136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[17:16]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við lifum mikla ólgutíma eins og við höfum öll orðið vitni að í dag. En það er merkilegt að heyra forustumenn stjórnarinnar koma hér hvern á fætur öðrum upp í ræðustól, alveg yfir sig fulla af sjálfsánægju. Ríkisstjórnin hefur nú aldeilis töglin og hagldirnar og hefur haldið vel utan um öll mál og það er alveg gjörsamlega óábyrgt af einhverri lítilli stjórnarandstöðu að varpa því inn í þingsalinn sem er altalað úti í samfélaginu að stjórnin hafi ekki staðið við sitt. Eða er það svo þegar alþjóðlegir fjölmiðlar segja að íslensk stjórnvöld séu aðhlátursefni að það sé bara eitthvert snakk? Staðreyndin er sú að alþjóðasamfélagið ber ekki traust til íslenskra stjórnvalda í dag og það er m.a. þess vegna sem við komum hér upp og tölum um það að við viljum sjá kosningar á næsta ári.

Misheyrðist mér eitthvað í síðustu viku, frú forseti, eða voru það ekki tveir ráðherrar í Samfylkingunni sem töluðu fyrir því að það ætti að kjósa á næsta ári? Hefur ekki varaformaður Samfylkingarinnar talað fyrir því að það ætti að kjósa á næsta ári? Hafa ekki fleiri þingmenn Samfylkingarinnar talað fyrir því að það ætti að kjósa á næsta ári? Lifi ég bara í einhverjum draumaheimi hérna? Svo koma fulltrúar stjórnarinnar og tala um þá fásinnu að okkur detti í hug að það eigi að kjósa á næsta ári. Hvað er að marka þessa ríkisstjórn, hæstv. forseti?

Það hefur verið merkilegt að hlusta á Samfylkinguna. Samfylkingin er ein í heiminum. Hún ber sko enga ábyrgð á stöðu efnahagsmála í dag. Hún varpar ábyrgð á stöðunni í dag algjörlega á síðustu ríkisstjórn og þar á meðal á þá ágætu herramenn, hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins, að það sé í raun og veru allt þeirri ríkisstjórn að kenna.

En staðreyndin er sú að Samfylkingin hefur farið með yfirstjórn bankamála í eitt og hálft ár. Samt voga fulltrúar Samfylkingarinnar sér að koma hér í umræðuna og varpa af sér allri ábyrgð. Þessi málflutningur hjá þingmönnum Samfylkingarinnar sem ég kalla lýðskrum dæmir sig fullkomlega sjálfur. Auðvitað ber Framsóknarflokkurinn sína ábyrgð á stöðu efnahagsmála í ljósi forsögu sinnar. En það er fráleitt að hlusta á núverandi stjórnarflokk Samfylkingarinnar sem toppar alla stjórnarandstöðuna í málflutningi sínum og hamast allra mest á samstarfsflokknum, sem er Sjálfstæðisflokkurinn. Þetta hlýtur að sýna okkur fram á það, frú forseti, að það er ekki búandi við þessa stjórn. Keisarinn er nakinn. Hann er ekki í neinum fötum. Þetta er ósamstarfshæf ríkisstjórn.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu því það hefur gjörsamlega gengið fram af mér að hlusta á málflutning stjórnarinnar talandi um að hún standi einhuga þegar yfirlýsingar ráðherranna eru eins misvísandi og raun ber vitni. Það er einfaldlega ótrúlegur vandræðagangur sem hefur einkennt íslenskt samfélag á síðustu sex vikum. Hver samfylkingarmaðurinn hefur komið fram á fætur öðrum og lýst yfir vantrausti á yfirstjórn Seðlabankans. Sömu yfirstjórnina og á að taka við fjármunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Yfirstjórn Seðlabankans hefur ekki farið frá þó að forustumenn Samfylkingarinnar segi eitthvað annað. Það er alveg ljóst að Samfylkingin er bæði í stjórn og hún er líka í stjórnarandstöðu í þessari ríkisstjórn og almenningur mun dæma þá stjórnarhætti sem eru ekki boðlegir. Og ég hafna því algjörlega að stjórnarliðar skuli koma hér upp hver á fætur öðrum eins og allt sé í himnalagi á stjórnarheimilinu. Það er nefnilega ekki þannig og það dylst engum, frú forseti.