136. löggjafarþing — 34. fundur,  24. nóv. 2008.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

173. mál
[18:03]
Horfa

Helga Sigrún Harðardóttir (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir innihaldsríka og málefnalega ræðu. Ég hefði samt haldið að stjórnarliðar hefðu kosið á þessum degi að verja tíma sínum í annað en að lesa upp úr landafræðibókum svo ég lýsi yfir vonbrigðum. Ég varð líka fyrir miklum vonbrigðum með ræðu hæstv. dómsmálaráðherra áðan þegar hann leitaði svara við því hvers vegna ætti að samþykkja þingsályktun um vantraust á ríkisstjórnina. Hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra ætti að vera ljóst að stjórnvöld sækja umboð sitt til fólksins í landinu. Það umboð hefur ríkisstjórnin ekki lengur og um það snýst tillagan. Hún snýst um það að almenningur treystir ekki fólki sem treystir sér ekki til að skipta um seðlabankastjóra. Það treystir ekki fólki sem nýtir hernaðaráætlanir til að slá skjaldborg um forstjóra Fjármálaeftirlitsins svo fjölmiðlar geti ekki spurt hann óþægilegra spurninga. (Gripið fram í.) Það treystir ekki fólki sem kemur sér ekki saman um peningamálastjórn og það treystir ekki fólki sem keppist við að selja eigið ágæti þótt verk þess sýni allt annað og ágætið sé löngu horfið.

Kannski er tímabært að spyrja formann Samfylkingarinnar út í Borgarnesræðurnar. Hvar eru samræðurnar, frjálslynda lýðræðið og umburðarlyndið? Hvar eru nýju leikreglurnar, nýja inntakið og nýja ímyndin? Hvar er nútímaleg og árangursrík stjórnsýsla ríkisins? Hvað varð um loforðin um að verða raunverulegt mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn? Samfylkingin flutti á fyrsta degi inn í Valhöll og tók upp stefnu hans. Hún bráðnaði eins og páskaegg í sólskini við fyrsta kossinn undir gömlum húsvegg á Þingvöllum.

Samfylkingin ætlaði sér örugglega meira í samstarfi við íhaldið. En nú stendur hún, virðulegi forseti, í þingsal, geltir eins og smárakki á bolabítinn öðru hvoru og eltir hann þess á milli með skottið á milli lappanna.

Virðulegi forseti. Á þeim stutta tíma sem ég hef átt sæti á hinu háa Alþingi hefur mér orðið tíðrætt um vinnubrögð, sem miða að því að örfáir útvaldir, miðaldra gæðingar sitja að völdum og deila þeim á milli sín eins og ránsfeng. Vinnubrögð sem kostað hafa þjóðina morðfjár. Það er liðin tíð að slíkt geti viðgengist í upplýstu, vel menntuðu og vel meinandi samfélagi.

Í umræðu sem hér fór fram fyrir nokkrum dögum gat hæstv. ríkisstjórn ekki séð sér fært að taka þátt í umræðunni um neyðarlánið mikla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nema rétt framan af degi. Þingmennirnir sem viðruðu skoðanir sínar á samningi um 700 milljarða kr. lán sem sjálfstæðismenn gerðu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn án nokkurrar þátttöku Alþingis töluðu fyrir tómu húsi þegar leið á daginn. Við það að einn einasti áhorfandi prílaði upp á bekk í húsinu fjölgaði í þingsalnum um 20%, úr fimm í sex að meðtöldum hæstv. forseta. Hvar var ríkisstjórnin daginn sem löggjafarþingið ræddi um hennar eigin tillögur um lántöku sem leggja mun þungar byrðar á komandi kynslóðir? Hvar var hún, hæstv. forseti? Fannst ríkisstjórninni kannski að þingið væri aukaatriði í þessu öllu saman, hún færi hvort sem er með öll völd, að þingið væri leiðinlegt formsatriði. Alls staðar í samfélaginu hefur fólk slíðrað pólitísk sverð og tekið höndum saman við að leita lausna á vandamálum. Sveitarfélögin hafa farið þar á undan með góðu fordæmi og þar eru víðast hvar allir kraftar vel nýttir. Slíkum vinnubrögðum er ekki fyrir að fara hér, virðulegi forseti. Þegar mest ríður á er flestum þeirra fulltrúa sem falið var löggjafarvaldið af þjóðinni haldið í myrkrinu og þeir lesa um helstu tíðindi í fjölmiðlum, eins og ekki sé full þörf á að nýta margt af því góða fólki sem hér situr. En ríkisstjórn landsins hefur ekki kjark til að kalla fleiri að borðinu. Hún hefur ekki dug til að leysa sjálf úr þeim hnútum sem hún svo vandlega hnýtti á meðan hún sat að tedrykkju framan af árinu og hún hefur heldur ekki þor til að stíga til hliðar og leyfa fólkinu í landinu að endurnýja umboð hennar. Eða ekki. Við hvað er hún hrædd? Að ástandið verði verra? Lengi getur vont versnað, virðulegi forseti. Fólkið í landinu er einmitt hrætt um það og þess vegna vill það skipta um stjórn. Það vill ný vinnubrögð, það vill djörfung og dug en ekki fleiri innihaldslausar klisjur eins og boðið hefur verið upp á í dag.

Virðulegi forseti. Ég held því ekki fram að núverandi ríkisstjórn sé illa meinandi, alls ekki. Ég held að þar sitji upp til hópa fólk sem vill virkilega leggja sig fram um að gera vel og meira að segja held ég að hæstv. dómsmálaráðherra hafi verið full alvara þegar hann talaði um meintan skort á málefnum varðandi umræðuna sem hér fer fram. En ríkisstjórninni eru dálítið mislagðar hendur í því vegna þess að ef hún er vel meinandi þá verður hún að viðurkenna að hún ræður ekki við verkefnið sem fólkið í landinu fól henni. Þó að kjörtímabilið sé fjögur ár er samt sem áður gert ráð fyrir því að hægt sé að rjúfa þing og boða til nýrra kosninga, það þarf engin geimvísindi til að finna það út.

Mönnum hefur verið tíðrætt um 6. október og samstöðu sem sýnd var í þinginu þann dag. Það var ekki samstaða með ríkisstjórninni sem framsóknarmenn sýndu þann 6. október þegar þeir stóðu frammi fyrir neyðarlögunum miklu. Það var samstaða sem framsóknarmenn sýndu fólkinu í landinu, enda var ekkert annað í boði. Það var ekkert plan B hjá ríkisstjórninni frekar en áður. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra og hæstv. utanríkisráðherra að á þessum tímapunkti eru ekki kjöraðstæður til að rjúfa þing og boða til kosninga í miðri björgunaraðgerð. En megnið af fólkinu í landinu treystir því ekki að það lifi björgunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar af. Það hefur séð vinnubrögð hennar framan af og veit að fyrst reynir maður að fyrirbyggja slys og svo reynir maður að koma í veg fyrir frekari slys. Þetta veit hvert mannsbarn en hvorugt tókst ríkisstjórn landsins og ég spyr: Ættu ekki þeir sem raunverulega veita umboðið að njóta vafans? Leiðin er greið, kæru vinir, og nákvæmlega ekkert sem stoppar ykkur nema ykkar eigin hagsmunir. Það er efsti hnappurinn í borðinu hjá ykkur sem merktur er já.