136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það eru stór skref að lýsa yfir vantrausti á ríkisstjórnina. Á þeim tímum sem við lifum þarfnast þjóðin einskis meir en samstöðu og samvinnu allra þeirra sem lagt geta hönd á plóginn í því erfiða verkefni sem þjóðin glímir við. Því miður hefur það sýnt sig að fjölmenn ríkisstjórn þýðir ekki styrkleika fyrir þjóðina eða hagsæld eins og skelfileg staða í efnahagsmálum sýnir.

Frá upphafi stjórnarsamstarfsins tók annar stjórnarflokkanna þá stefnu að segja eitt en framkvæma annað. Það má vel vera að slíkt sé líklegt til vinsælda en þjóðin hefur einfaldlega liðið fyrir það. Sú umræðupólitík sem tekin var upp hefur ekki gert neitt annað en að tala upp í eyrað á fólki og reka áróður fyrir því að verið sé að vinna að hlutum sem alls ekki er verið að vinna að.

Hér kom hæstv. utanríkisráðherra áðan og sagði að ríkisstjórnin hefði vissulega verið að tala um vandann, tala um fjármálalífið, tala um heimilin. Það má vel vera en hefur hún komið með aðgerðir? Er staðan hjá þjóðinni þannig að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi dugað? Nei, þvert á móti. Hefði ekki verið betra að tala krónuna upp en ekki niður eins og Samfylkingin hefur gert á undanförnum missirum?

Málflutningur okkar framsóknarmanna hefur verið skýr. Þótt stutt sé síðan flokkurinn fór í stjórnarandstöðu hefur málflutningur okkar verið málefnalegur og sanngjarn: Þjóðin gengur fyrir. Við höfum heldur ekki látið okkar eftir liggja í að koma góðum málum í gegnum þingið þótt fyrirvarinn hafi oft verið stuttur.

Það er óvissan sem enn nagar fólk og heimilin í landinu, óvissan um hvort fólk haldi yfirleitt vinnunni sinni á morgun, hvort það þurfi að taka á sig enn frekari launalækkanir. Óvissan um það hvort það nái að standa undir afborgunum um næstu mánaðamót, hvort það haldi húsinu sínu og hvort það eigi í sig og á á næstu mánuðum. Það er óvissan sem ríkisstjórnin þarf að eyða og það hefur hún ekki gert. Ríkisstjórn þar sem stjórnarliðar ráðast hver á annan er ekki fær um að eyða þessari óvissu og þess vegna styð ég þessa vantrauststillögu.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hefði ekki verið nær að koma hér og eyða þessari óvissu í stað þess að vera með útúrsnúninga um formgalla á þingsályktunartillögunni sem er ekkert annað en hrein og klár blekking? Það kemur skýrt fram að Alþingi lýsi yfir þeim vilja sínum að þing verði rofið fyrir 31. desember og efnt verði til almennra þingkosninga í framhaldinu. Þetta ber ekki að skilja svo að það eigi að kjósa á gamlársdag. (Gripið fram í.)

Fyrr í umræðunni sagði hæstv. forsætisráðherra að ekki hefði verið hægt að sjá fyrir efnahagsvanda heimilanna. Sú fullyrðing gengur einfaldlega ekki upp því að allar aðrar vestrænar þjóðir gripu strax til efnahagsaðgerða meðan hér var setið auðum höndum. Nú koma hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra fram og furða sig á vantraustsyfirlýsingunni, hún kom algjörlega flatt upp á þau. Stjórnarandstaðan er jafnvel sökuð um að skapa óróa í landinu. Þá vil ég segja: Hverjir hafa óskað eftir kosningum? Voru það ekki þingmenn ríkisstjórnarinnar? Hverjir hafa komið fram og lýst því yfir að stjórnarsáttmálinn væri ónýtt plagg? Voru það ekki þingmenn stjórnarinnar? Eru það ekki fyrst og fremst þingmenn stjórnarinnar sem hafa (Forseti hringir.) lýst vantrausti á sjálfa sig?