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um samstarf og nú höfum við tryggt fyrirgreiðslu frá sjóðnum og nokkrum vinaþjóðum okkar. Við höfum jafnframt gengið til samkomulags um aðgerðir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, m.a. um að endurvekja gjaldeyrismarkaðinn og skjóta styrkum stoðum undir nýtt markaðsgengi krónunnar en jafnvægisleysið í þeim efnum hefur orðið fjölda fyrirtækja og fólks til mikilla vandræða og tjóns. Þetta er það mikilvægasta um þessar mundir og það er algjör fjarstæða, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gefur hér til kynna, að öllum þessum fjármunum sem samið hefur verið um við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ýmsar vinaþjóðir verði varið til að fjármagna innflutning eða annað þess háttar. Það stendur ekki til að nota þessa peninga nema sem varasjóð og til inngripa á gjaldeyrismarkaðnum og algjörlega óvíst hvort grípa þurfi til þeirra í miklum mæli en nauðsynlegt er að hafa aðgang að þessum fjármunum ef í harðbakkann slær.

Ríkisstjórnin gerir sér einnig grein fyrir því að grípa þarf til aðgerða til þess að slá á ótta meðal þjóðarinnar og til þess að bæta stöðu heimila og fyrirtækja. Nú þegar hafa verið kynntar aðgerðir til varnar heimilunum í landinu og á næstunni verður aðgerðaáætlun um stöðu íslenskra atvinnufyrirtækja kynnt. Mjög mikilvægt er að vanda til þessara verka svo að verðmæti og þekking glatist ekki í þeirri óvissu sem nú er. Hér mun reyna mjög á stjórnvöld, embættismannakerfið, starfsmenn fjármálafyrirtækja og ekki síst stjórnir nýju bankanna.

Við aðstæður eins og þær sem komu upp er því miður ekki hægt að bregðast við öllum vanda samtímis og ég skil mætavel þá gremju sem það veldur hjá þjóðinni. Sjálfum gremst mér auðvitað að ekki skuli vera hægt að leysa alla hluti hraðar en staðreyndin er sú að verkefnin sem við stöndum frammi fyrir eru svo umfangsmikil að ekki er raunhæft annað en að þau taki sinn tíma. Við öll þau skref sem stigin hafa verið hefur ríkisstjórnin eftir fremsta megni leitast við að eiga gott og náið samstarf við þingmenn og sérstaklega formenn stjórnarandstöðuflokkanna. Svo mun áfram verða því að verkefni dagsins eru að mínu áliti stærri en svo að um þau gildi hefðbundin flokkapólitík.

Um aðgerðir ríkisstjórnarinnar hingað til hefur ríkt ágætissátt hér á Alþingi. Í nánast hverju einasta máli sem komið hefur til kasta þingsins undanfarnar sjö vikur hefur ríkisstjórnin fengið stuðning frá stjórnarandstöðunni, a.m.k. að hluta til. Þó hafa ákveðnir þingmenn hennar haft ákveðna fyrirvara við sumt eins og eðlilegt er. En í öllum aðalatriðum hefur verið unnið með stjórnarandstöðunni eins og hægt er og í góðri sátt. Ég nefni sem dæmi setningu neyðarlaganna 6. október sl. og aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum en við bæði þau mál var stuðningur frá stórum hluta stjórnarandstöðunnar. Skýtur það ekki skökku við í kjölfarið á þannig vinnubrögðum og samstarfi á þinginu að bera fram tillögu um vantraust á ríkisstjórnina? Sá stuðningur sem lykilaðgerðir ríkisstjórnarinnar fengu á sínum tíma gerir þessa vantrauststillögu óskiljanlega og sýnir í hnotskurn þann leikaraskap sem að baki býr.

Herra forseti. Þegar jafnstór áföll verða og íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum að undanförnu vakna eðlilega margar spurningar hjá fólki. Það er skiljanlegt og eðlilegt. En þær spurningar mega ekki eingöngu snúa að fortíðinni og því sem er að baki heldur verðum við líka að horfa til framtíðar og velta því fyrir okkur hvað við getum lært af því sem gerst hefur. Um leið og við hljótum að spyrja hver beri ábyrgðina verðum við líka hvert og eitt að taka þá ábyrgu afstöðu að vera þátttakendur í að snúa vörn í sókn fyrir íslenskt samfélag, heimili og fjölskyldur.

Ég veit að margir eru kvíðnir, hagur okkar allra hefur versnað og framtíðarhorfur eru óljósari en áður. Sumir horfa fram á þrengingar og aðrir fram á raunverulega erfiðleika. Þeir sem hafa verið óheppnir eða of djarfir í fjárfestingum hafa margir misst allt og jafnvel hinar venjulegustu fjölskyldur horfa upp á slæma stöðu eða jafnvel vonlitla. Við þessar aðstæður væri óskandi að það væri í valdi stjórnvalda að leysa úr öllum vanda en slíkt tal væri falskt og engum til góðs. Ég get þó sagt að þrátt fyrir að næstu missiri muni reyna mjög á okkur höfum við engu glatað af þeim verðmætum sem gera Ísland eitt lífvænlegasta samfélag heims. Auðlindir okkar á hafi og landi eru undirstaða öflugs iðnaðar og útflutnings. Menntun þjóðarinnar og tungumálakunnátta gerir okkur kleift að leita tækifæra og markaða víða um heim. „Íslenska vonin, af bjartsýni full“ er líka auðlind því að hún gerir okkur kleift að sjá fram úr erfiðleikunum og treysta á eigin rammleik, dugnað og hæfileika til að skapa nýjungar og gera úr þeim verðmæti sem gagnast okkur öllum.

Sú tillaga sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mælti hér fyrir áðan ásamt öðrum formönnum stjórnarandstöðuflokkanna, sem flytja hana með honum, virðist vanhugsuð enda líklega sett fram í fljótræði án mikillar ígrundunar eða yfirlegu og einkum í þeim tilgangi, sýnist mér, að kalla fram óróa frekar en að tillögusmiðirnir telji raunverulegar líkur á að tillagan nái fram að ganga. Það er ekkert vit í því að steypa þjóðinni út í kosningabaráttu og hatrammar deilur og skilja landið eftir stjórnlaust nú um hávetur á þeim mánuðum sem í hönd fara. Það er ekkert vit í því að ekki verði starfhæf ríkisstjórn í landinu á meðan fólk og fyrirtæki þurfa nauðsynlega á því að halda að leyst verði úr brýnustu vandamálum. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna leggja nú til, þegar öllu skiptir að Ísland endurheimti traust á alþjóðavettvangi, að ríkisstjórnin láti af störfum og við efnahagslega óvissu verði bætt fullkominni pólitískri óvissu.

Formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sér áreiðanlega í hillingum að geta innleyst þann pólitíska hagnað sem hann þykist sjá í skoðanakönnunum en um hag þjóðarinnar eða hagsmuni er því miður lítið skeytt. Af fullkomnu ábyrgðarleysi er haldið út í þennan leiðangur og hlýtur það að vekja kjósendur til umhugsunar um hvernig skipherrar þeir væru sem fara svona fram þegar mikið liggur við. Mig grunar að formönnum stjórnarandstöðuflokkanna sé vel kunnugt um það og þessi tillöguflutningur þjóni ekki öðrum tilgangi en þeim að beina að þeim tímabundnu fjölmiðlakastljósi því að þeir vita mætavel að stjórnin hefur öflugan meiri hluta og hún mun ekki falla í þeirri atkvæðagreiðslu sem fer fram hér síðar í dag.

Ágætu tilheyrendur. Herra forseti. Þeir sem bjóða sig fram til þess að sitja á Alþingi vita ekki alltaf hvaða verkefni muni mæta þeim og hvaða aðstæður muni rísa. Oft kann að virðast sem stjórnmál séu hálfgerður málfundur, það kann þeim að finnast sem t.d. fylgjast í sjónvarpi með umræðum hér á Alþingi. En nú eru ekki þannig tímar. Við sem vorum kosin þann 12. maí 2007 gátum ekki látið okkur detta í hug að við stæðum frammi fyrir svo viðamiklum verkefnum sem nú blasa við. Með því að gefa kost á okkur til að sinna þessum störfum gáfum við þjóðinni þá skuldbindingu að sinna þeim störfum, hvort sem þau eru auðveld eða erfið og hvort sem þau eru ánægjuleg eða óþægileg. Sú ríkisstjórn sem nú er við störf hefur traustan þingmeirihluta og er samhent í því verkefni að leiða íslensku þjóðina út úr þeim þrengingum og þeirri kreppu sem við blasir. Það er ekki í eðli okkar Íslendinga að hopa af vettvangi þegar mest á reynir og það sama á við um ríkisstjórnina. Við munum halda ótrauð áfram.