136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[16:54]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ríkisstjórn hæstv. ráðherra Geirs H. Haarde og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur er rúin trausti þjóðarinnar. Þau eru kannski ein um það að gera sér ekki grein fyrir því, lokuð inni í sinni veruleikafirringu. Það er fróðlegt að rifja upp hvað hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, var lukkulegur í upphafi ríkisstjórnar með Samfylkingunni. Þar sagði hann, með leyfi forseta, í Morgunblaðinu 30. september 2007:

„Það eru ótrúlega miklir möguleikar fram undan sem Samfylkingin er tilbúin til að vera með okkur í en aðrir flokkar hefðu ekki gert.“

Það var spennandi og nú á síðasta flokksráðsfundi sagði hæstv. menntamálaráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins í viðtali í sjónvarpinu: „Núna eru geysilega skemmtilegir og spennandi tímar fram undan fyrir okkur sjálfstæðismenn.“ Já, en ég er ekki viss um að það séu eins skemmtilegir og spennandi tímar fyrir þjóðina.

Það hefur verið sagt að þessi efnahagskreppa sé eins um allan heim og við séum að súpa seyðið af því. Hvar hafa verið sett hryðjuverkalög í öðrum löndum, eins og voru sett á Íslendinga, íslensk fyrirtæki? Hvergi. Hvar hefur heilt ríkjasamband eins og Evrópusambandið gengist undir og samþykkt að sett verði hryðjuverkalög á heila þjóð? Hvar hefur það komið fram að þeir séu sóttir til saka sem verða þess valdandi að hryðjuverkalög verða sett? Eru það ekki einhverjir? Ganga þeir allir lausir? Á bara að segja: Ekki benda á mig, ekki benda á mig, það er bara þjóðin.

Ef við lítum á þær aðgerðir sem nú er verið að vinna að — verið er að tala um að ríkisstjórnin sé að grípa til svo merkilegra aðgerða, auðvitað að skipan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hverjar voru þær fyrstu? Stórkostleg hækkun á stýrivöxtum sem eru að sliga allt atvinnulíf í landinu. Hver var hin tilkynningin? Hin tilkynningin var stórfelldur niðurskurður í velferðarkerfinu. Af því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur ekki kannast við bréfasendingar síns eigin ráðuneytis, þá stendur hér, með leyfi forseta: „Sent á allar stofnanir heilbrigðisráðuneytisins. Efni: Áríðandi. Óskað er eftir tillögum frá stofnunum um a.m.k. 10% niðurskurð frá fjárlagafrumvarpi 2009 sem senda skal ráðuneytinu eigi síðar en þriðjudaginn 18. nóvember nk.“

Það er feitletrað í þessu bréfi til þessara stofnana að lækka útgjöld sem nemi a.m.k. 10%. Síðan kemur hæstv. heilbrigðisráðherra í fjölmiðla og segir að þetta sé ekki satt. Það er aumt. Það er bölvað að gera slæma hluti en verra að fara með ósannindi.

Frú forseti. Það hefur líka verið rætt um hæstv. landbúnaðarráðherra. Hvert var fyrsta málið sem hann ætlar að flytja varðandi landbúnað? Það er hömlulaus innflutningur á hráu kjöti sem mun rústa bæði matvælaiðnaði og fæðuöryggi þjóðarinnar. Hæstv. ráðherra hefur ekki enn bakkað með þetta frumvarp sitt um að innleiða Evrópulöggjöfina um matvæli sem hefur þetta í för með sér. Er það ekki veruleikafirring, forseti?

Fulltrúar Seðlabankans og Hagfræðistofnunar komu á fund fjárlaganefndar í morgun til að greina frá ákveðnum atriðum í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar kom fram að þeir töldu að það þyrfti alla upphæðina, eða 1.400 milljarða íslenskra króna, til að mæta þessari fjárþörf. Forsætisráðherra segist ekki þurfa að nota nema brot af því. Hann er ekki að segja satt, held ég. Samfylkingin kallar á Evrópusambandið til að koma til bjargar. Í upplýsingum sem við fengum í morgun var sagt að í fyrsta lagi eftir 2014 gangi allt svo vel að okkur takist að uppfylla öll þau skilyrði sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn setur. Það sé í fyrsta lagi eftir 2014 sem megi hugsa sér að við getum uppfyllt einhver þau skilyrði sem gæti réttlætt það að við gætum sótt um aðild að Evrópusambandinu á þeim grunni.

Frú forseti. Spaugstofan sér hlutina með augum þjóðarinnar. Ríkisstjórnin og æðstu stjórnendur fjármála og bankalífs í landinu, sem hafa komið þjóðinni í þessa stöðu, sitja sem fastast. Ekki benda á mig, ekki benda á mig, hrópar hver þar. Þar segir enginn af sér. Þar er enginn sóttur til saka. Þetta er allt þjóðinni að kenna. Það er þjóðin sem verður að segja af sér eins og Spaugstofan komst svo rækilega vel að orði. Ég er á annarri skoðun: Ríkisstjórnin á að hafa þá sjálfsvirðingu til að bera að hún geti horfst í augu við þjóðina, sagt af sér og boðað til kosninga og tekið afleiðingunum.