136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[15:46]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur brugðist þjóðinni. Skipstjóri sem strandar skipi er ævinlega látinn taka pokann sinn og missir réttindin. Þegar skipstjóri strandar skipi með stýrimennina uppi í brú hjá sér missa þeir allir réttindin.

Miklar hörmungar hafa gengið yfir fólkið í landinu síðustu vikur og eiga eftir að verða verri. Við sjáum enn kannski ekki nema toppinn af ísjakanum. Atvinnuleysi á eftir að aukast og hörmungarnar eiga eftir að verða meiri en þær eru í dag. Þær tillögur sem ríkisstjórnin hefur komið með hafa ekki orðið fólkinu í landinu að gagni. Þetta hafa verið yfirborðskenndar tillögur sem litlu skila til fólks sem stendur og lifir í hörmungunum, hvort sem um er að ræða breytingar á Íbúðalánasjóði eða aðrar aðgerðir. Þær hjálpa fólki ekki út úr vanda.

Verðtrygging lána eða erlend lán eru ekki fryst, þótt ekki væri nema tímabundið í einhverja mánuði á meðan mesta óveðrið gengur yfir. Ekki er tekið á málum með neinum alvöruaðgerðum. Þetta er yfirklór, eitthvað sem engu máli skiptir.

Þess vegna er ég mjög hissa á umhverfisráðherra þegar hún bullar tóma þvælu um hvað aðrir stjórnmálaflokkar vilja eða hafa viljað gera. Hæstv. umhverfisráðherra bullar tóma þvælu um það sem er að gerast í þjóðfélaginu og stendur í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu bæði á Bakka við Húsavík (Gripið fram í: Hættu nú að bulla.) og eins við stækkun á álveri í Helguvík. Þetta eru staðreyndir og hæstv. umhverfisráðherra er beinlínis fyrir og veldur miklu tjóni og því að færri störf verða til en ella og minni gjaldeyristekjur koma inn í þjóðfélagið.

Fyrir tæpu ári fékk ríkisstjórnin vitneskju um að verið væri að brjóta mannréttindi á sjómönnum á Íslandi. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna ályktaði um það og álit hennar var að mannréttindi væru brotin með því að mismuna mönnum með aðgengi að veiðiheimildum og leyfa sumum, sem fengu ókeypis veiðiheimildum úthlutað á hverju ári, að selja öðrum. Síðan var sá þáttur sem snýr að sjómönnum vestur á fjörðum sem mannréttindi voru brotin á.

Þetta blessar Samfylkingin með íhaldinu og segir að sé allt í lagi og hugsar ekkert um þessi mál. Auðvitað eiga stjórnarflokkarnir að skammast sín fyrir svona vinnubrögð og hafa vit á því að taka sér tak og kippa svona málum í lag við aðstæðurnar sem við búum við nú um stundir.

Ekki þarf að tala um Seðlabankann og klúðrið sem hefur verið þar og í kringum hann, sem margir hagfræðingar hafa varað við, jafnvel í tvö og þrjú ár. Auðvitað er sorglegt að þegar stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt ríkisstjórnina, hefur henni verið svarað með stanslausum útúrsnúningum og ömurlegheitum og meðlimir hennar jafnvel kallaðir dónar og vitlausir að skilja ekki hvað ríkisstjórnin væri að gera. Fjölmiðlafólk sem hefur spurt spurninga hefur jafnvel verið kallað dónar.

Eftir nokkra daga á þjóðin afmæli og 90 ár liðin síðan hún varð fullvalda. Við stöndum frammi fyrir því á 90 ára afmæli okkar að þurfa að hafa samband við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hvort megi hækka eða lækka stýrivexti. Við þurfum að hafa samband við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um hvort við megum fara fram úr fjárlögum eða ekki og hvað mikið. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa blessun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir öllu sem við ætlum að gera. Þetta er sorgleg staðreynd þegar við ættum að fagna og vera ánægð með að hafa verið fullvalda ríki í 90 ár. En það er aldeilis ekki uppi á borðinu. Við höfum sennilega aldrei frá því 1918 haft jafnlítið um mál okkar að segja og nú. Nánast komin upp á aðra með það sem við viljum gera á flestum sviðum.

Síðast en ekki síst eru nýju bankarnir. Það er sorglegt til þess að vita að nú er verið að deila út fyrirtækjum, skera af skuldir og leyfa mönnum að kaupa hluta af fyrirtækjum út. Spurning hvort þau eru rétt verðlögð eða ekki. Það þurfum við að stoppa og leyfa öðrum að komast að. Leyfa fjárfestum sem eiga fjármagn og aðgang að fjármagni að vera þátttakendur í að eignast fyrirtæki sem eru það skuldsett að þau eiga raunverulega að fara í gjaldþrot.