136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[15:31]
Horfa

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Mikið er talað um vaktaskipti hér í þessum stól í dag. Nú síðast talaði hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra og fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks til einna tólf ára, held ég, um hvað hafði gerst á hvaða vakt. Ef ég man rétt voru ný lög um Seðlabankann og ný lög um Fjármálaeftirlitið sett á vakt Framsóknarflokksins og af honum og þegar núverandi seðlabankastjóri var ráðinn var Framsóknarflokkurinn svo sannarlega á vaktinni. Ég held því að menn ættu kannski að fara svolítið varlega í sitt vaktatal í þessu samhengi (Gripið fram í.) en menn velja auðvitað hvernig þeir fara í það.

Frú forseti. Öllum í þessum sal er ljóst að enginn á valdið annar en fólkið í landinu. Það á enginn ráðherrasætið sitt, það á enginn þingmannssætið sitt, því er úthlutað í kosningum. Ég held að það sé hollt að við höfum það í huga í þessari umræðu, það vill stundum gleymast hérna á milli kosninga.

Við núverandi aðstæður í samfélaginu hafa Íslendingar að mínu viti sýnt úr hverju þeir eru gerðir. Það er í raun með ólíkindum að fylgjast með deiglunni, gerjuninni og gróskunni sem er í samfélaginu við þær erfiðu aðstæður sem nú er við að etja. Það sýnir úr hverju Íslendingar eru gerðir. Ég held því fram að þessar aðstæður séu með þeim erfiðustu ef ekki þær erfiðustu sem stjórnvöld hafa þurft að glíma við á lýðveldistímanum, í 64 ár, og þá tel ég þorskastríðið með.

Það er mikil deigla meðal almennings, sem fjölmargir opnir fundir og heilmikil umræða, hvort sem hún er í blöðum eða á netinu eða annars staðar, sýnir okkur og það er vel og í henni felst afar gott aðhald. Innan stjórnmálaflokkanna er líka mikil deigla, þar á meðal í mínum flokki, Samfylkingunni. Það er líka mikil deigla í Sjálfstæðisflokknum og í Framsóknarflokknum sem ætla báðir að halda landsfund í upphafi næsta árs og væntanlega takast á við grundvallarframtíðarspurningu, spurninguna um aðild að Evrópusambandinu, en hingað til hefur Samfylkingin ein haft slíkt á sinni dagskrá.

Við vitum öll að lausafjárkreppan er alþjóðleg, hún er alþjóðleg og miklu fleiri ríki en Ísland þurfa að glíma við hana. Við vitum líka að gjaldeyriskreppan okkar er algjörlega heimatilbúin, úr mynt sem er u.þ.b. að syngja sitt síðasta.

Hér er mikið talað um að rekja þurfi hvaða mistök voru gerð, ég er því algjörlega sammála. Öllum steinum verður að snúa við og þeim verður snúið við. En enginn verður hengdur án dóms og laga. Fyrst fer rannsóknin fram, fyrst þurfum við að fá allar staðreyndir upp á borð og ræða þær eins og þær eru. Auðvitað þarf að axla ábyrgð, það segir sig sjálft, og auðvitað þarf að gera upp við spillinguna, eins og sumir kalla það, og það má alveg kalla það spillingu. Skúrkarnir þurfa að svara fyrir sig, þannig er það bara. Þannig er það í samfélagi sem kennir sig við lög og rétt. Það verður gert og að því hefur verið unnið og að því er verið að vinna. Ég fullyrði að hver einasti ráðherra í ríkisstjórn Íslands og hver einasti þingmaður í þessum sal hefur gert allt sem hann eða hún getur til að vinna okkur út úr þessari erfiðu stöðu. Menn hafa lagt nótt við dag.

Það getur vel verið að einhverjum hafi verið mislagðar hendur, það getur líka vel verið að upplýsingum hafi ekki verið komið nógu fljótt eða nógu skipulega eða nógu skilmerkilega til almennings eða jafnvel til þingmanna, en ég tel reyndar að sú skipan öll hafi batnað mjög á síðustu dögum og vikum. Og það má alltaf gera betur, það er alveg rétt. (Gripið fram í.)

Hér flytur stjórnarandstaðan, stjórnarandstöðuflokkarnir þrír, tillögu um vantraust á ríkisstjórn Íslands. Það er mikið talað um ósamlyndi á stjórnarheimilinu og ósamstæða ríkisstjórn. Sem ég sat hér á bekknum var ég að velta því fyrir mér hvað væri svona samstætt við stjórnarandstöðuna. Hún er samsett úr þremur stjórnmálaflokkum. Einn heitir Frjálslyndi flokkurinn. Á þingi fyrir hann eru fjórir þingmenn sem mér sýnist að eigi það eitt sameiginlegt að vera karlmenn. Annar flokkurinn er Framsóknarflokkurinn, þar sem (Gripið fram í.) — það fer eftir því hvernig á það er litið, hv. þingmaður, — tveir ágætir þingmenn hafa nýlega sagt af sér og sem er á kafi í formannsslag og innbyrðisátökum (Gripið fram í.) sem ég hef svo sem enga sérstaka þekkingu á. Hv. þingmenn, ég les bara blöðin og hlusta á fréttir.

Síðan er það Vinstri hreyfingin – grænt framboð, þeir ágætu vinir mínir, ekki síst í umhverfismálunum, en þar eru nú réttnefndir einangrunarsinnar á ferð og þar eigum við enga samleið. (Gripið fram í.) Miklir alþjóðasinnar en ég hef ekki séð það enn. Það eina sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt til í þessari umræðu er nýsköpun einhverrar þjóðernishyggju sem segir okkur að útlendingar séu vondir og við eigum allra síst að semja við þá, (Gripið fram í.) alls ekki, allt vont kemur frá Brussel. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sem kallar hér fram í, hefur annaðhvort miklar áhyggjur af hinum félögum sínum í stjórnarandstöðunni eða móðurlegar áhyggjur af því hvernig okkur líði í ríkisstjórn Íslands. Það er ágætt að gera það. (Gripið fram í.) Það er ósköp einfaldlega þannig að stjórnarandstaða sem vill láta taka sig trúanlega og vill láta taka mark á sér þarf þá að koma fram sem samstæð heild og það veit ég af því að ég var í átta ár í stjórnarandstöðu. Hún þarf að koma fram sem samstæð heild og hún þarf að koma fram með sameiginlegar tillögur ef það á að vera hægt að vinna með þær tillögur sem frá henni koma. (Gripið fram í.) Ef hún hefur það eitt til málanna að leggja að best sé að ganga til kosninga á aðventunni er það mjög lítið framlag í þær umræður sem hér þurfa að fara fram. (SJS: Vildi ekki Samfylkingin í Garðabæ kjósa? Hvað með Samfylkinguna í Garðabæ?) Samfylkingin í Garðabæ hefur ályktað um það og það hafa reyndar mörg önnur félög innan Samfylkingarinnar gert og um þessi mál hefur verið tekin mikil umræða í Samfylkingunni enda hef ég — eins og fram kom fyrst í ræðu minni — sagt að það sé mikil deigla og mikil gerjun innan Samfylkingarinnar í þessum málum.

En nú er ekki rétti tíminn til að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórn Íslands, það er bara ósköp einfaldlega þannig. (Gripið fram í.) Aðventuna á ekki að nýta til kosningabaráttu, þannig er það nú bara, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Ef menn hefðu ekki þóst vera svona snjallir og ætlað t.d. að taka einhverja ráðherra í bólinu, eins og þá sem hér stendur, hefðu þeir kannski átt að skoða tillöguna sína aðeins betur áður en hún fór í dreifingu á þinginu. (Gripið fram í.) Þannig er það að nú er ekki tími til þess að lýsa vantrausti á ríkisstjórn Íslands, við erum í miðjum björgunarleiðangri, við höfum lagt nótt við dag í átta vikur við að gera það sem gera þarf og því verður haldið áfram á næstu vikum, frú forseti.